« Allra heilagra og allra sálna messurGekk Halldór Laxness í Benediktínaregluna? »

28.08.14

  19:26:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 291 orð  
Flokkur: Samkirkjuleg málefni, Önnur trúarbrögð

Samtal um siðbót - athugasemd

Í þættinum "Samtal um siðbót" [1] sem útvarpað var á RÚV rás 1 í gær, miðvikudag 27.8. 2014 féllu þau orð að kenning kaþólsku kirkjunnar um hreinsunareldinn væri ekki biblíuleg, þetta væri kenning sem fram hefði komið á 7. öld á tímum Gregors mikla. Sá sem svo mælti var gestur þáttarins dr. Gunnar Kristjánsson prófastur á Reynivöllum í Kjós.

Í tilefni af þessu ummælum mætti benda hlustendum Rásar 1 á pistilinn: "Af hverju vitum við að Hreinsunareldurinn er til[2]" eftir kaþólsku fræðikonuna sem skrifar undir dulnefninu Philumena. Í pistli Philumenu kemur fram að tilvist hreinsunareldsins megi ráða bæði af orðum Páls og Jóhannesar í Nýja Testamentinu sem og af ákveðnum ritningartextum í Gamla Testamentinu en þó aðallega í síð-kanónísku ritunum.

Vegna umræðunnar hefði einnig mátt koma fram að Marteinn Lúther tók nokkrar bækur út úr ritröð biblíunnar og kom þeim fyrir í viðauka. Þetta voru þó bækur sem samþykktar höfðu verið á kirkjuþingum sem hluti af biblíunni árin 393, 397 og 405. Vart þarf að taka fram að það voru helst bækur sem stönguðust á við kenningar Lúthers. Þetta voru hinar áðurnefndu síð-kanónísku bækur en þar á meðal voru einnig fjórar bækur Nýja Testamentisins, þetta voru Jakobsbréfið, Hebreabréfið, Jóhannesarbréfin og Opinberunarbókin. Sjá hér [3]. Sporgöngumenn Lúthers báru þó gæfu til að taka rit Nýja Testamentisins úr viðaukanum og koma þeim á sinn rétta stað að nýju.

Í dag eru flestir kaþólikkar líklega sammála Lúther hvað aflátssöluna sjálfa varðar því innan kaþólsku kirkjunnar fór einnig fram siðbót eins og fram kom í þættinum. Kenningin um hreinsunareldinn hefur samt staðist tímans tönn líkt og margt annað sem Marteini Lúther hugnaðist ekki innan kirkjunnar.

Heimildir:
[1]Samtal um siðbót http://dagskra.ruv.is/nanar/19259/, þegar um 6 mín. og 40 sek. eru liðnar af þættinum.
[2]Af hverju vitum við að Hreinsunareldurinn er til? http://www.kirkju.net/index.php/af-hverju-vitum-vie-ae?blog=14
[3]The 7 books removed by Martin Luther. http://www.ewtn.com/vexperts/showmessage.asp?number=438095

No feedback yet