« Hinir heilögu – Fyrirmyndir á lífsleið okkar: Benedikt frá AnianeHinir heilögu – Fyrirmyndir á lífsleið okkar: Tómas frá Aquin »

30.01.07

  10:14:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 735 orð  
Flokkur: Böðvar Ingi Guðbjartsson

Samkynhneigð í leikskóla?

eftir Böðvar Inga Guðbjartsson

Grein þessi birtist í Morgunbl. sunnudaginn 21. jan. 2006. Kirkjunetið leitaði eftir því að fá að endurbirta hana hér. Veitti höfundurinn fúslega leyfi til þess.

Í Fréttablaðinu 2. október 2006 var kynnt bók eftir þau Áka og Berglindi. Bókin er um stúlku sem á tvo feður. Dreifa á bókinni í alla leikskóla landsins.

Það að fara með fræðslu um samkynhneigð inn í leikskóla landsins vekur upp ýmsar spurningar. Hvernig er fræðslan byggð upp og hvert er markmiðið? Á að fræða börn á leikskólastigi, frá 2 ára aldri, um samkynhneigð? Hvað er verið að fræða börnin okkar um?

Á eingöngu að fræða þau um að samkynhneigð sé til og að til eru börn sem alast upp hjá samkynhneigðum foreldrum? Eða á að fræða börnin um eitthvað annað sem viðkemur samkynhneigð?

Rannsókn sem unnin var í Bandaríkjunum af barnasálfræðingum varaði við því að fræða börn snemma á grunnskólastigi um samkynhneigð. Rökin voru byggð á því að ekki má vanmeta hugarheim barna. Á vissum tímabilum í lífi barna kemur að því að strákar vilja bara leika við stráka og stúlkur við stúlkur. Strákar fara oft út í þær öfgar að vilja ekki leika sér við stelpur. Hjá stúlkum gerist það oft að góðar vinkonur haldast í henður og greiða hvor annari, mikil nánd. Ef börn hafa þann valmöguleika að geta átt kærustu eða kærasta af sama kyni og að ekkert sé athugavert við það, getur það ýtt undir að börn af sama kyni pari sig án þess þó að um nokkra samkynhneigð sé að ræða; þetta getur skaðað börnin með því að rugla þau í ríminu á viðkvæmum aldri (sjá þessa vefgrein (Children at risk)).

Í félagsfræði er kennt að öll hegðun sé lærð. Menn greinir á hvort samkynhneigð sé af félagslegum hvötum eða hvort sumir fæðist samkynhneigðir. Engar rannsóknir benda til þess að fólk fæðist samkynhneigt og bendir ýmislegt til að félagsleg mótun geti leitt til þess að fólk verði samkynhneigt. Dæmi eru um að fólk sem hafi verið í gagnkynhneigðum samböndum til fjölda ára slíti sambúðinni og fari í samband við manneskju af sama kyni. Athyglisvert er að margt fólk sem hefur verið samkynhneigt en breytt yfir í það að verða gagnkynhneigt varar við samkynhneigðum lífsstíl (sjá þessa vefslóð, Gay Rights/ Special Rights (non-religious)).

Orð þessa fólks finnast mér vega þungt á vogaskálinni um hvort leyfa eigi að fræða börn um samkynhneigð. Það er allavega ekki alveg sama hvernig það er gert og skiptir máli á hvaða aldri það er gert. Einnig verður að passa að börn verði ekki hvött til að prófa sig áfram hvað varðar kynhneigð sína. Slíkt gæti leitt til erfiðleika hjá ungu fólki sem grunnskólarnir ætla sér að skila út í þjóðfélagið með góðan grunn.

Ég vona að menntamálaráðuneytið láti gera rannsókn og láti kanna hjá fagaðilum, barnasálfræðingum, hvort slík fræðsla eigi rétt á sér og að tryggt sé að slíkt muni ekki hafa áhrif á börnin. Ég sem foreldri vil fá allar upplýsingar í ljósið áður en dreift er bók um samkynhneigð inn í leikskóla landsins. Ég tel að það sé verið að búa til félagslegan grundvöll um samkynhneigð og í raun móta þau inn í lífsstíl sem ég set spurningar við.

Með von um opna og málefnalega umræðu óska ég þess að velferð barna sé höfð að leiðarljósi. Þess vegna óska ég eftir viðbrögðum þeirra sem ákveða að leyfa slíka fræðslu.

Ég veit að fólk er annaðhvort með eða á móti slíkri fræðslu, þess vegna vona ég að sjónarmið beggja fái að koma í ljós, málefnalega. Eftir það skulum við taka ákvörðun hvort slík fræðsla eigi rétt á sér.

Böðvar Ingi Guðbjartsson.
Höfundur er pípulagningamaður.

No feedback yet