« Minningardagur Vorrar Frúar af blómunum (Madonna dei fiori) í Bra á ÍtalíuTEPEYACHÆÐIN Í MEXÍKÓ 1531: MÓÐIR NÝRRAR HEIMSSKIPUNAR (1) »

30.12.06

  07:24:36, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2435 orð  
Flokkur: Opinberanir Maríu Guðsmóður sem njóta kirkjulegrar viðurkenningar

RUE DU BAC Í PARÍS 1830: OPINBERUN ALDARSKEIÐS HINNA TVEGGJA HJARTNA (2)

OPINBERUN MÓÐUR JARÐARINNAR

Rue_du_Bac_I

Catherine Labouré fæddist þann 2. maí 1806 í þorpinu Fain-les-Moutiers í Búrgúndýhéraði í Frakklandi. Hún hóf líf sitt sem nýnemi hjá Kæreiksdætrum Heil. Vincent Pauls 22 ára gömul. Það var ekkert sem aðgreindi Catherine frá hinum nýnemunum í daglegum háttum hennar. Dagurinn hófst klukkan 4 að morgni og eftir morgunmessuna uppfræddi nýnemassystirin hinar verðandi nunnur um köllun Kærleiksdætranna. Hver dagurinn tók við af öðrum í háttbundnu klausturslífinu. Allt frá ungu aldri hafði Catherine þráð mjög að sjá Maríu Guðsmóður og bað ákaft um að verða auðsýnd slík náð. Þann 18. júlí 1830 ræddi nýnemafræðarinn systir María um það hversu mikla elsku heil. Vincent hefði ætíð borið í brjósti til hinnar blessuðu Meyjar. Þetta sama kvöld gekk Catherine til náða klukkan tíu um kvöldið. Síðar innti skriftafaðir hennar hana eftir því hvað borið hafði að höndum þetta sama kvöld og bað hana að skrifa um reynslu sína. Þetta er það sem hún skrifaði:

„Klukkan hálf tólf um kvöldið heyrði ég að einhver kallaði á mig: „Systir, systir, systir!“ Ég reis upp við dogg og leit í þá átt sem röddin barst. Ég sá lítið hvítklætt barn sem mér virtist vera 4 eða 5 ára gamalt. Barnið sagði við mig: „Við skulum fara út í kapellu. Hin blessaða Mey bíður þar eftir þér.“ Sú hugsun hvarflaði að mér, að einhver myndi heyra til mín.“ Barnið sagði þá: „Hafðu ekki áhyggjur af þessu, klukkan er hálf tólf og allir í fasta svefni. Komdu, ég bíð eftir þér.“

Ég reis á fætur og klæddi mig í flýti meðan barnið beið eftir mér við rúmgaflinn. Það fylgdi mér eftir, eða réttara sagt ég því. Það stóð mér ávallt til vinstri handar. Það geislaði miklu ljósi út frá því og lýsti upp leiðina. Ég var furðu lostin. En ekki varð undrun mín minni þegar ég sá að það logaði á öllum kertunum í kapellunni líkt og fyrir miðnæturguðsþjónustu. Ég sá ekki hina blessuðu Mey. Barnið fór með mig í kórinn þangað sem nýnemafræðarinn sat venjulega. Ég kraup niður og barnið stóð mér við hlið. Mér fannst líkt og langur tími hafi liðið og gáði að því hvort systirin á næturvaktinni hefði gengið hjá.

FYRSTA OPINBERUNIN

Loks var stundin runnin upp. Barnið virtist verða þessa áskynja og sagði við mig: „Hérna er hin blessaða Mey. Hún er komin.“ Ég heyrði þyt líkt og af silkifaldi. Hljóðið barst frá þeirri hlið altarisins þar sem ritningarlesturinn fer fram. Í fyrstu efaðist ég um að þetta væri hin blessaða Mey. Að þessu loknu er útilokað fyrir mig að lýsa því hvernig mér leið eða hvað bar að höndum. Svo virtist vera að ég gæti ekki borið skyn á hina blessuðu Mey. Nú talaði barnið ekki lengur við mig með barnslegri röddu, heldur eins og fulltíða karlmaður með miklun raddstyrk:

Nú sá ég hina blessuðu Mey. Ég kraup niður frammi fyrir henni við þrepin upp að altarinu og lagði höfuð mitt á hné hennar. Nú upplifði ég stærstu stundina í lífi mínu. Það er með öllu útilokað að lýsa því hvernig mér leið.

Hún sagði mér hvernig mér bæri að bregðast við þeirri baráttu sem biði mín í framtíðinni. Hún benti á altarið með vinstri hendinni og sagði mér að það væri hérna sem ég gæti opnað hjarta mitt og öðlast alla þá huggun sem ég þarfnaðist. Það væri hér sem ég ætti að biðja um að verða uppfrætt um allt það sem ég hefði séð. Ó! Hún útskýrði þetta allt fyrir mér! . . .
Það eina sem ég geri mér ljóst er að þegar hún var farin var það með sama hætti og hún kom. Ég var á altarisþrepinu og sá að barnið var þar sem ég sá það síðast. Það sagði við mig: „Hún er farin.“ Við fórum síðan sömu leiðina og við komum og leiðin var upplýst. Barnið var mér alltaf til vinstri handar. Ég trúi því að þetta barn væri verndarengill minn sem varð sýnilegur til að leiða mig til fundar við hina blessuðu Mey. Þar sem ég hafði beðið svona ákaft hafði hann öðlast þessa náð mér til handar. Hann var hvítklæddur og uppljómaður í yfirskilvitlegu ljósi. Ég fór síðan aftur að sofa og heyrði í klukkunni á þessari stundu. Hún var 2 eftri miðnætti og mér auðnaðist ekki að festa svefn.“

Meðan þetta langa samtal stóð yfir greindi María mey henni frá því að henni yrði falin sérstök köllun á hendur. Eins og gilti um alla sendiboða Guðs yrði hún að horfast í augu við margvíslega erfiðleika og þjást mikið. Í annarri frásögn sem fest var á blað þann 30. október 1876 greindi Catherine frá sumu af því sem þeim fór á milli með eftirfarandi orðum:

„Barnið mitt. Guð vill fela þér ákveðna köllun á hendur. Þú munt ganga í gegnum margvíslega erfiðleika en munt sigrast á þeim öllum ef þú gerir allt Guði til dýrðar. Þú verður að trúa því að þetta sé allt komið frá Guði og þú munt ekki öðlast neinn frið fyrr en þú hefur greint skriftaföður þínum frá öllu því sem þú hefur reynt. Þú munt glíma við erfiðleika en öðlast þá náð sem þú þarfnast. Vertu ekki óttaslegin. Þú munt sjá ákveðna hluti og munt njóta innblásturs í bæninni.

Tímarnir eru illir. Ógæfa steðjar að Frakklandi og öll heimsbyggðin mun ganga í gegnum margþætta erfiðleika . . . Sú stund mun renna upp að hættan verður mikil. Fólk mun trúa því að allt sé glatað. Krossinn verður hæddur og blóð mun flæða um strætin og allur heimurinn verða harmi lostinn. En komdu að þessu altari og hér mun náðargjöfunum verða úthellt yfir alla þá sem biðja ákaft um þær. Þær munu verða veittar stórum sem smáum . . .“

ÖNNUR OPINBERUNIN

Þannig greinir Catherine Labouré frá annarri opinberuninni: „Þetta var þann 27. nóvember 1830 sem var laugardagurinn fyrir fyrsta sunnudaginn í aðventu klukkan hálf sex síðdegis eftir hugleiðsluna meðan mikla þögnin stóð yfir. Ég heyrði þyt eins og af skrjáfandi silkifaldi:

Hún stóð á hvítum hnetti, það er að segja hálfum hnetti, að minnsta kosti sá ég ekki nema hálfan hnött. Ég kom einnig auga á dreka sem var grænn að lít með gulum skellum. Hendur hennar hvíldu í mittishæð og hún hélt á gullnum knetti skrýddum gullnum krossi að ofanverðu, sem táknaði jörðina og með þeim hætti, að það var eins og hún bæri hann fram fyrir Guð að fórn. Augu hennar beindust til himna en hvörfluðu niður af og til. Ásjóna hennar var svo einstaklega fögur að ég get ekki lýst því . . . Allt í einu kom ég auga á hringi á fingrum hennar, þrjá hringi á hverjum fingri og sá stærsti neðst . . .

Chaterine stóð þannig agndofa frammi fyrir Guðsmóðurinni uns hún leit til hennar og tók að tala: „Þessi hnöttur sem þú sérð táknar jörðina, einkum Frakkland og sérhverja manneskju.“ Chaterine sundlaði þegar hún sá allan þennan dýrðarljóma og hin blessaða Mey útskýrði fyrir henni merkingu þá sem hringarnir höfðu að geyma: „Þeir tákna þær náðargjafir sem ég veiti þeim sem um þær biðja.“ Og síðan hélt Guðsmóðurin áfram: „Þeir gimsteinar sem varpa ekki frá sér neinum geislum eru þær náðargjafir sem mannssálunum yfirsést að biðja um.“

Á þessum andartaki var ég svo gagntekin sælukennd að ég vissi ekki hvar ég var stödd. Egglaga hjúpur (mandala) umlauk Guðsmóðurina. Innan hans var ritað með gullnu letri: „Ó María, getin án syndar, bið þú fyrir oss sem leitum ásjár þinnar.“ Áletrunin sem myndaði hálfan hringboga, byrjaði við hægri höndina og lág yfir höfuðið allt til vinstri handarinnar . . . Hinn gullni hnöttur hvarf mér nú sjónum í þeim dýrðarljóma sem streymdi úr öllum áttum. Hendurnar skildust að og handleggirnir hnigu niður vegna þyngsla allrar þeirra náðargjafa sem birtust. Því næst sagði röddin: „Láttu gera men samkvæmt þessari fyrirmynd. Allir þeir sem bera það munu njóta mikillar náðar. Þeir eiga að bera það um hálsinn. Þeir sem bera það af trúnaðartrausta munu öðlast mikla náð.“

Nokkrum mánuðum síðar opinberaðist Catherine bakhlið mensins. Á þessu andartaki virtist menið snúast við og ég sá bakhlið mensins: Stórt M með krossi fyrir ofan það. Fyrir neðan M-ið mátti sjá hjörtu þeirra Jesús og Maríu, annað þeirra krýnt þyrnum en hitt gegnumnýst sverði og tólf stjörnur umluku táknið.

Rue_du_Bac_III

Guðsmóðirin bað um að kraftaverkamen yrði gert samkvæmt þessari fyrirmynd og það fyrsta leit ljós í París þann 30. júní 1832 og síðan breiddust þau skjótt út um alla Evrópu. Einhver athyglisverðasta frásögnin í sambandi við kraftaverkamenið tengdist Gyðingi einum í Strassborg, Alphonse M. Ratisbonne. Vinur hans hafði reynt að snúa honum til kristindómsins án árangurs, en hann samþykkti þó að bera menið. Skömmu síðar þegar hann var staddur í Róm gekk hann af tilviljun inn í kirkjuna Sant’ Andrea della Fratte og sá Guðsmóðurina nákvæmlega eins og hún er sýnd á meninu. Hann snérist samstundis til trúar og afturhvarf hans nýtur kirkjulegrar blessunar og er minnst í helgisiðunum í sambandi við kraftaverkamenið.

Rue_du_Bac_II

Þann 3. janúar 1877 var líkami Catherine Labouré lagður til hinstu hvíldar í kapellunni í Reuilly. Þann 21. mars 1933 var gröf Catherine opnuð að viðstöddum fulltrúum frá erkibyskupsdæminu í París, Kærleiksdætrunum og læknum. Öllum til mikillar undrunar kom í ljós að líkami hennar hafði varðveist að fullu og öllu. Niðurstöður læknanna hljóðuðu: „Líkaminn hefur varðveist alheill og enn eru liðamótin sveigjanleg.“ Að lokinni nákvæmri rannsókn lækna var hann fluttur í móðurhús Kærleiksdætranna í París. Eftir að systir Catherine hafði verið tekin í tölu hinna blessuðu þann 28. maí 1933 var líkama hennar komið fyrir undir altari til heiðurs „Móðir jarðarinnar.“ Þannig hefur ótölulegur fjöldi pílagríma getað leitað þar fyrirbæna hinnar blessuðu Meyjar. Píus páfi XII tók systur Catherine Labouré í tölu heilagra þann 27. júlí 1947.

TÁKNRÆN MERKING OPINBERUNARINNAR Í RUE DU BAC Í PARÍS

Henni er ef til vill best lýst með bæn þeirri sem Jóhannes Páll páfi II fór með í kapellunni árið 1980:

Ó María, getin án syndar
bið þú fyrir oss sem leitum ásjár þinnar.

Ó María, getin án syndar, bið þú fyrir oss
sem leitum ásjár þinnar. Ó María, þetta var sú
bæn sem þú gafst heil. Catherine Labouré í
kapellu opinberunarinnar fyrir meira en
eitt hundrað og fimmtíu árum. Þetta ákall sem
grafið er á kraftaverkamenið er borið og endurtekið
af hinum trúuðu um allan heim.

Blessuð ert þú á meðal kvenna!
Þú ert órjúfanlega samofin endurlausn okkar
og krossi Frelsara okkar, hjarta þitt hefur verið
gegnumnýst líkt og hans Hjarta. Og núna lætur
þú aldrei af því að biðja fyrir okkur syndugum mönnum
í dýrð Sonar þíns.

Þú vakir yfir kirkjunni vegna þess að þú ert Móðir
okkar. Þú vakir yfir sérhverju barna þinna. Þú
verðskuldar okkur allri náð úr hendi Guðs sem
táknuð er með ljósgeislunum frá opnum höndum
þínum og þess eina sem þú ferð á leit við okkur
er að ganga fram í tiltrú, stöðuglyndi og einfaldleika
barnsins. Og það er þannig sem þú leiðir okkur
fram fyrir guðdómlegan Son þinn.

Þegar alls er gætt er opinberunin í Rue du Bac í beinu áframhaldi af opinberuninni á Tepeyachæðinni í Mexíkó árið 1531. Það er hin blessaða Mey sem hin nýja Eva sem mun merja höfðuð (1M 3. 15) „þessa gamla höggorms, sem er djöfull og Satan“ (Opb 20. 2), með sama hætti og hún lagði hinn fiðraða höggorm Quetzalcoatl að velli í Mexíkó, en nafn hans er einnig DAUÐINN (Opb 12). Það er þessi snákur sem birtist í opinberuninni í Rue du Bac grænn að lit með gulum skellum. Því getum við tekið undir bæn Peters Kreefts af fullkomnu trúnaðartrausti:

Ákallið Maríu, hina síðari Evu, konuna sem sigraði höggorminn sem tældi hina fyrri Evu (1M 3. 15). Hún vann sigur á þessum höggormi fyrir tvö þúsund árum (sjá Opb 12) og að nýju í Mexíkó árið 1531, og enn að nýju í Þýskalandi árið 1945 og aftur í Rússlandi árið 1989. Þennan sigur getur hún fullkomnað að nýju meðal þjóða sem guðræknir Múslimar kalla „hinn mikla Satan,“ menningu sem úthellir blóði milljóna saklausra barna árlega fyrir gráðugan munn Móloks. Það er einungis Drottning englanna og himneskar hersveitir hennar sem megnar að sigra þennan engil illskunnar og umbreyta menningu okkar úr „dauðamenningu“ í lífsmenningu ljóss og elsku. [1]

[1]. Angels and Demons, bls. 126.

Frásögnin er byggð á: Delaney, John J., A Woman Clothed with the Sun, Doubleday, New York, 1990 og á heimasíðu Our Lady of the Miraculous Medal Church:
http://www.miraculousmedalchurch.org/Index.htm

No feedback yet