« ZEITOUN Í EGYPTALANDI 1968: HINN BLESSAÐA MEY Í HRINGIÐU BORGARLÍFSINS (13)BETANIA Í VENESÚELA 1976: MARÍA MEY, MÓÐIR OG HUGGARI ALLRA ÞJÓÐA (11) »

12.01.07

  08:39:19, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 4130 orð  
Flokkur: Opinberanir Maríu Guðsmóður sem njóta kirkjulegrar viðurkenningar

RÚANDA Í AFRÍKU 1981-1989: MÓÐIR ORÐSINS OPINBERAST Í SKÓLA Í KIBEHO (12)

kibeho_1

Skálmöld ríkti í Rúanda á árunum 1980 og 1981. Því sem næst öll líkneski af hinni blessuðu Mey í þorpum landsins voru eyðilögð eða þeim stolið. Nokkrir prestar voru hættir að biðja rósakransinn sökum áróðurs ákveðins hóps guðfræðinga sem boðuðu ákaft, að slík guðrækni heyrði fortíðinni til. Á þessu tímaskeiði ákvað hin blessaða Mey að birtast í Kibeho sem er í suðurhluta landsins, fátækasta landsvæðinu í Rúanda, en þar höfðu tveir prestar haldið vöku sinni og hrifu fólkið með sér með predikunarstarfi sínu.

Í Kibeho talaði Guðsmóðirin ekki einungis til íbúa Rúanda, heldur alls heimsins. H. Engelmann greinir frá því að kaþólskur prestur í Þýskalandi hafi eitt sinn séð mynd af hinni blessuðu Mey hanga á áberandi stað á skrifstofu Hindenburgs marskálks. Þegar presturinn gat ekki leynt undrun sinni, sagði Hindenburg (sem var mótmælandi): „Í hinni blessuðu Mey sé ég það manngildi holdi klætt sem ég þarfnast mest í lífinu:“

Er unnt að skilgreina betur það sem María bar með sér til heimsins? Til heims sem er sárþjakaður af stærilátri eigingirni kemur María til að kenna auðmýkt Betlehems. Hún áminnir þann heim sem stjórnast af fégræðgi á örbirgðina í Nasaret. Hún ber þeim heimi sem er sárþjakaður af undirferli og svikum sannleikann og einfalt líferni. Fyrir heimi sem gengur sífellt lengra í hatri harðýðgi hjartans færir hún okkur í hendur kennslustund í manngæsku. Hún boðar þeim heimi sem lifir í saurgun og fáfengileika vitnisburð um flekkleysi sitt. Hún flytur ellihrumum heimi roða æskublóma síns.“ [1]

Allt sjáum við þetta með áþreifanlegum hætti í opinberununum í Kibeho.

GUÐSMÓÐIRIN OPINBERAST Í GAGNFRÆÐISKÓLA

Í upphafi skólaársins 1981 voru 120 nemendur skráðir í gagnfræðiskólann í Kibeho sem skipt var í þrjár bekkjardeildir. Skólinn var undir stjórn þriggja kaþóskra systra. Aðrir kennarar voru fimm að tölu, ein kona og fjórir karlmenn, allt leikmenn. Þeir voru allir Rúandamenn, tveir mótmælendur, en hinir kaþólskir. Meginhluti nemendanna var kaþólskur, en 17 þeirra voru mótmælendur og tveir múslimar. Siðgæðisástandið í skólanum var fjarri því að vera viðunandi.

kibeho_2

FYRSTA OPINBERUNIN

Fyrsti sjáandinn í Kibeho var stúlka að nafni Alphonsine Mumreke. Hún var sautján ára gömul og þetta var fyrsta árið sem hún sótti skólann í Kibeho. Hún var afar trúuð og elsk að hinni blessuðu Mey. Hún sótti messur reglulega og þannig greinir hún frá fyrstu vitruninni:

„Þetta gerðist laugardaginn 28. nóvember 1981 klukkan hálf eitt í hádeginu. Ég var stödd í mötuneyti skólans og þjónaði skólafélögum mínum til borðs. Allt í einu heyrði ég að einhver kallaði á mig. Þetta var María: „Dóttir mín.“ Ég svaraði: „Hér er ég.“ Ég fór fram á ganginn og þar sjá ég forkunnarfríða konu standa. Ég kraup niður og signdi mig með krossmarkinu og spurði: „Hver ert þú?“ María svaraði: „Ndi Nyin Wa Jambo“ (Ég er móðir Orðsins). Hvað vegur þyngst hjá þér í trúarlífinu?“ Ég svaraði: „Ég elska Guð og Móðir hans sem gaf okkur barnið sem frelsaði okkur.“ María svaraði: „Fyrst þessu er svo varið er ég komin til að hugga þig vegna þess að ég hef heyrt bænir þínar. Ég þrái að vinir þínir taki að trúa meira vegna þess að trú þeirra er veik.“ Ég svaraði: „Móðir Frelsara míns. Ef það ert þú sem ert í raun og veru komin til að segja okkur hér í skólanum að trú okkar sé lítil, þá elskar þú okkur. Ég er ósegjanlega glöð að þú skulir birtast mér með slíkum hætti.“

Alphonsine heldur síðan áfram: „Meyjan var ekki hvít eins og hún er venjulega sýnd á helgimyndum. Ég get ekki sagt hver húðlitur hennar var, en hún var ósegjanlega fögur. Hún var berfætt og klædd heilofnum hvítum kyrtli. Hendur hennar hvíldu samanklemmdar á brjósti hennar og því næst benti hún til himins. Síðar var mér sagt að ég var í borðsalnum. Skólafélagar mínir greindu mér síðar frá því að ég hefði talað nokkur tungumá: Frönsku, ensku, kinyarwanda og svo framvegis. Þegar hin blessaða Mey var í þann mund að fara fór ég með þrjár „Heil sért þú María“ og bænina: „Kom Heilagur Andi.“ Þegar hún hvarf sá ég hana stíga til himins eins og Jesú.“

Þegar opinberuninni lauk stóð Alphonsine hreyfingarlaus í um stundarfjórðung, líkt og hún væri lömuð og með öllu útilokað var að vekja hana úr hrifunum. Hvorki kennararnir né nunnurnar lögðu trúnað á það sem hún sagði. Allir töldu að hún hefði veikst.

FREKARI OPINBERANIR

Opinberunin endurtók sig daginn eftir, þann 29. nóvember. Í desember endurtóku opinberanirnar sig því sem næst alltaf á laugardögum. Kennararnir og nemendurnir voru sárþjakaðir af forvitni, hvort hrifin væru í raun og veru raunveruleg. Þeir brenndu Alphonsine með eldspýtum og stungu hana með nálum, en hún sýndi engin viðbrögð. Hún varð að þola margt á þessu tímaskeiði og var höfð að háði og spotti: „Héran kemur sjáandinn!“ Meðan á opinberuninni stóð þann 8. mái 1982 kvartaði Alphonsine við hina blessuðu Mey:

„Fólk segir að við séum vitskert.“

Þennan dag var móðir hennar viðstödd opinberanirnar í fyrsta skiptið.

NEMENDURNIR OG KENNARARNIR
FÁ MARGVÍSLEG TÁKN

Nemendunum og kennurunum voru gefin mörg himnesk tákn svo að þeir tryðu á áreiðanleika opinberananna. Þeir nemendanna sem áttu rósakransa komu með þá til að fá blessun hinnar heilögu Meyjar. Þeir voru hafðir saman í hrúgu þannig að Alphonsine vissi ekki hverjir voru eigendur þeirra. Hún tók þá hvern og einn og bar fram fyrir Guðsmóðurina. Sumir þeirra urðu svo þungir að sjándinn gat ekki lyft þeim upp til að fá þá blessaða. Þá veittu viðstaddir því athygli að þessir þungu rósakransar tilheyrðu þeim nemendanna sem trúðu ekki á opinberanirnar og höfðu þær að spotti.

Í svefnálmu skólans bitist einnig stjarn og afar sterkt ljós sem allir gátu séð. Iðulega greindi hin blessaða Mey Alphonsine frá því hvenær hún myndi birtast næst. Í Rúanda eru fréttir fljótar að spyrjast út. Fólk tók að koma meðan opinberanirnar stóðu yfir. Að beiðni byskupsins tilkynnti sjándinn skólastjóranum hvar opinberanirnar yrðu næst: Utandyra, á skólalóðinni, eða þá í svefnálmunni – einkaopinberanir sem einungis vörðuðu nemendurna.

MARÍA GUÐSMÓÐIR VILL VERÐA
DROTTNING ALLRA SKÓLA

María varð þannig smám saman nákomin nemendunum til að vinna þá á sitt band. Hún veitti þeim leiðbeiningar og áminnti þá um að haga sér betur. Hún opinberaði sig í raun og veru sem Móðir sem í móðurelsku sinni uppfræðir börn sín. Hún var í raun og veru Drottning skólans. Hún þráir að verða Drottning alls skólastarfs!

Við vitum hvernig núverandi ástand er í skólum um allan heim. Það er skelfilegt vegna þess að Guði hefur verið varpað á dyr og boð hans ekki lengur virt eða kennd. Það er jafnvel bannað að biðja í flestum skólum sem eru yfirfullir af börnum. Þessum sakleysingjum er kennt að Guð sé ekki til! María Guðsmóðir birtist í skólanum í Kibeho til að gefa öllum heiminum fordæmi og til að sýna fram á hvaða áhrif má hafa á nemendur þegar boðorð Guðs eru kennd í skólum.

Vegna þeirrar miklu andstöðu sem gætti sökum fyrstu opinberunarinnar sögðu sumir kennaranna og nemendanna: „Við munum trúa því að það sé María Guðsmóðir sem hafi birst, ef hún birtist einhverjum fleirum en henni Alphonsine.“ Hún svaraði þeim: „Biðjið sjálf til að öðlast þessa náð.“

TVEIR AÐRIR SJÁENDUR

Þann 12, janúar 1982 svaraði hin blessaða Mey bænum nemendanna með því að opinberast nú ungri stúlku, Anatahlie Mukamazimpka og hélt áfram að birtast henni til 3. desember 1983. Öllum til undrunar birtist Guðsmóðirin auk þess Marie Claire Maukango þann 2. mars 1982. Engu var líkara en að sprengju hefði verið varpað á skólann vegna þess að það hafði einmitt verið Marie Claire sem hafði efast mest um gildi opinberananna. Hún var satt best að segja engin fyrirmynd í kristnu siðgæði og breytni. Hún hafði uppnefnt Alphonsine „kjána!“ Og nú var röðin komin að henni að öðlast yfirskilvitlega reynslu! María Guðsmóðir útvaldi hana til að útbreiða boðskap sinn og upp frá þessu þreyttist Marie Claire aldrei á því að endurtaka:

„Við verðum að íhuga þjáningar Jesú og hina djúpstæðu hryggð Móður hans. Við verum að biðja rósakransinn daglega og einnig Rósakrans hinna sjö hryggðarefna Maríu svo að við öðlumst þá náð að geta iðrast.“

Marie Claire naut opinberananna allt til 15. september 1982.

HIÐ BLESSAÐA VATN

Í janúar og febrúar 1982 tók sá illi að hafa sig frammi í svefnálmunni ásamt árum sínum. Til að hrekja þessi öfl á brott gripu nunnurnar til þess ráðs að nota vatn úr lindunum í Lourdes og hafði þetta góð áhrif, en brátt gekk vatnið til þurrðar. Anathalie var þá beðin um að biðja Guðsmóðurina um að blessa vatn meðan á opinberununum stóð. Þetta var þann 2. mars 1982. Þannig varð það að venju að biðja hina blessuðu Mey að blessa vatn.

OPINBERUNARSTAÐIRNIR

Í þeim opinberunum sem komu í kjölfar þeirrar fyrstu kaus Guðsmóðirin að birtast í svefnálmunni allt til 16. janúar 1982. Frá og með þeim tíma opinberaðist hún annað hvort á skólalóðinni þegar um almennar opinberanir var að ræða, eða þá í svefnálmunni eða þá í kapellu skólans. Það er hérna sem nemendurnir koma til að biðja á kvöldin og það er einkum hér sem hin blessaða Mey kaus að opinberast sjáendunum. Nemendurnir voru viðstaddir opinberanirnar og iðulega snérist boðskapurinn um sjálft skólastarfið. Litið var á þessar opinberanir sem persónulegar og almenningi því ekki heimilað að vera viðstaddur þær.

Hins vegar var öllum heimilt að vera við opinberanirnar á skólalóðinni. Sjáendurnir töluðu þar við hina blessuðu Mey og heimilt var að hljóðrita það sem fór fram, en að sjálfsögu gátu viðstaddir ekki heyrt orð Meyjarinnar. Fjöldi viðstaddra fór skjótt vaxandi, einkum í maímánuði 1982, í þeim mánuði sem er einmitt tileinkaður Maríu Guðsmóðir. Hátalarar og magnarar höfðu verið settir upp til að auðvelda blaðamönnum og fulltrúum lækna og guðfræðinga að dreifa efninu, en einkum til að gera almenningi kleift að fylgjast með því sem fram fór. Í ágústmánuði 1982 voru þannig 20.000 manns viðstaddir opinberunina.

Í lok opinberunarinnar bað hin blessaða Mey sjáendurna að blessa mannfjöldann. Sjáendurnir dvöldust í hrifum og sáu ekki fólkið, heldur garð með ferskum og fölnuðum blómum. Guðsmóðirin bað sjáendurna um að vökva blómin og sagði að fersku blómin táknuðu það fólk sem snýr hjarta sínu til Guðs, en skrælnuðu blómin þá sem snúa hjörtum sínum að jarðneskum hlutum, einkum fjármunum.

YFIRSKILVITLEG BROTTHRIF

Yfirskilvitleg brotthrif voru einnig fyrir hendi. Alphonsine reyndi þetta fyrst þann 20. mars 1982. Hún greindi skólastýrunni og skólafélögum sínum frá slíku fyrirfram: „Þetta verður eins og ég sé dáin, en þið skuluð samt ekki jarða mig!“ Slík brotthrif vörðu í átján tíma. Prestar, hjúkrunarkonur, reglufólk og sjúkraliðar Rauða krossins urðu vitni að því hvernig Alphonsine féll í djúpan svefn og líkami hennar stirnaði upp og þyngdist að mun. Þeir gátu ekki lyft henni upp fremur en að skilja hendur hennar að sem voru klemmdar saman. Meðan á þessum brotthrifum stóð sýndi hin blessaða Mey mér:

„Himininn, hreinsunareldinn og víti.“

Annað áhrifamikið atvik sem gerðist í Kibeho var sú fasta og þögn sem Jesús og María fóru fram á. Þetta var eitt þeirra atriða sem rannsóknarnefndin athugaði sérstaklega. Þessar föstur gátu staðið allt upp í hálfan mánuð, án þess að það skaðaði heilsu sjáendanna.

ALPHONSINE BAÐ OG SAUNG
MEÐAN Á OPINBERUNINNI STÓÐ

Í einni opinberuninni var Alphosine læknuð af alvarlegu hálskýli og augnsjúkdómi. Meðan á opinberuninni stóð þann 2. október féll hún sjö sinnum til jarðar en hélt áfram að biðja og syngja liggjandi á gólfinu. Hún bað um náð til að fyrirlíta syndina, um styrk til að láta ekki leiðast af fýsnum holdsins og saung: „Drottning himins og jarðar.“ Hún endurtók iðulega: „Við skulum hjálpa Jesú að frelsa heiminn. Í bænum sínum bað hún oft um kallanir til prestdómsins og reglulifnaðar. Hún gleymdi heldur ekki æskunni og bað um frið og sagði að „óeining, vandamál og hatur gegnsýri alla heimsbyggðina“. Að lokum bað hún fyrir byskupunum í Rúanda, yfirvöldum og allri heimsbyggðinni.

kibeho_3

TVEIR HELGIDÓMAR

Þann 5. ágúst 1982 sagði hin blessaða Mey við Anathalie:

„Ég tala við ykkur, en þið hlustið ekki. Ég vil lyfta ykkur upp, en þið eruð jarðbundin. Ég kalla á ykkur, en þið eruð daufdumba. Hvenær komið þið því í verk sem ég bið ykkur að gera? Þið þverskallist við öllum mínum bænum. Hvænær farið þið að skilja? Hvenær fáið þið áhuga á því sem ég þrái að koma á framfæri við ykkur? Ég gef ykkur tákn, en þið trúið engu. Hversu lengi ætlið þið að þverskallast við bænum mínum?

Þessi áminningarorð hinnar blessuðu Meyjar komu í kjölfar þess, að hún hafði beðið um að tveir helgidómar yrðu reistir á opinberunarstaðnum. Anathalie hafði greint yfirvöldum frá beiðni hennar, en ekkert hafði verið gert til að hrinda málinu í framkvæmd. Engu að síður var staðarbyskupinn og sóknarpresturinn þegar sannfærðir um sannleiksgildi opinberananna, en þær urðu að fara í gegnum hið hefðbundna rannsóknarferli.

IÐRUN!

Hér eru birtar samræður þær sem fóru fram á milli Marie Claire og Guðsmóðurinnar þann 2. apríl 1982.

Guðsmóðirin: „Iðrastu, iðrastu, iðrastu!“
Marie Claire: „Það geri ég!“
Guðsmóðirin: „Þegar ég segi þetta við þig, þá er ég ekki að tala við þig eina, heldur tala ég líka til allra hinna. Nú á dögum hafa menn rúið hlutina öllu sönnu inntaki. Sá sem fremur ranglæti gerir sér ekki lengur ljóst að hann drýgir ranglæti.“

Marie Claire: „Við erum veiklunduð og vanmegna. Gefðu okkur styrk til að játa yfirsjónir okkar og að biðja um fyrirgefningu vegna þessa alls.“ (Guðsmóðirin mælti með því að við biðjum Rósakrans hinna sjö hryggðarefna).

Þann 31. maí 1982 segir Guðsmóðirin við Marie Claire:

„Það sem ég bið ykkur um að gera er að iðrast. Ef þið farið með þessa rósakransbæn jafnframt því að íhuga hana öðlist þið styrk til að iðrast. Nú til dags kann fjölmargt fólk ekki lengur að biðja um fyrirgefningu. Það krossfestir Guðsoninn að nýju. Þetta vil ég minna ykkur á, einkum hérna í Rúanda, vegna þess að hér hef ég fundið auðmjúkt fólk sem er ekki háð auðæfum eða peningum.“

Guðsmóðirin bað okkur að fara með Rósakrans hinna sjö hryggðarefna daglega ef við kæmum því við, einkum á eftirfarandi dögum: Föstudögum, þeim degi sem við minnumst krossfestingar Jesú, þann 14, september á Hátíð hins heilaga kross og þann 15. september á Hátíð hinna sjö hryggðarefna Guðsmóðurinnar.

SKILABOÐ TIL RÁÐMANNA HEIMSINS

Hér er útadráttur úr boðskap hinnar himnesku Móður til Alphonsine í síðustu opinberun hennar þann 28. nóvember 1989:

„Ég beini orðum mínum til ykkar sem hafið völdin og eruð fulltrúar þjóðanna: Bjargið fólkinu í stað þess að vera kvalarar þess. Rænið ekki fólkið heldur deilið öllu hvert með öðru. Gætið þess að ofsækja ekki fólk og þagga niður í þeim sem vekja athygli á brestunum í fari ykkar. Þetta segi ég og endurtek . . . Standið vörð um mannréttindi og berjist fyrir því að líf annarra sé virt og fyrir sannleikanum og öllu því sem talist getur gott, þannig að Guð verði elskaður og virtur. Hvað sem þið gerið, getið þið ekki barist gegn Guði.“

NOKKUR YFIRSKILVITLEG FYRIRBRIGÐI

Pílagrímarnir í Kibeho hafa orðið vitni að nokkrum yfirskilvitlegum fyrirbrigðum: Dansi sólarinnar frá hægri til vinstri og upp og niður í tugir mínútna. Sólin hefur horfið, grænt tungl hefur komið í stað hennar, stjörnurnar hafa bifast á himnhvolfinu og ljóskross hefur sést á himnum.

En mesta kraftaverki í Kibeho er það trúarlega afturhvarf sem komið hefur í kjölfar opinberananna. Hin blessaða Mey kallaði fyrst og fremst á helgaðar sálir og æskufólkið sem gengur í skóla sem starfa ekki einungis án Guðs, heldur berjast gegn honum!

YFIRLÝSING BYSKUPSINS Í GIKONGORO (STYTTUR TEXTI)

Þann 2, júlí 2001 birti hið heilaga Sæti yfirlýsingu Augustin Misago Gikobgoro byskups um opinberanir þær sem áttu sér stað í Kibeho á árunum 1982-1983.

„Staðarbyskupinn skipaði þegar í stað tvær rannsóknarnefndir, aðra skipaða læknum, en hin guðfræðingum. Þær hafa verið að störfum frá því í apríl 1982 . . . Í ljósi þess hversu vel verkinu hefur miðað geta kirkjuleg yfirvöld nú kveðið upp úrskurð hvað áhrærir málið:

Augustin Misago frá Gikongoro sem er fulltrúi þessara yfirvalda hefur gefið út yfirlýsingu sína hvað lýtur að endanlegum úrskurði um opinberanirnar í Kibeho, Rúanda. Þessi mikilvægi atburður í Gikongorobyskupsdæminu og í öllu kirkjulífi Rúanda gerðist þann 29. júní 2001 á Hátíð hl. Péturs og Páls við messu í dómkirkjunni í Gikongori. Allir kaþólskir byskupar Rúanda ásamt sendiherra Páfagarðs í Kigali voru viðstaddir . . . Niðurstaða byskupanna var svohljóðandi: Já, María mey birtist í Kibeho þann 28. nóvember 1981 og næstu mánuðunum á eftir. Ríkari ástæða er til að trúa á opinberanirnar en að hafna þeim . . . Opinberanirnar í Kibeho njóta nú opinberrar viðurkenningar . . . Nafn helgidóms Maríu í Kibeho er Helgidómur Vorrar Frúar af hryggðinni.

Kibeho er þannig orðin að pílagrímastað fyrir alla þá sem leita Krists og koma þangað til að biðja, mikilvægur staður trúarlegs afturhvarfs og til að bera fram fórnir sökum synda heimsins, samkomustaður fyrir alla þá sem eru tvístraðir, til handa öllum þeim sem bera samúð í brjósti og lifa í bræðralagi sem einskorðast ekki við landamæri, mikilvægur samkomustaður til að minnast fagnaðarerindis krossins . . . Yfirlýsing þessi kemur þannig til móts við væntingar lýðs Guðs og blæs nýju lífi í þá guðrækni sem tók að blómstra fyrir 13 árum“ (Tilvitnun úr L´Osservatore Romano, vikulegri útgáfu á ensku, júlí 2001, bls. 8).

kibeho_4

OPINBERUN UM STRÍÐIÐ 1994

Þegar Jóhannes Páll páfi II heimsótti Rúanda árið 1990 hvatti hann hina trúuðu til að snúa sér til hinnar blessuðuðu Meyjar um örugga leiðsögn og til að biðja gegn pólítískri og þjóðernislegri sundrungu.

Eitt af þeim atriðum sem varð til þess að kirkjuleg yfirvöld samþykktu opinberanirnar í Kibeho sem áreiðanlegar var sú sýn sem opinberuð var af ættflokkavígunum sem gerðist 12 árum síðar eða árið 1994. Þann 19. ágúst 1982 sáu sjáendurnir:

„Blóðstraum, fólk sem myrti hvert annað, yfirgefna nái sem enginn gróf, logandi tré og höfuðlausa mannslíkama.“

Í fyrstu virtust þessi spásagnarorð hljóma ótrúlega, en áratug síðar eða vorið 1994 braust út skelfileg borgaraastyrjöld í Rúanda og einungis á þremur mánuðum er talið að 500.000 til milljón manns hafi fallið í valinn, fólk sem var hálshöggvið með sveðjum og líkunum varpað í Kageafljótið („blóðstrauminn“).

Hin blessaða Mey hafði einnig varað okkur við því í Kibeho að útbreiðsla kynsjúkdóms myndi leiða til mikilla hörmunga. Þetta var áður en heimurinn komst í kynni við eyðnina. Árið 1994 voru 70% allra eyðnismitaðra að finna í Afríku. Heilu þorpin urðu að draugaþorpum og börnin munaðarlaus í stórum stíl þar sem foreldrarnir voru dánir.

BOÐSKAPUR SEM EKKI ER ÆTLAÐUR AFRÍKU EINNI SAMAN

En viðvörunarorð hinnar blessuðu Meyjar var ekki einungis beint til Afríku, eða eina og hún komst að orði við Marie-Claire Mukangango – sem síðar var myrt í stríðinu:

„Þegar ég segi þetta við þig, þá er ég ekki að tala við þig eina, heldur tala ég líka til allra hinna.“

Hún mælir til heims sem stefnir í miklar hörmungar. Til að forðast styrjaldir og yfirvofandi refsingu bað Móðir Orðsins sjáendurna og alla heimsbyggðina að biðja, fasta og iðrast. Í ljósi þeirra skelfilegu atburða sem gerst hafa, þá er þetta einungis fyrirboði enn blóðugri styrjaldarátaka sem krefjast enn meiri mannfórna og því ættum við að gefa orðum Jóhannesar Páls páfa II gaum: „Biðjið til að forðast stríð!“

SKÁLMÖLD VERALDARHYGGJUNNAR

Á tuttugustu öldinni hafa milljónir manna orðið að fórnardýrum skurðgoða stjórnmálanna. Blóðstraumurinn hefur því ekki einungis litað Kageafljótið í Rúanda, skálmöldin hefur ekki einungis sorfið að íbúum Rúanda. Ár hvert heiðrar kirkjan minningu hinna saklausu sveinbarna sem Heródes lét myrða í Betlehem þann 28. desember. John Henry Newman kardínáli komst svo að orði, að þetta væru „píslarvottar sem gátu ekki játað nafn Sonar þíns, en urðu dýrlegir sökum nafns hans.“ Hann bætti við: „Og til forna voru slík villimannsleg morð eða píslarvætti jafngildi eins konar skírnar – blóðskírnar.“ [2]. Minnumst þess milljarðs ófæddra barna sem gengið hafa í gegnum píslarvætti blóðskírnar fósturdeyðinga skálmaldar veraldarhyggjunnar á síðustu tveimur áratugum. Biðjum:

Heilaga María Guðsmóðir,
bið þú fyrir oss syndugum mönnum.
Úthell náð loga elsku þíns Flekklausa Hjarta
yfir Ísland og alla heimsbyggðina,
nú og á dauðastundu vorri.
Blíða Móðir allrar mildi,
bræð helkalin hjörtu fórnardýra veraldarhyggjunnar
svo að þau verði gagntekin meðaumkun með
þeim varnarlausustu í hópi bræðra vorra og systra,
ófæddra barna sem fórnað er Mólok. Amen.

[1]. H. Engelmann: J´ai perdu la foi (Ég glataði trú minni), bls. 91.
[2]. Sjá: Heilagt guðspjall Jesú Krists fimmtudaginn 28, janúar 2006:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Desember/desember.html

Umfjöllunin er byggð á grein eftir Thérèse Tardiff sem birtist í okt.-nóv.-desemberútgáfu franska tímaritsins „Michael“ árið 2001.

No feedback yet