« Thor Vilhjálmsson gekk pílagrímsgöngu til Santiago de CompostelaSumartónleikar í Dómkirkjunni Landakoti í júlí og ágúst »

13.07.10

  08:34:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 221 orð  
Flokkur: Fjölmiðlarýni

RÚV og mbl.is tengja pólitíska óeirðaseggi við kaþólska trú

Í sjónvarpsfréttum RÚV í gærkvöldi var greint frá óeirðum á N-Írlandi. Í fréttinni var greint frá því að „kaþólikkar“ hefðu kveikt í brennum í borginni. Nokkuð lengra gekk mbl.is í fyrirsögn fréttar: „Kaþólikkar köstuðu bensínsprengjum að göngu Óraníu-manna“. Helstu fjölmiðlar í Bretlandi ganga ekki einu sinni svo langt að tengja óeirðaseggina beint við hinar pólitísku fylkingar þjóðernissinna eða sambandssinna. Breska ríkisútvarpið BBC talar um þjóðernissinnaða mótmælendur (nationalist protesters) [1], Telegraph talar um grímuklædda mótmælendur [2] (masked protesters) og Guardian um óreirðaseggi [3] (rioters from the nationalist Ardoyne) og Independent um grímuklædda mótmælendur (masked protestors) [4]

Nokkuð ljóst ætti að vera hverjum þeim sem kynnir sér málið að óeirðirnar sem og deilurnar á N-Írlandi byggja fyrst og fremst á pólitískum grunni. Það kemur því miður stundum fyrir að sumir hérlendir fjölmiðlar nefna sambandssinnana á Norður Írlandi mótmælendur og þjóðernissinnana kaþólikka. Þessu þyrfti að breyta bæði til að stuðla að nákvæmari fréttaflutningi og það ætti einnig að vera kappsmál allra ábyrgra fjölmiðla að reyna að greina þannig frá atvikum sem gerast að hlustendur og lesendur fái ekki mynd sem byggir á staðalmyndum sem gætu kynt undir fordómum í garð trúarhópa. Hvað þetta síðasttalda varðar getur RÚV því miður ekki státað af glæstri sögu. Dæmi um það má finna í fyrsta pistilinum sem skrifaður var hér á Kirkju.net árið 2005: Undarlegur fréttaflutningur fréttastofu Sjónvarps (RÚV).

[1] http://news.bbc.co.uk/2/hi/northern_ireland/10609517.stm
[2] http://www.telegraph.co.uk/news/uknews/northernireland/7886511/Northern-Ireland-police-condemn-July-12-violence.html
[3] http://www.guardian.co.uk/uk/2010/jul/13/police-officer-belfast-injured-riot
[4] http://www.independent.co.uk/news/uk/home-news/police-urge-solution-to-marching-disputes-2025307.html

6 athugasemdir

Óli Gneisti

Þó ég sé vissulega sammála því að það sé of mikil einföldun að tala um að lýðveldissinnar séu kaþólikkar og sambandssinnar mótmælendur þá er rangt að segja að “deilurnar á N-Írlandi byggja fyrst og fremst á pólitískum rótum".

Ef ekki hefði komið til aldalöng kúgun mótmælenda á kaþólikkum þá væri saga Írlands allt önnur og ástandið líklega betra en í dag. Málið er að sjálfsögðu flókið og pólitík og þjóðernishyggja spila mikinn þátt þarna inn í en ef maður ætlaði að nefna eina rót sem væri “fyrst og fremst” þá er sú rót deilur mótmælenda og kaþólikka.

13.07.10 @ 09:50
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Ef deilan á N-Írlandi væri trúarlegs eðlis og snerist um ágreining mótmælenda og kaþólikka þá væri verið að slást um kennivald páfans, postullega vígsluröð og eðli nærveru Krists í Altarissakramentinu. Kannski einnig um prestvígslu kvenna. Er það svo? Nei, deilan er hápólitísk og snýst um sjálfstæði og menningu. Trúin er vissulega einn þáttur menningarinnar en samt sem áður ekki sá þáttur hennar sem hvetur til aðgerða á hinu pólitíska sviði. Hún er afl sem beinir sjónum hvers manns inn á við en ekki út á við. Hún vekur menn til umhugsunar um sitt eigið líf og lífsviðhorf.

13.07.10 @ 16:09
Óli Gneisti

Ef þú vilt tala um ástæðurnar fyrir deilunum í dag en ekki rætur þeirra, sem var punkturinn sem ég gagnrýndi hjá þér, þá held ég að þú sért líka á rangri leið. Ástæðan fyrir því að ungt fólk á N-Írlandi í dag er að beita ofbeldi snýst held ég minnst um pólitík heldur rómantíska sýn þess á ofbeldi fortíðarinnar.

13.07.10 @ 17:03
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Ertu að segja að málefni sem tengjast því hvernig sambandi Írlands og Bretlands er fyrir komið séu ekki pólitísks eðlis eða byggi ekki á pólitískum rótum vegna þess að átakalínurnar liggi gróft séð á milli tveggja trúarhópa?

13.07.10 @ 22:02
Óli Gneisti

Ég hef á tilfinningunni að þú sért ekki að lesa kommentin mín.

14.07.10 @ 05:49
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Afsakaðu. Ég sneri aftur í fyrstu athugasemdina (13.07.10 @ 11:50) og var að reyna að átta mig betur á þræðinum í henni.

Þú segist (í 13.07.10 @ 19:03) halda að þessi átök núna snúist um rómantíska sýn á ofbeldi fortíðar. Ef við gerum ráð fyrir að sú meining sé rétt þá verða meint tengsl við trúarlegar forsendur ósennilegri.

14.07.10 @ 07:31