« Lúther gegn hjónabandi samkynhneigðra16 ára piltur kveður skopmyndir af Múhameð ástæðu þess að hann drap kaþólskan prest »

21.02.06

  03:18:28, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 2332 orð  
Flokkur: Málefni samkynhneigðar á sviði þjóðfélags og kirkju

Samkynhneigðir vanhæfari en aðrir til barnauppeldis

Súsanna, Thelma og staðreyndir um kynferðislega misneytingu o.fl.
Þegar Karl biskup Sigurbjörnsson var í dagblaði sagður fagna réttarbótum fyrir samkynhneigða (Fréttabl. 18. nóv. 2005, fréttin: 'Góðir menn fagna', sem voru orð eftir honum höfð), en leyfði sér þó að setja fram þessa eðlilegu athugasemd: "Við þurfum að horfa á barnið. Réttur þess til lífs og gæða og ástar og umönnunar og öryggis er aðalatriðið, en ekki réttur einhvers til að eiga börn. Mikilvægt er að velferð barnsins sé höfð í fyrirrúmi," þá var skammt að bíða kröftugra andmæla frú Súsönnu Svavarsdóttur, sem reit í sama blað daginn eftir: "[Á]lítur hann [biskupinn] samkynhneigða ekki hæfa til þess að veita barni líf og gæði og ást og umönnun og öryggi? Telur hann gagnkynhneigða aðeins búa yfir slíkum mannkostum? Var ekki faðir Thelmu og þeirra systra gagnkynhneigður? [Leturbr. JVJ.] Hver er þessi maður [biskupinn] að telja sig umkominn að dæma út í bláinn hver getur veitt kærleika?" Því næst vék hún að Biblíunni og ákvæðum hennar um "að maður skuli ganga að eiga konu og þau geta af sér ávöxt og allt það," en gerði lítið úr gildi hennar, mest vegna aldurs hennar og að á hennar tíma "var kannski ekki gert ráð fyrir því að börn í þúsundatali biðu þess á stofnunum um allan heim að einhver vildi elska þau" og nefndi börn í S-Ameríku og A-Evrópu sem dæmi, sem seld væru í vændi (og í annarri grein talaði hún um börn í skókössum á Indlandi). Spurði hún í framhaldi af þessu biskupinn hvað hann vildi að gert yrði við þessi börn. "Hvernig vill kirkjan hans stemma stigu við að slíkt helvíti á jörðu geti þrifist?" – Enn harðmæltari var hún í skrifi þessu, og má kalla það orð að sönnu, að Súsanna hafi þarna tekið að sér að typta Karl biskup opinberlega með vandlætingarsvipu sinni.

En verðum við ekki að viðurkenna, að þetta efnisinnlegg Súsönnu sé eitthvað sem taka verði tillit til? Sópar ekki réttlætisboðskapur hennar burt þeim andmælum gegn ættleiðingu samkynhneigðra á börnum, sem margir umsagnaraðilar um frumvarpið, sem nú liggur fyrir Alþingi, hafa fram að færa? Nei, það er engan veginn svo – eins og sést af eftirfarandi:

a) Það eru í 1. lagi litlar líkur til þess, að kaþólsk og fátæk lönd Rómönsku Ameríku vilji senda hingað börn til að láta samkynhneigða ættleiða þau. Bæði trúar- og aðrar rótgrónar menningarástæður foreldra og jafnvel stjórnvalda í þeim heimshluta útiloka slíkt, ekkert síður en frá löndum eins og Kína, Indlandi og Thailandi, sem skv. kafla 8.5.3 í Skýrslu forsætis-ráðherra um réttarstöðu samkynhneigðra, sem lögð var fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005, hafa þá stefnu að "að heimila ekki ættleiðingar á börnum þaðan til samkynhneigðra ...., en stjórnvöld þessara ríkja setji beinlínis það skilyrði að ættleiðendur barna þaðan séu ekki samkynhneigðir."

b) Þeir, sem líta til fordæmis konu ársins 2005, Thelmu Ásdísardóttur, og systra hennar, muna vafalaust eftir því atriði í sársaukafullri frásögn hennar, að faðir þeirra systranna hafði sjálfur sem drengur orðið fyrir kynferðislegri misneytingu af hálfu karlmanns (Tímarit Mbl. 9. okt. 2005). Þetta þótti Thelmu, sem mörgum öðrum (þ.á m. undirrituðum), alls ekki afsaka gerðir mannsins gagnvart dætrum sínum, en engu að síður er vitað, að þetta er sá bakgrunnur sem þessi ofbeldismaður hafði og hefur trúlega átt sinn þátt í mótun hans og röskun eða forherðingu skapgerðar hans (þótt við fáumst ekki til að viðurkenna, að sú röskun hafi hrifsað af honum hans frjálsa vilja eða valfrelsi í ákvörðunum). En dokum við:

Hvað á nú að segja – með hliðsjón af þessari ljótu sögu – um þá tillögu í 16. grein lagafrumvarpsins, að hommar og lesbíur fái að ættleiða börn, þegar við hlaupumst ekki undan því að leiða hugann að eftirfarandi staðreynd, sem staðfest er í erlendum skýrslum og könnunum: Sem heildarhópur hafa samkynhneigðir margfalt algengari bakgrunn kynferðislegs ofbeldis og misneytingar af hálfu persónu af sama kyni gagnvart þeim sjálfum, meðan þeir voru á viðkvæmu bernsku- og æskuskeiði, heldur en gagnkynhneigðir. Mjög marktæk könnun á þessu sýnir, að sam-kynhneigðir karlmenn hafa að meðaltali 6,6 sinnum meiri reynslu af kynferðislegri misneytingu af hálfu karlmanns á því lífsskeiði heldur en gagnkynhneigðir karlmenn hafa. [Frumheimildin er rannsóknargrein eftir Marie E. Tomeo, D.I. Semper, S. Anderson og D. Kotler í Archives of Sexual Behavior, 2001, Vol. 30, No. 5, sjá nánar stórfróðlega 80 bls. ritgerð (skýrslu sem unnin var fyrir Arkansas-ríki): Review Of Research
On Homosexual Parenting, Adoption, And Foster Parenting
eftir dr. George A. Rekers, prófessor í taugageðlækningum og atferlisvísindum, s. 77 neðanmáls.] Og hér er heldur ekki um lágt hlutfall að ræða: 46% samkynhneigðu karlanna samanborið við 7% hinna gagnkynhneigðu "reported homosexual molestation" (þ.e. höfðu frá hómósexúellri kynferðis-misneytingu við sig í fortíðinni að segja). Og hjá lesbíunum höfðu 22% þeirra slíka sögu að baki sér, samanborið við einungis 1% hjá gagnkynhneigðum konum [sjá ritgerð dr. Rekers, s. 77]. Þessar tölur eru af þvílíkri stærðargráðu og andstæðurnar svo áberandi miklar (6,6-faldar milli karlahópanna, um 22-faldar milli kvennahópanna) eftir því, hvort um sam- eða gagnkynhneigða var að ræða, að það vekur beinlínis sterkan grun um að einmitt þessi erfiða reynsla svo margra samkynhneigðra hafi átt verulegan þátt í að draga marga þeirra út á braut þessarar kynhneigðar.

Hér ber okkur nú beinlínis að spyrja: Þegar svo stór hluti þessa þjóðfélagshóps, sérstaklega hommanna (46% þeirra skv. nefndri könnun), hefur þessa þungbæru reynslu að baki og það af hálfu einstaklings af sama kyni, hvernig er þá hægt að nota dæmið um föður þeirra Ásdísardætra til þess að réttlæta þá staðhæfingu, að samkynhneigð sé allt eins farsæll bakgrunnur og gagnkynhneigð til þess að viðkomandi fólk teljist hæft til að ala upp börn? Í 1. lagi átti nefnilega ógæfa þeirra systranna eina meginrót sína í því, að faðir þeirra var svívirtur sem drengur af karlmanni, og verður það ekki talin nein málsbót fyrir samkynhneigða, nema síður sé; jafnvel þótt hann hafi sjálfur beint ofbeldi sínu að dætrunum, verður brenglunin vafalaust rakin til árásar þess einstaklings af sama kyni.

Í 2. lagi er vitað, að karlmenn, sem orðið hafa fyrir kynferðislegri misneytingu, eru að meðaltali mun líklegri en konur til þess að beita aðra einstaklinga slíku ofbeldi. Vilja menn staðfestingu á þeirri fullyrðingu? Lesið þá þetta:

Þeim, sem sjálfir hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi ungir, er fjórum til 4,7 sinnum hættara við því að grípa til kynferðisofbeldis síðar á ævinni heldur en þeim sem aldrei upplifðu slíkt ofbeldi á eigin skinni (skv. rannsóknargrein eftir Watkins og Bentovim, 1992 [1], sjá http://www.meridianmagazine.com/familywatch/orientation.htm – nr.55 o.áfr.). Þetta getur ekki verið annað en áhyggjuefni. Flettum svo upp í ritgerð dr. George A. Rekers á bls. 77 (feitletrun og undirstr. mín, JVJ):

"As stated by [Jay P.] Paul and colleagues [í ritinu Child Abuse and Neglect, 2001, Vol. 30, s. 559] in a research review introducing their own study, research investigations have reported, "Males who have been sexually abused are more apt than their female counterparts to exhibit aggressive, hostile behavior (Watkins og Bentovim, 1992 [1]), and to victimize others, possibly due to identifying with the aggressor" (og þessu til staðfestingar eru taldar upp fimm fræðiritsmíðar sérfræðinga í heftinu, sjá þar). Þess vegna ályktar dr. Rekers í beinu framhaldi af þessu: "Af því að fullorðnir, samkynhneigðir karlmenn reyndust hafa verið beittir kynferðislegu ofbeldi (sexually molested) 6,6 sinnum oftar heldur en hlutfallið var hjá fullorðnum, gagnkynhneigðum karlmönnum, þá má gera ráð fyrir því á grundvelli reynslunnar (it is empirically expected), að fullorðnir, samkynhneigðir karlmenn yrðu 6,6 sinnum líklegri [en hinir gagnkynhneigðu] til þess að gera sjálfir unglingspilta (adolescent males) að fórnarlömbum sínum" (s.st.). Raunar er spurning, hvort hér þyrfti ekki að margfalda þessa tölu (6,6 sinnum hlutfallslega fleiri hommar en aðrir karlmenn) með tölunni 4,7 sem fram kom hér ofar (um að þeim karlmönnum, sem verða fyrir kynferðisofbeldi ungir, sé 4,7 sinnum hættara við því en öðrum að grípa til þess sama síðar á ævinni). – Hér ber ennfremur að hafa í huga kynferðislegan áhuga samkynhneigðra karla á 18 ára táningum umfram alla aðra á aldrinum 18-60 ára (sbr. ritgerð dr. George A. Rekers, bls. 77-78, þar sem nánar er fjallað um þetta merkilega atriði með samanburði við gagnkynhneigða karlmenn, sem sýndu mestan kynferðisáhuga á 25 ára konum).

Er þá ekki vafasamt í hæsta lagi að tala hér um jafnstöðu hinna samkynhneigðu og gagnkynhneigðu að þessu leyti? Eða er líkt á með þeim komið? Nei. Ef munurinn í þessu efni væri 10-20%, væri lítið gerandi úr þeim mun, en þegar hann er sex- til sjöfaldur, þá er alls ekki hægt að horfa fram hjá þessum áhættuþætti. Kynferðislegt ofbeldi er nefnilega sú tegund afbrota, sem einna helzt má líkja við e.k. erfðasynd, sem sífellt heldur áfram að spilla út frá sér, kynslóð eftir kynslóð, eins og meðferðaraðilar þekkja. Og á þessum tíma, þegar athygli og sameiginlegt átak margra vökulla manna og ekki sízt kvenna í þjóðfélaginu hefur beinzt að því að reyna að uppræta kynferðislegt ofbeldi, er þá virkilega verjandi, að alþingismenn hafi forgöngu um það að auðvelda stofnun nýrrar fjölskyldugerðar, þar sem samkynhneigðir karlmenn – skammlífir, fjöllyndir og ótrúir (að okkar mati) í samböndum skv. erlendum meðaltölum [2] – fái rétt til að ættleiða börn og ala þau upp, menn með þennan erfiða kynferðis-misneytingar-bakgrunn í hátt í öðru hvoru tilviki (46%)? Börn þeirra yrðu trúlega undir handarjaðri nýrra stjúpfeðra mun oftar en gengur og gerist meðal gagnkynhneigðra foreldra. Bæði þessir nýju stjúpfeður og gestir gætu nýtt sér tengsl við þessi börn eða unglinga til kynferðislegrar áreitni og jafnvel misneytingar – já, skv. fyrrgreindum tölum eru að mati prófessors Rekers sex til sjö sinnum meiri líkur á því heldur en í tilfelli gagnkynhneigðra. Og hver bæri þá ábyrgð á því, hafi Alþingi samþykkt slík lög? Hvert verður heildartjón þjóðfélagsins, ekki aðeins ríkis og sveitarfélaga, heldur fjölskyldna og mannlegra verðmæta, sem ótal hjálparaðilar þyrftu svo að glíma við að bæta úr eftir megni. Menn gái að því.

Og vel að merkja, þessi stóraukna hætta á kynferðislegri misneytingu bætist við marga aðra annmarka, sem samanlagðir benda eindregið til þess, að það sé afar óráðlegt og raunar áhættuspil með velferð og sálarheill viðkomandi barna og unglinga, að samkynhneigðir fái rétt til að frumættleiða börn.

Nokkrar tilvísanir:

[1] Bill Watkins og Arnon Bentovim: 'The Sexual Abuse of Male Children and Adolescents: A Review of Current Research,' grein í Journal of Child Psychiatry 33 (1992); og í riti Byrgens Finkelman: Sexual Abuse (New York: Garland Publishing, 1995, s. 316).

[2] Um skamman sambýlistíma samkynhneigðra og fjöllyndi þeirra, jafnvel í föstum samböndum: (a) Meðalendingartími eitt og hálft ár í Amsterdam: Skv. greininni 'Gay marriage’ and homosexuality: some medical comments' eftir læknana John Shea, John Wilson o.fl. (m.a. á vefslóðinni http://catholiceducation.org/articles/homosexuality/ho0095.html ): "Far higher rates of promiscuity are observed even within 'committed' gay relationships than in heterosexual marriage: In Holland, male homosexual relationships last, on average, 1.5 years, and gay men have an average of eight partners a year outside of their supposedly “committed” relationships. (Xiridou, M., et al.: 'The contribution of steady and casual partnerships to the incidence of HIV infection among homosexual men in Amsterdam', AIDS, 2003, 17: 1029-38.)" Þessi vísindagrein Mariu Xiridou og félaga, sem unnu í þágu baráttunnar gegn AIDS/HIV-smiti í samvinnu við hollenzkar heilbrigðis- og rannsóknarstofnanir og aðra vísindamenn og nutu styrks úr hollenzka AIDS-sjóðnum, er öll í html-formi á vefslóðinni http://www.aidsonline.com/pt/re/aids/abstract.00002030-200305020-00012.htm;jsessionid=ED9Ws4uJFOVMQ1DvB0wckcv0ThVIwvHcgThs7b0p1JKtmSTQTj86!987057721!-949856145!9001!-1 – en hægt er að nálgast hana í pdf-formi gegnum tengil efst á sömu vefsíðu. – Reyndar tala Xiridou o.fél. um 0,75–2,25 ár sem meðal-endingartíma á samböndum hommanna í rannsókninni ("mean duration of steady partnerships," s.1032a). [Sjá einnig hér á eftir, nmgr. 3]
(b) 83–85% sambanda homma og lesbía endast innan við þrjú ár: Skv. annarri rannsóknargrein: And the average gay or lesb}ian relationship is short lived. In one study, only 15 percent of gay men and 17.3 percent of les=bians had relationships that lasted more than three years. (Marcel T. Saghir, M.D. og Eli Robins, M.D., Male and Female Homosexuality: A Comprehensive Investigation, p. 57 Table 4.13, p. 225 Table 12.10, Baltimore: The Williams & Wilkins Company, 1973.)
(c) Mikill meirihluti (71%) sambanda samkynhneigðra endist innan við 8 ár og 91% innan við 16 ár: '‘Gay marriage’ and homosexuality: some medical comments', áður tilvitnuð grein eftir læknana John Shea, John Wilson o.fl.: "In an online survey among nearly 8,000 homosexuals, 71% of same-sex relationships lasted less than eight years. Only 9% of all same-sex relationships lasted longer than 16 years. (2003-2004 Gay and Le}sbian Consumer Online Census; www.glcensus.org )."
(d) Framhjáhald homma óvenjumikið: Áður tilvitnuð grein eftir læknana John Shea, John Wilson o.fl.: "Gay men have sex with someone other than their primary partner in 66% of relationships within the first year, rising to 90% of relationships after five years. (Harry, J.: Gay Couples, New York, 1984)."
(e) Samkynhneigðir illa í stakk búnir til varanlegra ástarsambanda: Úr greininni 'Homosexuality' eftir Andrew Kulikovsky (á http://www.kulikovskyonline.net/homosexuality.doc ) hef ég eftirfarandi tilvísun um álit bandarísku geðlæknanna í American Psychiatric Association skv. niðurstöðum viðhorfskönnunar meðal 10.000 þeirra árið 1977: "Similarly, sizable majorities said that homosexuals are generally less happy than heterosexuals (73%) and less capable of mature, loving relationships (60%). [Heimild:] 'Sick Again? Psychiatrists Vote on Gays,' Time, 20. febr. 1978, s. 102."

[3] Ein athyglisverðasta meginniðurstaða rannsóknar M. Xiridou og félaga er sú, að verulega stórt hlutfall nýs HIV-smits eigi sér stað innan stöðugra sambanda og að þrátt fyrir mikla baráttu gegn áhættuhegðun í kynlífi samkynhneigðra karlmanna í Amsterdam eigi sú áhættuhegðun sér ennþá stað í verulegum mæli, einkum í varanlegum ástarsamböndum. Slík hegðun hafi farið í vöxt á nýliðnum árum, og hafi menn áhyggjur af því, að hún vegi upp á móti hinni áhrifaríku lyfjameðferð HAART, sem í seinni tíð hefur verið beitt til að minnka HIV-veirumagn og -smithættu (HIV viral load and infectivity). – Þá koma þær athyglisverðu upplýsingar einnig fram í þessari rannsókn Xiridou og félaga (bls. 1032a), að "Those with a steady partner and those without reported having an average of Pm = 8 and Ps = 22 casual partners per year, respectively." Þýtt á einfalda íslenzku þýðir þetta, að hinir rannsökuðu hommar í föstu sambandi hafi 8 auka-rekkjunauta á hverju ári, en þeir hommar, sem ekki séu á föstu, standi í 22 slíkum skyndikynnum árlega. Greinilega er þessi þjóðfélagshópur eitthvað sér á báti. Ég er þó ekki að hvetja neinn til að dæma þessa meðbræður okkar. Hitt er allt annað mál, hvort þeir séu hæfir eða heppilegir til að gefa þeim full réttindi til að ættleiða og ala upp börn. Ef þessar upplýsingar hér á undan benda ekki til þess, þá eru aðrar líka til, sem benda okkur ennþá lengra í þá sömu átt. Þess vegna ætti Alþingi að fella burt ákvæði 16. greinar lagafrumvarpsins um samkynhneigða sem gefa myndi þeim rétt til frumættleiðingar barna.

Þeir, sem hafa vilja samband við höfund þessarar greinar, geta skrifað honum beint á netfangið jvjensson@gmail.com.

17 athugasemdir

Athugasemd from: Róbert Björnsson
Róbert Björnsson

Elsku Jón minn,

Þeir fræðimenn sem vilja láta taka sig alvarlega reyna yfirleitt að vanda val sitt á tilvitnunum í rannsóknir annarra “fræðimanna” þegar þeir birta greinar sínar. Grundvallaratriði í því er að kanna “source-ið” vel og ganga úr skugga um að heimildirnar séu unnar af fagmönnum en ekki sjálfskipuðum gáfnaljósum og að heimildirnar séu birtar af virtum, sjálfstæðum og hlutlausum stofnunum en ekki áróðursmaskínum hagsmunahópa.

Við athugun á tilvitnunum þínum í þessari grein kemur ýmislegt áhugavert í ljós. Engin af tilvitnunum þínum eða neðanmálsgreinum er birt af opinberri stofnun eins og háskóla eða í virtu “scholastic journal” svosem fagtímaritum sálfræðinga eða félagsfræðinga. Hvernig ætli standi á því?

Jú, flestar af þínum “virtu” tilvitnunum og “fræðigreinum” er að finna á áróðursvefjum “kristinna” bókstafstrúarsamtaka.

Hin “stórfróðlega” 80 blaðsíðna grein dr. George Rekers er til að mynda vistuð á vefsíðunni www.narth.com en sú skemmtilega stofnun ber nafnið “National Association for Research & THERAPY of Homosexuality". Þessi stofnun, sem er að sjálfsögðu fjármögnuð af “kristnum” öfgamönnum hefur nákvæmlega ekkert “credibility” hjá APA né nokkrum fræðimönnum sem er annt um sjálfsvirðingu sína.
Þessi grein dr. Rekers átti að verða hluti af málatilbúnaði Arkansas ríkis (sem verður nú seint talið með frjálslyndari fylkjum Bandaríkjanna) gegn því að samkynhneigðir fengju rétt til að ættleiða. Það merkilega er að grein þessi þótti svo svæsin og rugluð að saksóknarinn taldi sig ekki einu sinni geta nýtt nema 20% af henni svo hún missti ekki allan trúverðuleika sinn! Þetta viðurkennir greinarhöfundur í upphafi greinarinnar og kvartar sáran!

Næst vitnar þú í “rannsóknargrein” eftir Watson og Bentovim og hvar ætli hana sé nú að finna? Jú, merkilegt nokk…í veftímariti “Latter-day Saints” undir málaflokknum “family watch"! Duh…

Svo vitnar þú í greinina “Some Medical Comments” eftir lækninn John Shea og hvar ætlir þú hafir grafið þá grein upp? Jú, surprise surprise, catholiceducation.org !!! Þú afsakar ef ég leyfi mér að draga hlutleysi þessarar greinar í efa.

Og að lokum vitnar þú í ástralskan guðfræðing Andrew Kulikovsky sem þú reynir að láta líta út fyrir að sé sálfræðingur eða sé í slagtogi við APA sem er alls ekki. Svo er nú frekar klaufalegt að vitna í skoðanakönnun sem gerð var árið 1977! Heldur þú að svörin yrðu svipuð í dag? Ég leyfi mér að efast um það.

Engin þessara greina hefur nokkurt fræðilegt gildi né trúverðugleika heldur er þetta einungis léleg tilraun öfgafullra áróðursmanna til blekkinga. Það að halda því fram að samkynhneigðir foreldrar séu líklegri en aðrir til þess að beita börn sín kynferðislegu ofbeldi er hreint ótrúlega ósvífin og bíræfin lygi og sýnir hvað sumir eru reiðubúnir til að ganga langt í hatursáróðri sínum.

21.02.06 @ 13:49
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ja, hérna barasta! Þá hefur franska þingnefndin aldeilis legið í því. Líklega hafa allir þessir 150 sérfræðingar og samtök sem hún leitaði til verið „útsendarar“ öfgamanna. Þar lágu Frakkar í því. Los guerellas encontraron todavía lo molino (Skæruliðarnir berjast enn við vindmylluna). Málsháttur úr heimahéraði Cervantes. Þessi íslenska skotgrafrrökfræði er dálítið þreytandi. Bróðir Jón. Veldu næst þýska dr. dr. til að Róbert sé ánægður.

21.02.06 @ 15:37
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Jón Rafn, hafðu engar áhyggjur, ég á auðvelt með að svara þessu.

Róbert, sem hér ritaði, hefur verið með markvisst andóf – og tekur gjarnan mikið upp í sig – á móti því sem ég o.fl. hafa ritað um samkynhneigð, homma og lesbíur, er trúlega tapsár síðan ég sigraði hann í 1. lotu á slíkum umræðuvettvangi, þar sem ég hrakti s.k. “rækjuröksemd” hans út í æsar, m.m. Nú vill hann varpa rýrð á þessar heimildir mínar, það var eftir honum.

Dr. Rekers er svo magnaður fræðimaður á sínu sviði, að menn þurfa ekki annað en lesa ritgerðina hans miklu eða önnur skrif til að sannfærast um vísinda- og vitsmunalega hæfni hans og yfirburði. – NARTH er ekki verra fyrir að vinna m.a. að meðferð samkynhneigðra, því að ástandið er lagfæranlegt, a.m.k. fyllilega í um 28% tilvika og að hluta í um 30% tilvika, eins og ég hef kynnt mér vel, og mun ég gera góða grein fyrir því öllu annars staðar, sjá greinina Verulegur árangur af meðferð samkynhneigðra – Ég gaf aldrei í skyn, að Kulikovsky sé sálfræðingur né í slagtogi við APA, enda vissi ég betur (þekki margar vefsíður hans), heldur var hann bara miðill til mín um þá staðreynd, að þessi viðhorfskönnun sýndi þetta meðal geðlækna (ekki sálfræðinga, það er missögn Róberts eins og fleira).

21.02.06 @ 16:04
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég hvet alla til að fara inn á það stórmerka vefsetur http://www.catholiceducation.org – einmitt ekki sízt um hómósexúalismann, þótt þetta sé geysiöflugt fræðasetur um ótrúlega mörg merkileg málefni. Við skulum hafa í huga, að í heiminum er fjöldinn allur af kaþólskum háskólum sem njóta viðurkenningar og virðingar í fræðaheiminum, langt út fyrir mörk kirkjunnar sem slíkrar. Á þetta vefsetur skrifar einmitt fjöldi viðurkenndra vísindamanna um lífshátt, heilsuástand, réttinda- og vandamál homma og lesbía o.m.fl. í því sambandi – já, heill sægur óháðra vísindamanna ekki hvað sízt, sem vefsetrið hefur fengið til að leyfa birtingu greina sinna þar. Einungis yfirlitið um þær greinar (ásamt nokkrum línum um hverja) tekur heilar 10 vefsíður – lítið t.d. á 3. yfirlitið á vefs. [Tengill á http://www.catholiceducation.org] – með ýmsum fróðlegum hlutum.

Mormónavefsetrið er merkilega gott í ýmsu efni, annars hefði ég ekki vísað á það (Róbert kann að álíta það auðveldan leik að vitna í part af ensku nafni mormónakirkjunnar, til þess eins og að kveikja á fordómum margra Íslendinga gegn bandarískum trúfélögum, en slíkt áróðursbragð hefur auðvitað ekkert vægi í fræðilegri umræðu). Ég þekki marga mormóna, vann með þeim reglulega um árabil og ber mikla virðingu fyrir því fólki.

Aðalatriðið er, að rökin í þessum greinum, sem ég notaði í grein minni hér ofar, sem öðrum greinum, byggjast á málefnalegum grunni, athugun staðreynda í læknis-, erfða- og félagsfræðilegum efnum meðal annars, en ekki á trúarrökum, og á það t.d. við um skrif prófessors Rekers, læknanna Shea o.s.frv. – Skrifað í flýti, bæti við meira, þegar ég kemst næst í að skrifa.

21.02.06 @ 16:08
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

“Það merkilega er að grein þessi þótti svo svæsin og rugluð að saksóknarinn taldi sig ekki einu sinni geta nýtt nema 20% af henni svo hún missti ekki allan trúverðuleika sinn! Þetta viðurkennir greinarhöfundur í upphafi greinarinnar og kvartar sáran!” segir Róbert hér á undan. Þarna eru margar missagnir í máli hans og ekki bara þessi síðasta upphrópunarsetning. Hvað hefur Róbert fyrir sér í því, að saksóknaranum hafi þótt 80% af “greininni” svæsin og rugluð? Ef hann skrifar hér meira, er skorað á hann að svara þessu – og hann minntur á það aftur, ef hann gerir það ekki.

Það er fróðlegt að lesa það sem segir í innganginum (sem er ekki partur af ritgerð dr. Rekers, eins og Róbert virðist halda, heldur Editorial note). Þar segir: “The attorney assigned to defend the Arkansas regulation, Kathy Hall, curiously made motions in court to exclude all scientific evidence regarding the higher frequency of domestic violence, pedophilia, and sexual disease transmission by homosexual adults to children compared to married couples to children, which undermined her own case. So Kathy Hall instructed Professor Rekers not to review research in those areas. Then, after seeing Dr. Rekers’ review (included in this paper) of the evidence of higher rates of psychiatric disorders in practicing homosexuals compared to heterosexuals, attorney Kathy Hall made last minute motions to exclude that scientific evidence from consideration in the case just prior to Dr. Rekers’ courtroom testimony.” – Þarna má nú ætla, að Hall þessi hafi staðið illa að málum fyrir hönd Arkansas-ríkis (er þetta ekki gamla ríkið hans Clintons?). Það kom svo líka í ljós í því sem eftir fylgdi:

“Ultimately, Kathy Hall did not allow Professor Rekers to present even 20% of the evidence in this paper that he provided her prior to his scheduled testimony in court, and as a result, Kathy Hall lost the case for the State of Arkansas. In contrast, the State of Florida used this kind of scientific research provided by Dr. Rekers in defending the law prohibiting homosexuals from adopting children, which defense succeeded all the way to the U.S. Supreme Court in January, 2005. The Boy Scouts of America similarly relied, in part, on this line of research provided by Professor Rekers, and won their case through all appeals all the way to the U.S. Supreme Court.”

Skátahreyfingin stóð reyndar ekki í þessu lagamáli að ósekju, hún var að tryggja rétt sinn til að ráða ekki homma til umsjónar með strákunum sínum, af því að óheyrilegur fjöldi þeirra hafði verið kynferðislega misnotaður af slíkum mönnum, sem smeygja sér einmitt inn á slíkar hreyfingar, og hefur það jafnvel gerzt hér á landi. En svo góð voru málsgögn dr. Rekers, að þau stóðust alla gagnrýni í nefndum dómstólum og það m.a.s. í Hæstarétti Bandaríkjanna.

21.02.06 @ 17:53
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Svo þarf ég að segja ykkur betur frá trúverðugleika (credentials) próf. Rekers, þegar ég kemst næst til að skrifa; það blikna margir í samanburði við fræðaferil hans og alþjóðlega viðurkenningu.

21.02.06 @ 17:57
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Hér kemur stutt lýsing á ýmsu því sem Rekers hefur til brunns að bera, störfum hans o.fl.: “George A. Rekers (Ph.D., University of California, Los Angeles, 1972) is Professor of Neuropsychiatry and Behavioral Science in the University of South Carolina School of Medicine. He is a Fellow of the Academy of Clinical Psychology and a Diplomate in Clinical Psychology from the American Board of Professional Psychology. Professor Rekers has published over 100 journal articles and invited book chapters and 9 books, including the Handbook of Child and Adolescent Sexual Problems (Macmillan’s Lexington Books of Simon & Schuster). He has presented over 190 invited papers to academic meetings in 24 countries in Africa, Asia, Europe, Latin America, and the Middle East. His work has been supported by fellowships, contracts, and grants exceeding $1 million from agencies such as the National Science Foundation and the National Institute of Mental Health, and he was honored to receive the 2000 Sigmund Freud Award for pioneering research. Dr. Rekers has provided invited expert testimony to numerous agencies, including the White House Domestic Policy Council; the U.S. Senate and U.S. House of Representatives; the U.S. Secretary of Health and Human Services; the Office of the U.S. Secretary of Defense; a U.S. Attorney General’s Task Force; and the Office of the U.S. Secretary of Education.” (Úr 1. neðanmálsgr. við grein dr. Rekers og dr. Marks D. Kilgus: ‘Studies of Homosexual Parenting: a Critical Review’, í Regent University Law Reviw, Vol.14, s. 343 = http://www.regent.edu/acad/schlaw/lawreview/articles/14_2Rekers.PDF). Fjöldann allan af greinum um ‘Gender Identity Disorder’ hefur Rekers (auk alls annars) birt í fagtímaritum og bókum – meira um það seinna.

22.02.06 @ 17:19
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Jæja, Róbert. Eru titlarnir ekki nógu margir fyrir þig? Kannske of margir?

22.02.06 @ 18:42
Athugasemd from: Róbert Björnsson
Róbert Björnsson

Kæru Jónar,

Álit mitt á George Reker skánaði nú ósköp lítið við þessa upptalningu þrátt fyrir titlana. Þið gleymduð reyndar að taka fram að hann er auk þessa alls vígður Baptista prestur sem er nú áhugaverð tilviljun.

Það vill þannig til að ég er meðlimur í mannréttindarsamtökunum American Civil Liberties Union (ACLU) og á vefsíðu þeirra er að finna “Fact Sheet” um þennan mann, gjörið þið svo vel: http://www.aclu.org/lgbt/parenting/12401res20041004.html

Að auki er hér að finna grein um störf þessa mikla manns:
http://www.gay.com/news/roundups/package.html?coll=news_feature&sernum=1037&page=1

Taki Hæstiréttur Bandaríkjanna í nokkru mark á þessum manni er það til vitnis um þann skaða sem hin kristnu hægri öfl hafa valdið þjóðinni með skipun nýju dómaranna Alito og John Roberts.

Að lokum, þar sem ég sé að þið eruð orðnir leiðir á mér (ég sem hélt þið hefðuð svo gaman að því að hafa einhvern til að rífast við) ætla ég nú að láta af skrifum inná þessa síðu ykkar.

Það er mín ósk að þið sjáið að ykkur að lokum og finnið ykkur a.m.k. eitthvað annað til að hafa áhyggjur af en samkynhneigð. Þessi árátta getur varla talist eðlileg. En hvað um það, þetta er ykkar líf.
Guð veri með ykkur.

22.02.06 @ 20:21
Athugasemd from: Róbert Björnsson
Róbert Björnsson

Ekki viss um að urlið hafi skilað sér allt hérna áðan…

http://www.gay.com/news/roundups/package.html?
coll=news_feature&sernum=1037&page=1

22.02.06 @ 20:23
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Það er hrein nauðsyn, sem knýr mig og fleiri (þó allt of fáa enn) til að upplýsa fólk um staðreyndir um hómósexúalismann. Ég hef neyðzt til þess að verða sérfróður á þessu sviði og hlýt að deila því með öðrum, því að vá er fyrir dyrum, ef öll baráttumál homma og lesbía ná fram að ganga (ég rökstyð ekki og fjölyrði ekki nánar um þá fullyrðingu hér og nú, heldur geri ég það víða og með margvíslegum hætti í vefsíðugreinum mínum). – “Þessi árátta getur varla talist eðlileg. En hvað um það, þetta er ykkar líf,” segir Róbert af allnokkru yfirlæti. En sannleiksást og miðlun staðreynda er ekki árátta. Til er hins vegar árátta eða ávanabinding sem gengur þvert gegn náttúru mannsins. “En hvað um það, þetta er þeirra líf,” segja þá margir, hugsandi sem svo, að meðan það fer einungis fram í svefnherbergi viðkomandi fólks, skaði það engan. En sú afstaða er ekki rétt. AIDS, sem fyrst og fremst náði að grassera á Vesturlöndum meðal hommanna og varð þess vegna að útbreiddum faraldri, breiðist, ásamt fleiri sjúkdómum, smátt og smátt út frá þeim til annarra, einkum gegnum tvíkynhneigða. Útbreiðsla þessarar ‘lífsstíls’-tízkustefnu (sbr. alla sjónvarpsþættina og andann í skemmtanalífinu í Reykjavik nú orðið) og offors pólitískt vernduðu “mannréttindabaráttunnar,” m.a. gegn meintum “fordómum” gagnvart samkynhneigð í skólafræðslu barna, stefnir einnig í þá átt að koma illilega niður á öðru fólki í samfélaginu, einkum unglingspiltum sem ruglast þá í kynhneigð sinni og fara út í stórhættulega tilraunastarfsemi með mökum við kynbræður sína. Allt kemur þetta – fyrir utan öll fjölskylduvandræðin sem af þessu hljótast – niður á venjulegu fólki, ekki aðeins hommum og lesbíum.

23.02.06 @ 03:18
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Róbert beitti ódýrum áróðursbrögðum í þessu innleggi sínu. Honum tekst þó auðvitað ekki að rýra gildi menntunar dr. Rekers né frama hans (upp í það að verða prófessor í taugageðlækningum og atferlisfræðum, auk þess sem álits hans er mjög leitað utan háskólasamfélagsins) með þeim einfalda leik að vekja athygli á kirkjulegri vígslu hans. Fjöldinn allur af prestum hefur lagt fram mikinn skerf til vísindanna, þ.m.t. félags- og náttúruvísinda; Jesúítarnir eru t.d. afar framarlega í mörgum þessara fræða, enda menntun þeirra löng og gagnger.

Dr. Rekers er greinilega fjölhæfur maður, ég hef rannsakað nokkrar greinar hans, sér í lagi ritgerðina hans áðurnefndu (80 bls., á http://www.narth.com/docs/RationaleBasisFinal0405.pdf), en einnig brautryðjandaskrif hans um kynímyndarröskun (Gender Identity Disorder), sem virðist í mörgum tilvikum vera rótin að því, að sumir verða samkynhneigðir, eftir að þeir komast á kynþroskaaldur, sjá t.d. góða ritgerð undir þessu nafni, á vefsl. http://www.leaderu.com/jhs/rekers.html (á afar góðu vefsvæði); á eftir greininni er heimildaskrá, og þar gefur á að líta lista yfir marga tugi greina hans um G.I.D. (vill einhver slást við hann um þau mál?). Við lestur skrifa hans verð ég að segja, að ég dáist í senn að efnistökum hans, ályktunarhæfni og yfirgripsmikilli þekkingu á heimildum. Ein grein, sem þið, sem tímann hafið, mættuð ennfremur lesa, er ágæt yfirlitsgrein hans og Marks Kilgus um meinta hæfni samkynhneigðra til barnauppeldis, birt í Regent University Law Review árið 2002, Vol. 14, s. 343–384, og nefnist ‘Studies in Homosexual Parenting: a Critical Review’, sjá greinina í pdf-formi eða í html-formi – þar kemur nú margt gruggugt og merkilegt í ljós!

23.02.06 @ 03:18
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Fyrri vefsíðan, sem Róbert vísaði okkur á og segir að sé “"Fact Sheet” um Rekers,” er nú ósköp rýr í roðinu, innan við 30 línur og gerir ekki eitt né neitt til að upplýsa um vísindastörf þessa prófessors né svipta hann nokkru af sínu menntunar- og akademíska ágæti og viðurkenningum né rengja hans fræðimanns-framlag, m.a. til fjölda fagtímarita. Þar að auki mótast þessi vefsíða, sem Róbert benti á, öll af niðrun og útúrsnúningi, sem og röksemdafærslu sem alls ekki stenzt, þegar í hana er rýnt, sbr. t.d. þetta: “Rekers has suggested that gays are unsuitable to serve as foster parents because they’re at higher risk for AIDS and other sexually-transmitted disease, ignoring the fact that there is a physical examination required of all foster parent applicants in Arkansas that would weed out any applicants with health conditions that could jeopardize a foster child.”

Vissulega rökstuddi Rekers það vel og með mörgum rökum í margnefndri 80 bls. ritgerð (skýrslu) sinni, að samkynhneigðir væru vanhæfir til að vera fósturforeldrar barna. En gegn mótrökunum (þ.e.a.s. rökunum móti afstöðu Rekers) í klausunni hér á undan bendi ég á eftirfarandi staðreyndir:

1) Í Arkansas eru 6,6% homma taldir vera með AIDS/HIV-smit (sem er um 0,6% yfir landsmeðaltalinu í Bandaríkjunum); sjá um það bls. 34 í hinni stórmerku, áðurnefndu ritgerð dr. Rekers. – Þetta þýðir, að ekki er nóg, að menn séu lausir við HIV-smit, þegar þeir taka börn í fóstur eða til ættleiðingar, því að þeir geta auðveldlega smitazt EFTIR að sú fóstrun eða ættleiðing hefur verið samþykkt, og höfum þar í huga, að 15. til 16. hver hommi gengur með þetta smit (en einungis 0,036% gagnkynhneigðra karlmanna í Arkansas eða 2778. hver).

2) Fjöllyndi homma, jafnvel þeirra sem eru í sambúð, er af þvílíkri stærðargráðu, að það setur þá í stórfellda smithættu, sbr. nmgr. [2] hér ofar, einkum (a)- og (d)-liði – sjá einnig enn skelfilegri tölur um það fjöllyndi í greininni ‘The Negative Health Effects of Homosexuality’ eftir dr. Timothy J. Daily (einkum í kaflanum ‘Homosexual Promiscuity’ o.áfr.) á vefsl. http://www.ccicinc.org/policyresearch/072103.html – og í áðurnefndri grein (sem Róbert óttast að menn lesi): ‘Homosexuality’ eftir Andrew Kulikovsky, í kaflanum Myth #3 á vefslóðinni http://www.kulikovskyonline.net/homosexuality.doc. – Annað, sem veldur þessu líka, er áhættusöm kynhegðun þeirra; við uppkomu AIDS urðu þeir mun varkárari en áður hafði verið, en þetta færðist aftur til hins verra eftir tilkomu lyfja, sem hafa hjálpað til að halda sjúkdómnum nokkuð í skefjum: Þannig fjölgaði t.a.m. þeim hommum í San Francisco, sem kváðust standa í óvörðum endaþarmsmökum, úr 30% árið 1994 í 39% 1997 (New York Times, 29. jan. 1999, grein eftir K. Sack: ‘For Gay Men, HIV Peril and Rising Drug Use’), sbr. einnig nmgr. [3] hér ofar.

3) Öll eru þessi atriði samverkandi orsakavaldar að því, að í Arkansas-ríki eru hommar nálægt 183 sinnum líklegri en aðrir karlmenn til að að vera smitaðir af AIDS eða HIV (sjá fyrrnefnda ritgerð dr. Rekers, bls. 35). Fram hjá svo geysilegum mun á heilsufari homma og annarra geta dómstólar ekki gengið, þegar þeir úrskurða um svo viðkvæm og þýðingarmikil mál sem réttinn til að fóstra og ættleiða börn.

23.02.06 @ 03:20
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Takið svo eftir því, að Róbert ræddi í raun ekki efni greinarinnar, m.a. kynferðislega misneytingu og dæmið um föður stúlknanna í Hafnarfirði, ennfremur tölurnar frá Tomeo o.fl. um 6,6 sinnum meiri kynferðislegri misneytingu af hálfu homma heldur en annarra karlmanna, auk talnanna frá Watkins og Bentovim [sjá nmgr.1] um að þeim, sem sjálfir hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi ungir, er fjórum til 4,7 sinnum hættara við því að grípa til kynferðisofbeldis síðar á ævinni heldur en þeim sem aldrei upplifðu slíkt ofbeldi á eigin skinni; einnig standa hér óhaggaðar allar mínar upplýsingar um skammtímaendingu sambanda homma og lesbía og fjöllyndi hommanna. Allt er þetta vel stutt nýlegum og marktækum heimildum óháðra fræðimanna og þar á meðal Mariu Xiridou o.fl. Í stað þess að kljást við þær upplýsingar með rökum reyndi Róbert að koma höggi á greinina með því að bera róg á dr. Rekers o.fl. Það vopn (sem kallað er ’smear campaign’ þar sem hann dvelst í henni Ameríku) dugar honum skammt og hefur hér snúizt í höndum honum.

Þeim mun oftar sem Róbert reynir að höggva í greinar mínar, þeim mun betra tækifæri gefst til að birta hér nýjar og athyglisverðar upplýsingar.

23.02.06 @ 03:58
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Mér finnst málflutningur Róberts einmitt vera svo einkennandi fyrir afstöðu hómósexualista. Fámennur þrýstihópur sem grípur til gífuryrða og útúrsnúninga þegar hann verður rökþrota.

Þetta kemur einnig ljóslega fram hjá þeim séra Bjarna Karlssyni og séra Hirti Magna, fríkirkjupresti. Eins og ég hef vikið að áður greip séra Bjarni til þessarar afstöðu í viðtali sínu við séra Geir Waage, að ásaka kirkjuna fyrir að „ofsækja“ samkynhneigt fólk. Í hvert sinn sem einhver vogar sér að andmæla málflutningi þessa hóps er hann stimplaður sem ofstækismaður eða mannhatari.

Þrátt fyrir að stór meirihluti mannkyns sé á öndverðum meiði við þetta fólk böðlast það áfram af sama offorsinu með dyggri aðstoð fótureyðingarstóriðjunnar og fjölmiðlavaldsins sem telur afar mikilvægt að afnema hinn „náttúrlega“ rétt, eins og hvernig barn er getið.

Þannig er verið að undirbúa jarðveginn fyrir nýja stóriðju líknardrápa og framleiðslu „gervimanna“ (Frankensteina) til að nota á tilraunastofum til að renna enn frekari stoðum undir þetta fjármálaveldi.

Það sem undrar mig mest er hversu gjörsamlega blindir fjölmiðlamenn eru gagnvart þessari þróun.

Og það er bókstaflega talað hörmulegt að sjá hvernig þessi öfl hafa hertekið „heilbrigðisstofnun“ Sameinuðu þjóðanna, en máttur mammons er mikill í heimi sem sagt hefur skilið við öll siðræn gildi kristindómsins. Ég endurtek orð Davíðs Oddssonar: „Guðlaus kapítalismi er ekki hætis hót skárri en guðlaus kommúnismi.“

Þessi öfl hafa svo sannarlega haldið áfram tilbeiðslu þess goðs sem þau hófu að tilbiðja í frönsku stjórnarbyltingunni 1789.

En kirkjan var, er og verður qahal, ekklesia, samfélag þeirra sem eru aðskildir anda þessa heims og höfðingja hans, óvini alls lífs og lífsverndar. Harmsaga samkynhneigðs fólks er einfaldlega afneitun þess á frumforsendum þess hvernig lífið finnur sér farveg í mennsku samfélagi í ást karls og konu. Þetta er einn angi nýheiðninnar.

23.02.06 @ 07:35
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Róbert lýsir þungum áhyggjum út af skipun tveggja nýrra dómara í hæstarétt Bandaríkjanna, þeirra Sam Alito og John Roberts. Nú eru fimm af níu dómurum í hæstaréttinum kaþólskir. Að sjálfsögðu mun þetta leiða til breytinga í dómum hvað áhrærir fóstureyðingar og hómósexualisma.

Ofurfrjálslyndisöflin lýsa þessari þróun sem auknum áhrifum trúaðra „hægri öfgamanna,“ eins og þeir vilja skilja þetta. Þessi öfl geta ekki eða vilja ekki skilja þá staðreynd, að SAMSTAÐA myndaðist meðal kristinna manna í Bandaríkjunum til að berjast gegn öfugþróun þeirri sem átt hefur sér stað á undanförnum áratugum sem gengur þvert gegn meirihlutavilja bandarísku þjóðarinnar.

Hvað áhrærir fóstureyðingar afneita þessi ofurfrjálslyndisöfl neikvæðum afleiðingum þeirra á allt samfélagið. Í Þriðja ríki Hitlers, en nasistar voru sporgöngumenn fóstureyðinga, voru 500.000 fóstureyðingar framkvæmdar árlega. Við skulum heyra hvað næstæðsti maður Þriðja ríkisins hafði um þessa þróun að segja, það er að segja Heinrich Himmler. Í bréfi til Wilhelms Keitel komst hann svo að orði (Master Race, The Lebensborn Experiment in Nazi Germany, Catrine Clay, Michael Leapman, 1995, bls. 66-67):

“Samkvæmt hagfræðitölum eru 600,000 fóstureyðingar framkvæmdar í Þýskalandi árlega. Sú staðreynd að þetta á sér stað meðal hins útvalda kynstofns hefur valdið mér áhyggjum árum saman. Ég tel að við höfum bókstaflega ekki efni á því að sjá á eftir þessu unga fólki. Því er það forgangsmál að vernda þýskt blóð. Ef okkur auðnast að stöðva þessar fóstureyðingar getum við komið á fót 200 herdeildum árlega og sent á vígvellina. Aðrar 500.000 til 600.000 gætu skapað verðmæti upp á milljónir marka fyrir efnahagslífið. Styrkur þessara hermanna og verkamanna mun stuðla að uppbyggingu Stórþýskalands. Það er af þessum ástæðum sem ég kom Lebensborn á fót árið 1936. Það berst gegn fóstureyðingum með jákvæðum hætti. Sérhver kona getur átt sitt barn í friði og ró og helgað líf sitt því að bæta kynstofninn.”

Að þessu leyti tll virðist Himmler hafa verið framsýnni maður en ofurfrjálslyndisöfl nútímans. Í Bandaríkjunum hafa verið framkvæmdar tæplega 2 milljónir fóstureyðinga árlega á undanförnum áratug. Nú fer þessi tala ört lækkandi sökum baráttu lífsverndarhópanna. Þetta líta ofurfrjálslyndisöflin á sem „dökka framtíðarsýn“ sökum áhrifa „hægri ofstækismanna í trúmálum,“ en kristnir menn telja þetta hins vegar vera batamerki og von um að unnt verði að koma í veg fyrir að þjóðinni blæði út.

Ég læt svo máli mínu lokið núna því að samkvæmt orðabók þessa fólks og lífsafstöðu er ég orðinn að hægri ofstækismanni og mannhatara.

Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér og elska hvern annan“ (Jh 13. 34). Slík elska felur ekki í sér að deyða afkvæmi sín!

23.02.06 @ 11:21
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég þakka þér þessi innlegg þín, Jón Rafn.

Fylgzt hef ég með framgangi skipunar hinna nýju dómara í hæstarétt Bandaríkjanna, þeirra Sams Alito og einkum Johns Roberts, og hef ekkert nema gott um hana að segja; þetta eru ofstækislausir menn, mjög vel hæfir í starfið; það er hinum ‘frjálslyndu’ einungis til skammar að hamast gegn skipan þeirra manna, sem telja má að kunni að stemma stigu við fósturdrápum í Bandaríkjunum. ‘Frjálslyndismennirnir’ hafa jafnvel beitt sér gegn s.k. ‘partial-birth abortion’ (fósturdrápi alveg fram undir fæðingu) – Clinton forseti beitti m.a.s. tvisvar neitunarvaldi gegn samþykkt þingsins um að afnema þá grimmdaraðferð við fósturdráp.

28.02.06 @ 03:25
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution