« Ritningarlesturinn 7. október 2006Ritningarlesturinn 6. október 2006 »

06.10.06

  07:30:51, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 500 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

„Sá sem á yður hlýðir, hlýðir á mig, og sá sem yður hafnar, hafnar mér.“

Upphafið er þetta. Fyrstur kom Pétur postuli:

Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína, og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. Ég mun fá þér lykla himnaríkis, og hvað sem þú bindur á jörðu, mun bundið á himnum, og hvað sem þú leysir á jörðu, mun leyst á himnum." (Mt 20. 18-20).

Því næst kom: Heil. Linus (um 66-78).
Þar næst kom: Heil. Anacletus (um 79-91).
Næst Heil. Klement (um 91-109).

Síðan komu 260 aðrir og sá síðasti Benedikt páfi XVI. Hann er sá 264 sem skipar sæti Péturs. Þversumma tölunnar 264 er 12 og margfeldið með tölunni 5 sama og 72. Engu er líkara en að Andinn segi okkur með þessu að hann sé réttur maður á réttum stað og tíma. Þó að ljósengill kæmi af himni ofan með miklum mætti og undrum og segði með þrumuraust að öllum heiminum áheyrandi: „Ég ber þau boð frá þeim Hæsta að hann vilji nú að afgönsk kona sem játar Íslam verði páfi, þá yrði svar hins alheimslega biskuparáðs: „Þetta fær ekki staðist, þetta stríðir gegn hinni heilögu arfleifð erfikenninganna.“

Sumir spyrja: „Hver er heilög arfleifð erfikenninganna? Hún felst í miðlun, kenningum, helgisiðum, Ritningum og lífi kirkjunnar. Í framkvæmd felst arfleifðin í uppfræðslu, lífi, helgiþjónustu og tilbeiðslu kirkjunnar þegar sannleika þess raunveruleika sem Kristur og Andinn létu postulunum í té er miðlað frá einni kynslóðinni til annarrar. [1]

Allir sem risið hafa upp gegn hinni heilögu arfleifð hafa annað hvort gert það sökum innblásturs anda sem þeir töldu arfleifðinni æðri eða með því að lesa Ritningarnar með sínum eiginn skilningi án þess að lesa þær í ljósi arfleifðarinnar.

Þrátt fyrir að allir kynslífsfræðingar nútímans og öll veraldleg stjörnvöld segðu að kynlíf fólks af sama kyni sé rétt, æskilegt og lögmætt, þá hafnar kirkjan því í ljósi arfleifðarinnar vegna þess að í samhljóðan við hana er hér um synd að ræða.

Þegar sumir segja að kristnir menn eigi ekki að játa syndir sínar, iðrast og biðja Guð fyrirgefningar sökum þess að þeir hinir sömu hafa misboðið Guði gróflega, þá segir kirkjan í ljósi arfleifðarinnar að þeir gangi á vegi heljar.

Stundum hafa þær stundir komið að einstakir limir kirkjunnar hafa brotið gegn hinni heilögu arfleifð. Þá hafa hinir trúföstu innan hennar ákallað miskunnsaman Guð um hjálp. Og sá sem kom í heiminn til að afmá syndir heimsins hefur þá lotið niður til hennar í miskunn sinni og blásið iðrunaranda siðbótarinnar henni í brjóst. Þannig endurnýjast samfélag kirkjunnar sífellt sökum þess Heilaga Anda sem Drottinn gaf henni við upphaf vegferðar hennar á jörðu.

[1]. Encyclopedia of Catholicism, HarperSanFrancisco 1985, bls. 1261.

1 athugasemd

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þetta er góð grein, og þakka þér, Jón bróðir.

07.10.06 @ 07:11