« Miskunnarrósakransinn - 1. hlutiBlessun vinnunnar - margföldun tímans »

11.07.07

  17:27:04, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 596 orð  
Flokkur: Bænir

Rósakransinn

Margir þekkja þá kaþólsku venju að biðja rósakransbæn eða talnabandsbæn eins og hún er líka kölluð. Til aðstoðar við bænagerðina er notað talnaband sem samanstendur af kúlum þræddum upp á band. Við bandið er fest krossmark. Hefðbundin notkun talnabandsins byggist á því að biðja Trúarjátningu, Faðir vor og Maríubænina sem hefst á orðunum: „Heil sért þú María..“ eins og bænin er skrifuð í ritum kirkjunnar. Halldór Kiljan Laxness skrifaði reyndar „Heill þér María ...“ á einum stað en sú útgáfa er ekki notuð.

Á meðan Maríubænirnar eru beðnar er venjan að íhuga sögusvið Guðspjallanna eða önnur atriði trúarinnar og eru þessi atriði nefnd „leyndardómar“ með tilvísan í það að skilningur og innsýn í boðskap trúarinnar getur opnast fólki sem íhugar þessi mál. Á mánudögum og fimmtudögum eru hinir fagnaðarríku leyndardómar íhugaðir á þriðjudögum og föstudögum hinir kvalafullu en á miðvikudögum og laugardögum hinir dýrðlegu. Eftir kirkjuárinu fer síðan hvort íhugaðir eru fagnaðarríkir, dýrlegir eða kvalafullir leyndardómar á sunnudögum. Jóhannes Páll II páfi bryddaði upp á þerri nýjung að biðja hina fimm skæru eða skíru leyndardóma á fimmtudögum. Góða heimild um rósakransinn er að finna í bókinni „Rósakransinn“ sem séra Hjalti Þorkelsson tók saman og Kaþólska kirkjan á Íslandi gaf út 1978. Í þeirri bók er m.a. fjallað um nafnið „rósakrans“, um elstu rósakransritin, um rósakransbænina í kirkjusiðbót 15. aldar og elstu texta. Þar er einnig kafli úr bréfi Páls VI páfa, Marialis Cultus. Aftast í bókinni eru svo leiðbeiningar um notkun rósakransins. Bókina keypti ég í Kaþólsku bókabúðinni, Hávallagötu 14 og þar er trúlega hægt að kaupa rósakransa sem og í verslun Karmelsystra í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði. Kaþólsku prestarnir geta einnig útvegað rósakransa. Allir geta beðið rósakransbænina, líka þeir sem ekki eru kaþólskir og margir fleiri en kaþólskir ganga með rósakransa, hafa þá nálægt sér eða biðja rósakransbænirnar. Sumir hengja þá á baksýnisspegil bílsins eða ganga með rósakrans um hálsinn eins og hálsfesti, en það er kannski meira af ókunnugleika um til hvers rósakransinn er, enda er það algengur misskilningur þeirra sem ekki þekkja til að rósakransinn sé hálsfesti með krossi. Rósakransa ber gjarnan fyrir augun í kaþólskum löndum og þeir hanga stundum á baksýnisspeglum kaþólskra leigubílstjóra ásamt helgimyndum. Þessi siðvenja virðist aðeins vera að byrja hér á landi því fyrir nokkrum mánuðum var ég beðinn að útvega rósakransa fyrir fólk til að hafa á baksýnisspeglinum. Þetta fólk var ekki kaþólskt. Á kaþólskum helgistöðum eru rósakransar yfirleitt meðal þeirra muna og minjagripa sem seldir eru pílagrímum og ferðamönnum til minningar um heimsóknina. Þessir minningarrósakransar eru þá gjarnan merktir helgistaðnum með einhverjum hætti, svo sem með mynd af kirkju eða annarri áletrun. Þegar rósakransbænir eru beðnar í hóp eru bænirnar gjarnan beðnar þannig að einn biður fyrri part bænarinnar en hópurinn tekur undir í síðari hlutanum.

2 athugasemdir

Athugasemd from: Unnur Gunnarsdóttir  
Unnur Gunnarsdóttir

Sæll Ragnar, þetta er frábær grein hjá þér. Ég er að útbúa násgögn fyrir veturinn. Mætti ég nokkuð stiðjast við þessa grein eða jafnvel nota hana í heild? Við eigum ekkert efni í samanburði við þetta.

Kærleikskveðjur, Unnur

10.09.18 @ 13:53
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Sæl Unnur.
Takk fyrir innlitið og góð orð! Þér er velkomið að styðjast við greinina eða nota hana að hluta eða í heild hvernig sem hentar best.
Bestu kveðjur.

22.12.18 @ 13:53