« Jón Sveinsson, Nonni, í lifandi myndum!Verður kyngreining ófæddra til að fjölga fósturdeyðingum? »

21.10.07

  00:57:11, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 962 orð  
Flokkur: Málefni samkynhneigðar á sviði þjóðfélags og kirkju, Siðferði og samfélag, Biblíufræði

Samkynhneigðramál í brennidepli á nýhöfnu Kirkjuþingi

Lúthersk Þjóðkirkja heldur nú sitt Kirkjuþing, frá laugardegi til næstu helgar, og þar gætu úrslit ráðizt um afstöðuna til kröfugerðar um hjónavígslu eða staðfestingu samvistar samkynhneigðra frammi fyrir ölturum þeirrar kirkju. Ýmislegt hefur birzt í fjölmiðlum þar að lútandi, fréttir, viðtöl og greinar, og vil ég sérstaklega nefna ágæta Morgunblaðsgrein Steinunnar Jóhannesdóttur rithöfundar og innlegg hennar í Silfri Egils og kvöldfréttum Rúv í gær. Þá hef ég sjálfur skrifað allnokkuð um þessi mál síðustu daga á Moggabloggi mínu, þ.e. pistlana: "Samvizkufrelsi presta virt" – en hve lengi? 19. okt., Rangt þýdd vers í nýrri Biblíuútgáfu (þ.e. í ritum Páls postula, þar sem hann leggur blátt bann við samkynja kynmökum), Samkynhneigð o.fl. henni tengt: yfirlit fræðsluefnis, rannsókna, hugvekja og umræðna á Kirkju.net, og nýjast: Á að fordæma 'kynvillu' eða taka þátt í útvötnun boðskapar Biblíunnar eða einfaldlega halda sér við rétta merkingu hennar?

Hér er tengill beint inn á hljóðupptöku á fyrri umræðu Kirkjuþings í dag um tillögu biskups Íslands um samkynhneigðramálin, með framsögu hans fyrst (smellið á bláu línuna!) o.s.frv.

Nú er ég, á sömu vefslóð, að hlusta á framsögu Huldu Guðmundsdóttur djákna fyrir 15. máli Kirkjuþings, en hún flytur það með tveimur öðrum róttækum Þjóðkirkjumönnum. Tillaga þeirra gengur m.ö.o. lengra en tillaga biskups Íslands.

Hér er öll málaskrá þessa Kirkjuþings (19 mál alls), hér er tillaga [biskups Íslands] til þingsályktunar um Þjóðkirkjuna og staðfesta samvist (8. mál), og hér er tillaga [Huldu og félaga] til þingsályktunar um að prestar verði vígslumenn staðfestrar samvistar (15. mál). Þarna geta menn þá lesið ekki aðeins tillögurnar sjálfar, heldur greinargerðir með þeim að auki.

Og eitt innskot um Biblíuþýðingarmálið: Á þessari vefsíðu Útvarps Sögu er í dag (og til kl. 12 á morgun, þriðjudag) skoðanakönnun um eftirfarandi mál: 'Telur þú rétt að þýðendur geti breytt upprunalegri merkingu Biblíunnar?'

Hér er framhald af hljóðupptöku af fyrri umræðu Kirkjuþings í dag um samkynhneigðramálin.

Söguleg tíðindi eiga sér nú stað á Kirkjuþingi, þegar hingað er komið umræðunni um ofangreint mál. Í framhaldi hennar, á síðast tilvísaðri vefslóð, taka einnig til máls sr. Jón Helgi Þórarinsson (einn hinna róttæku), Dagný Halla Tómasdóttir (systir sr. Kristínar Þórunnar og báðar prestsdætur, báðar róttækar), dr. Hjalti Hugason prófessor (róttækur) og sr. Halldór Gunnarsson í Holti. Arnsúg sögunnar má skynja í ræðu hans, snjallri og afar skörulegri, og má komast svo að orði, að hann segi: "Hingað og ekki lengra!" þegar hann vísar til álits Kenningarnefndar, sem hinir róttæku vilja fara fram úr í tillögugerð sinni. Ég hvet alla til að hlusta á ræðu hans sérstaklega, en raunar á allar þessar ræður af gaumgæfni. Ætla ég ekki að vinna úr þeirri ræðu hans hér og nú, þótt hún verðskuldi það fyllilega, en þar þar talaði hann í fullri alvöru um, að hér geti stefnt til þess, að Þjóðkirkjan klofni beinlínis vegna þessa máls, og voru það þó ekki orð í alvöruleysi mælt, eins og skilst af öllu samhengi þeirra. En eins saknaði ég í ræðunni, þ.e.a.s. að hann minntist í engu á þau orð Dagnýjar Höllu, að taka bæri burt ákvæðið um að samvizku sinnar vegna mætti hver prestur neita því að inna af hendi þá þjónustu, sem felist í staðfestingu samvistar samkynhneigðra. Hér heyrum við strax þann tón, sem ég varaði við í þessari grein ("Samvizkufrelsi presta virt" - en hve lengi?), að koma myndi fljótlega upp, þ.e. að samvizkufrelsið yrði fyrir bí innan viss árafjölda. Ekki síður fannst mér þó alvarlegt að hlýða á orð dr. Hjalta um þetta sama mál, því að hann virðist einmitt hafa skilið eftir hálfopnar dyr fyrir því, að samvizkufrelsi prestanna verði með tímanum fótum troðið. Orðrétt segir hann þar: "Nú, það hefur verið rætt um samvizkufrelsi prestanna hér, og ég hygg, að eins og málið er vaxið, þá sé mikilvægt, að það sé vakin athygli á því, að málið sé með þeim hætti, að, svona, alla vega við núverandi aðstæður, þá sé hér undirstrikað, að samvizka presta og frelsi þeirra til að taka ákvörðun í þessu efni skipti máli og sé virt. Og þetta gerist stundum í kirkjum, þar sem verða, eigum við að segja: stórar breytingar, þar sem að guðfræði blandast inn í málið, að það er leyft svona ákveðið samvizkufrelsi, meðan breytingin er að ganga yfir alla vega og meðan prestar eru að taka afstöðu til þessara mála og kannski meðan ákveðin kirkjuleg þróun á sér stað. Hitt er svo annað mál, að það er spurning, hversu þungt á að leggja áherzlu á þetta atriði, það nægir nú kannski að nefna það bara einu sinni á snyrtilegan hátt, eins og það mun vera gert hér, að þeim prestum, sem það kjósa, verði heimilt að framkvæma þennan löggjörning, og það mundi þá vera látið nægja, og síðasta lína þriðja liðar [er] einfaldast, að falli brott." Hér hljóma hlutirnir sakleysislega, en ég fæ ekki betur séð en þessi gamli samnemandi minn úr Guðfræðideild sé að leggja til, að einungis verði kveðið á um heimild til presta að framkvæma gerninginn, en ekki bundið í samþykkt Kirkjuþings, að samvizkufrelsi ríki um það til frambúðar; og greinilega vill hann ekki lýsa því yfir, að samvizkufrelsið skuli gilda nema "meðan breytingin er að ganga yfir ... og kannski meðan ákveðin kirkjuleg þróun á sér stað." Lútherskir hafa hér margt að ígrunda ...

Umræðan á Kirkjuþingi hófst aftur kl. 15.15 í dag eftir kaffihlé, en þá var samþykkt að vísa báðum tillögunum (málum 8 og 15) til umfjöllunar Allsherjarnefndar Kirkjuþings, og koma þær – eða hugsanlega ný tillaga – þaðan úr afgreiðslu eftir þrjá daga, á fimmtudagsmorgni, til frekari meðferðar í síðari umræðu málsins.

PS. Nú, milli kl. 4 og 5, er Gunnar Þorsteinsson, forstöðumaður Krossins, í viðtali á Útvarpi Sögu (FM 99,4 hér í Reykjavík), en hann mun hafa staðið sig afar vel í þætti Egils Helgasonar í Sjónvarpinu í gærkvöldi, þar sem hann ræddi (eins og hér) um hina nýju Biblíuþýðingu og væntanlega um samkynhneigðramálin að auki. Þátturinn verður endurtekinn seinna í kvöld.

3 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Hvað átti dr. Hjalti við, þegar hann sagði í ræðu sinni fyrrnefndri: “síðasta lína [eða: liður] þriðja liðar [í tillögu biskups] er einfaldast, að FALLI BROTT"? – Jú, hann átti við, að fella skyldi burt þetta:

Kirkjuþing leggur áherslu á að þess verði gætt að um heimildarákvæði væri að ræða og að samviskufrelsi presta í þessum efnum verði virt.

Það er ljóst, að í hópi helztu ræðumanna róttækra viðhorfa eru beinlínis uppi tillögur um að virða ekki samvizkufrelsi presta, og því fylgja þeir eftir með tillöguflutningi sínum! Hér áður fyrr var Hjalti einn eindregnasti fylgismaður Hrein-Lúthersku (gnesiolutheranisma) sem um getur. Nú síðustu árin er hann fallinn ofan í þá nýguðfræði, sem hann bar litla virðingu fyrir, meðan hann var við guðfræðinám. Hann ætlar líklega stórum hópi presta ýmist að þurfa að kúga sína eigin samvizku og staðfesta samvist samkynhneigðra (eða jafnvel vígja þá) ellegar segja: “Hér stend ég atvinnulaus og get ekki annað!”

Núna, kl. 9.00 á fimmtudagsmorgni, er að hefjast síðari umræða um þessi tvö þingmál Kirkjuþings.

25.10.07 @ 07:01
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Á vef Kirkjuþings er komin þessi tilkynning frá Steinunni Arnþrúði Björnsdóttur: “15. mál, tillaga til þingsályktunar um að prestar verði vígslumenn staðfestrar samvistar, hefur verið dregið til baka.”

25.10.07 @ 07:42
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég skrifaði vefgrein um þetta mál í Moggabloggi mínu strax fyrir hádegi í dag og hef aukið þá grein með síðdeginu og vísa hér með á hana: Kirkjuþing samþykkir, að prestar staðfesti samvist samkynhneigðra, gengur lengra en nokkur lúthersk kirkja - róttæklingar bæði fagna og lýsa yfir stefnu á enn meira!

Og nú í fréttum kl. 18 eru Samtökin 78 strax farin að sýna sitt næsta viðbragð: formaður þeirra lýsir yfir “vonbrigðum” sínum vegna þess, “að Þjóðkirkjan skuli viðhalda aðskilnaðarstefnu gagnvart samkynhneigðum"! Þessi Frosti Jónsson segir þessu máli “ekki lokið". – Fánýt var sú von Karls biskups, að það yrði einhver “sátt” um þetta mál hjá þeim róttæku, og þessi formaður segist “alls ekki upplifa þetta sem sátt.”

Biskup og hans menn réttu hommum og lesbíum og róttækum fylgismönnum þeirra litlafingur í byrjun með því í 1. lagi að þegja um kristna kenningu, í 2. lagi leyfa “blessun” sambanda samkynhneigðra, í 3. lagi með aðild að Kenningarnefndinni og fráleitri niðurstöðu hennar í fyrra og í 4. lagi með þessari samþykkt Kirkjuþings í morgun, sem fer fram úr öllum öðrum lútherskum kirkjum þessa heims. Og það merkilega gerist (mikið hljóta sumir að vera hissa!), að þetta róttæka lið er alls ekki ánægt, enda verður það aldrei sátt, fyrr en það stendur yfir hausamótunum á þeim ‘íhaldssamari’ gersigruðum sem helzt vildu þó halda í kenninguna (en þorðu því ekki í atkvæðagreiðslum!).

Kaþólskum kemur það þó sennilega ekki á óvart, að þessi lútherska kirkja hafi hvorki fyrirheiti né náð óskeikulleikans í kenningu sinni og samþykktum.

25.10.07 @ 16:17
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution free blog software