« Föstuboð kirkjunnarÍrland: Bænaákall gegn nýju frumvarpi um fósturdeyðingar »

31.01.13

  19:41:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 267 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi, Trúin og menningin

Saga og áhrif Jesúítareglunnar hér á landi

Saga og áhrif Jesúítareglunnar eru töluverð hér á landi ef að er gáð. Jón Sveinsson (Nonni) var t.d. Jesúíti og hann kom hingað til lands 1894 að líkindum til að kanna endurreisn kaþólska trúboðsins. Árið 1896 beitir sr. Jón sér fyrir fjársöfnun erlendis til að byggja holdsveikraspítala hér. Söfnunarfé Nonna er svo síðar notað til byggingar Landakotsspítala og dugði það fyrir nær helmingi stofnkostnaðar. Árið 1896 koma svo fyrstu St. Jósefssysturnar til Íslands. Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir því að St. Jósefsreglan er afsprengi Jesúítareglunnar því stofnandi hennar var Jesúítinn Jean Paul Médaille sem lesa má um hér:

Um sögu St. Jósefsreglunnar á Íslandi þarf svo varla að fjölyrða en ég læt nægja að taka fram að reglusystur hófu starfsemi við hjúkrun og kennslu árið 1896. Þær komu á fót sjúkraskýlum á Fáskrúðsfirði og í Reykjavík (1897) og síðar sjúkrahúsum í Reykjavík (1902) og Hafnarfirði (1926) sem kennd voru við hl. Jósef. Systurnar byggðu Landakotsskóla 1909 og barnaskóla í Hafnarfirði 1938.

Systurnar létu einnig byggja Holtsbúð 87 í Garðabæ sem enn er í eigu Kaþólsku kirkjunnar og þar sem núna er rekið heimili fyrir aldraða og lesa má um hér:

Einnig ber að geta Jesúítans dr. Alfreðs Jolsons sem hingað kom og var vígður biskup kaþólskra í Landakotskirkju í fyrstu kaþólsku biskupsvígslu sem farið hefur fram hérlendis en það var 6. febrúar 1988.

Það má því segja að ef vel er að gáð að áhrif Jesúítareglunnar séu all nokkur hér á landi og ættu þessi dæmi að nægja. En þau eru fengin úr ritinu "Kaþólskur annáll Íslands" sem Ólafur H. Torfason tók saman og gefið var út sem handrit af Þorlákssjóði 1993 auk heimildanna á netinu.

2 athugasemdir

Athugasemd from: Vigfús Ingvar Ingvarsson  
Vigfús Ingvar Ingvarsson

Þetta er áhugaverður pistill. Ég hef reyndar þýtt 2 bækur eftir jesúítann Gerard W. Hughes, Guð sem kemur á óvart og Guð hvers vegna?
Jesúítar virðast mér annars lítið þekktir hérlendis.

28.10.16 @ 08:18
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið Vigfús. Kv. RGB.

05.03.17 @ 20:03