« Verk hans lýsa því, að vísdómur hans er takmarkalausYfirlit yfir helstu hátíðir kirkjuársins og fl. ((( í vinnslu ))) »

03.03.06

  23:14:12, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 212 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur

Saga um mann sem elskaði dýr.

Til er saga um mann sem elskaði dýr. Hann sá eitt sinn örn í búri og þótti sárt að sjá þennan konung fuglanna þannig firrtan frelsinu. Þess vegna keypti dýravinurinn örninn. Fór hann því næst með hann burt úr borginni, þar sem hann hafði keypt hann og að fjallsrótum. Þar opnaði hann búrið, en örninn var hinn rólegasti í opnu búrinu. Þá stjakaði dýravinurinn við honum, svo að hann gekk út úr búrinu. En ekki reyndi hann til að hefja sig til flugs. Þannig leið löng stund, að örninn gekk hægt umhverfis búrið.

En allt í einu varð skýjarof og brennheitt sólskinið flæddi yfir umhverfið. Þá lyfti örninn höfðinu og fór að hreyfa vængina. Og skyndilega breiðir hann úr vængjum sínum og lyftir sér til flugs, hærra og hærra.

Meðan maðurinn bindur hamingjuleit sína eingöngu við jarðnesk gæði, líkist hann erninum, sem gleymt hafði fluginu. En þegar hann verður var kærleika hins himneska föður og fegurð himinsins verður honum ljós, þá finnur hann, að lífi hans er ætlað æðra mark og mið.

1 athugasemd

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þegar Guð einblínir á eitthvað glæðir það elskuna. Ef hann hefði ekki horft til okkar í þessari ósegjanlegu miskunn og elskað okkur að fyrra bragði, eins og hl. Jóhannes segir (1 Jh 4. 10, 19) og lotið niður til okkar, þá hefði hár elsku okkar ekki fangað hann, sökum þess að þessi elska var ekki svo háleit í flugi sínu til að hrífa þennan guðdómlega fugl í upphæðum. En þar sem hann laut niður að okkur og horfði til okkar og glæddi flug elsku okkar með því að styrkja hana og veita henni hugmóð til að gera þetta (5 M 32. 11), þá heillaðist hann sjálfur í beinu áframhaldi af þessu þegar hárið bærðist, það er að segja hann fann til velþóknunar og gladdist. Þetta er sú merking sem felst í ljóðlínunni: Þú einblíndir á það á hálsi mínum, og eitt augna minna særði þig. Það er því ekkert ótrúlegt við það að fugl sem er lágfleygur geti fangað örninn konunglega í upphæðum, ef þessi konunglegi örn kemur fljúgandi niður úr hæðum og þráir að láta fanga sig.

Hl. Jóhannes af Krossi: Ljóð andans, 31. 8.

04.03.06 @ 07:04