« Fellið vændismálið! - Opið bréf til þingheims og dómsmálaráðherraAð farga fóstri til að koma í veg fyrir vansælt líf síðar meir? »

05.03.07

  01:40:49, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 97 orð  
Flokkur: Samkirkjuhreyfingin

Sameinast Þjóðkirkjan kaþólsku kirkjunni?

Um það var m.a. rætt í Silfri Egils í gær, og um það efni á ég nú alllanga grein á þessari Moggabloggsíðu minni og vísa hér með til hennar. En í Bretlandi og hinu alþjóðlega biskupakirkjusamfélagi (Anglican Church) er nú rætt af nokkurri alvöru (og að gefnum mörgum tilefnum) um hugsanlega sameiningu þess við kaþólsku móðurkirkjuna. Þjóðkirkjupresturinn Baldur Kristjánsson hefur nú gerzt opinber málsvari þess, að hans eigin kirkja "sameinist undir merkjum páfans í Róm." Þetta eru nokkur tíðindi, bræður og systur.

9 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Minnumst orðanna á gröf Lúters, bróðir:

„Ad summum Regina thronum defertur in altum: Angelicis praelata choris, cui festus et ipse Filius occurrens Matrem super aethera ponit.“

Ég hjó einnig eftir því hvernig séra Baldur benti á það hversu „lausir“ Íslendingar væru orðnir við kristna lífsafstöðu. Sá mæti maður Guðni Ágústsson borðaði skyr fyrir þjóðina í upphafi „Food and Fun“ daganna sem hófust í upphafi lönguföstu.

En eitt er víst að aðgangur veraldarhyggjunnar (secularism) er slíkur, að kristnir menn um allan heims verða að standa sameinaðir gegn henni.

Segja verður sem er að þar hefur „Hvítasunnuhreyfing“ mótmælenda gengið heil til verks í málaflokkum eins og samkynhneigð og fósturdeyðingum.

Sambúðin við veraldarhyggjuna á eftir að reynast kirkjunni erfið í náinni framtíð og ganga má út frá því sem vísu, að guðsafneitunarstefnan á eftir að taka líknarmorðin upp á arma sína í náinni framtíð.

Vafalaust á afgreiðslustofnunin við Austurvöll (Alþingi) eftir að afgreiða lög um lögleiðingu líknarmorða af jafn miklum hraða og fósturdeyðigarnar, samkynhneigðina og stofnfrumufrumvarpið. Þetta fólk sem situr þarna er svo einstaklega „frjálslynt“ að þar er um einn kór að ræða og einn vilja og einn leiðtoga (führer): Kölska!

05.03.07 @ 09:28
Athugasemd from: Ólafur Haukur Árnason
Ólafur Haukur Árnason

Ég ætlaði nú að setja þessa athugasemd á Moggabloggið en svo virðist vera að ég geti það ekki nema stofna mitt eigið blogg og ég held ég bíði með það um sinn.

En hún er ágæt þessi umfjöllun þín sem og bloggið allt. Vildi nú aðallega kvitta fyrir komuna - það er greinilegt að maður þarf að venja komur sínar þangað. Þessar hugmyndir sr. Baldurs eru að mörgu leyti ágætar þótt ég efist um að þetta geti orðið að veruleika eins og komið er fyrir Þjóðkirkjunni í dag. En það eru spennandi tímar framundan í kirkjusögunni. Það stefnir í sameiningu og bræðralag milli og rómversku og grísku kirkjunnar og nú sömuleiðis milli kaþólskra og anglíkana, eða a.m.k. einhvers hluta þeirra, auk þess sem Benedikt páfi réttir nú sáttahönd sína til samfélags Píusar tíunda, sem bannfært hefur verið í nokkra áratugi.

Ég hef þó tvennt við málið allt að athuga: (1) Það að Baldur telur “kaþólsku [kirkjuna] fyllri af dulúð og tilfinningum … en [að] hin lútherska “höfði meira til rökvísi."” Ekki get ég fyrir nokkurn mun skrifað undir þessa skoðun. Í raun þykir mér einn mesti styrkur kaþólskunnar liggja í því hve vel hún talar til rökvísi og skynsemi manna þótt vissulega megi innan hennar vébanda finna hina bestu dulspeki. Aftur á móti veit ég fátt sem höfðar eins illa til rökvísi minnar og bókstafstrú Lúthers og öll þau afsprengi hennar sem finna má í ýmsum sundruðum sértrúarsöfnuðum. Í því ljósi er athyglisvert að fylgjast með þeirri klemmu sem hin frjálslynda, “lútherska” Þjóðkirkja er í, nú þegar Biblían - “hið óskeikula orð Guðs” að mati Lúthers - samræmist ekki lengur heimsmynd hennar og pólitískri og samfélagslegri rétthugsun. Þá er brugðið á það ráð að halda bókstafstrúnni en afbaka textann í þýðingu. Það er a.m.k. ljóst að nýju Biblíuþýðingunni yrði Þjóðkirkjan að varpa fyrir róða ef hún ætlaði að sameinast Róm. (2) Eru einhverjir “hreinlútherskir” menn hér á landi (fyrir utan Sigurjón Árna Eyjólfsson)? Það fer a.m.k. ekki mikið fyrir þeim.

05.03.07 @ 23:10
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég hef þó tvennt við málið allt að athuga: (1) Það að Baldur telur “kaþólsku [kirkjuna] fyllri af dulúð og tilfinningum … en [að] hin lútherska “höfði meira til rökvísi."” Ekki get ég fyrir nokkurn mun skrifað undir þessa skoðun. Í raun þykir mér einn mesti styrkur kaþólskunnar liggja í því hve vel hún talar til rökvísi og skynsemi manna þótt vissulega megi innan hennar vébanda finna hina bestu dulspeki.

Rökvísi og dulúðarguðfræði fara í reynd ágætlega saman, Ólafur Haukur. Ég tek aðeins tvö dæmi: Heil. Tómas frá Akvínó og heil. Gregoríos frá Nyssa.

Tómas velur aristótelismann sem ramma um skilgreiningar sínar. Jafnframt því að vera frábær rökfræðingar var hann einn af mestu djúphyggjumönnum kirkjunnar sem iðulega vill gleymast.

Með kenningum sínum um færslu engla í rúmi lagði hann grunninn að kvantafræði nútímans sem gerði Niels Bohr orðlausan þegar honum var bent á þessi skrif hans.

Gregoríos frá Nyssa (335-395) valdi hins vegar nýplatonismann sem tjáningarmál sitt vegna þess að þetta var ríkjandi heimspekikerfi samtíma hans. En eins og Jean Danielou kardínáli benti á hefði hann eins getað tjáð reynslu sína á hvaða heimspekikerfi sem er líkt og búddískri heimspeki. Aðalatriðið er að heil. Gregoríos var eins og Tómas, einn af mestu dulúðarguðfræðingum kirkjunnar fyrr og síðar og kaus að tjá reynslu sína af Guði á máli heimspekinnar,

Ég læt þessi dæmi nægja. Akkilesarhæll mótmælenda eftir Þrjátíuárastríðið var að taka þýsku guðleysisheimspekingana upp á arma sína og þar með að afneita ákveðnum þáttum hinnar kristnu opinberunar eins og hlutverki Maríu Guðsmóður, þrátt fyrir að Lúter hafi verið afar elskur að henni og skrifað fagurlega um hana í „Lofsöng Maríu.“ Í formálanum að þessu verki sínu ákallar hann Maríu Guðsmóður.

06.03.07 @ 09:19
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég þakka umræðuna. Ég er sammála þér, Ólafur Haukur, að það stefnir í sameiningu kaþólsku kirkjunnar við Austurkirkjuna og kannski lungann úr anglíkönum fremur en við lútherska.

Varðandi þín tvö athugunarefni í lokaklausunni verð ég í 1. lagi að lýsa mig sammála þér um dulúðina og rökvísina (og Jón Rafn á gott innlegg um það líka í seinni pósti sínum), en um atriði nr. (2) er það að segja, að vissulega eru fleiri en dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson hreinlútherskir í Þjóðkirkjunni. Herra Sigurbjörn gamli er það trúlega ennþá, en einnig, til dæmis, svo ágætir og vel gefnir menn aðrir sem séra Guðmundur Óli Ólafsson (sem þjónaði í Skálholti), Gunnar J. Gunnarsson (guðfræðings, Sigurjónssonar), guðfræðingur og Kennaraskóladósent, séra Gísli Jónasson (prófessors og vígslubiskups, Gíslasonar) og séra Sigurður Pálsson, sá sem þjónaði Hallgrímskirkju – og á þetta líka fína smábréf í Velvakanda í dag!

06.03.07 @ 15:53
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

(innlegg í umræðuna á bloggsíðu Jóns Vals):

Samkvæmt nýjustu Árbók Vatíkansins er fjöldi presta í rómversk kaþólsku kirkjunni nú 406.411. Í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir sendi sovéska leyniþjónustan fjölmarga útsendara sína til að læra til prests til að tortíma kirkjunni innan frá með homósexualisma og barnaníðingshætti.

Fyrir um það bil mánuði síðan (ef mig minnir rétt) varð þannig byskup að segja af sér í Póllandi þegar kom í ljós að hann hafði verið útsendari Sovétríkjanna sálugu.

SJÁ

Það eru ekki allir sem koma frá „góðum höfuðstöðvum.“

06.03.07 @ 19:41
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég setti þetta inn á Moggablogg mitt, nafni.

06.03.07 @ 20:37
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Já, þakka þér fyrir nafni. Þetta svar á heima þar sem athugasemd við þitt góða blogg. Þakka þér fyrir. Ég var einnig að bæta við smá innleggi hvað áhrærir þann sænska skúrk Göran Häggelund.

06.03.07 @ 20:49
Athugasemd from: Ólafur Haukur Árnason
Ólafur Haukur Árnason

Sælir og takk fyrir góð svör. Það var nú ekki ætlun mín að draga línu á milli rökvísi og dulúðar og að sjálfsögðu fer þetta tvennt vel saman. Vildi einungis benda á að þetta tvennt má finna innan ramma kaþólskrar guðfræði.

Það er og ágætt að þeir eru fleiri en mig grunaði, sem hafa skoðanir sem Þjóðkirkjan ætti í raun öll að hafa. Það er synd að lúthersk sjónarmið séu ekki meira áberandi en raun ber vitni í þessari lúthersku kirkjudeild. Með þeim þykir mér trúverðugleiki kirkjunnar standa og falla, þótt sjálfur sé ég ekki sammála þeim.

07.03.07 @ 16:04
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Það er spurning hvað Baldur á við með orðalaginu að sameinast undir merkjum páfans. Leggja má ýmsan skilning í þessi orð, en svo virðist að margir sjái það eitt í þeim að þjóðkirkjan gangi í kaþólsku kirkjuna svo að segja. Það þarf þó ekki að vera raunin, á sameiningu eða sambandi geta verið ýmis form.

Nú eru viðræður við Anglíkana og lútherska í fastmótuðum og ákveðnum farvegum Sjá hér: http://www.indcatholicnews.com/unity.html og hér: http://www.indcatholicnews.com/luther.html og hér: http://www.kirkju.net/index.php/ragnar/2005/06/23/arcic_i_skyrslunni_svarae. og hér um viðræður við orþodoxa: http://www.indcatholicnews.com/cathrod.html.

Þessar viðræður eru ekki í kastljósi fjölmiðla en það sem er athyglisvert er að þeim miðar áleiðis, að vísu hægt en samt nokkuð örugglega.

10.03.07 @ 22:09
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution