« Messur og helgiathafnir á netinuKristin pakistönsk kona sækir um hæli í Frakklandi »

27.03.20

  15:16:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1398 orð  
Flokkur: Bænir

Rósakransinn - talnabandið - leiðbeiningar um notkun þess

Rósakransinn - talnabandið - leiðbeiningar um notkun þess
Talnabandsfesti - rósakrans

Algengur misskilningur er að talnaband sé hálsfesti með krossi, skartgripur eða skraut fyrir baksýnisspegla bifreiða en það er ekki svo. Talnaband er notað við helgiathöfn og það þarf ekki að vera úr dýru efni. 'Rósakransinn' eins og bæði helgiathöfnin og bænafestin er nefnd - er samt nokkuð vel þekkt hjá þeim sem dvalið hafa meðal kaþólskra.

Latneska orðið 'Rosarium' þýðir rósagarður, rósavöndur eða krans af rósum. Talnabandið fékk þetta nafn undir lok 15. aldar. Rósakransinn byggir á hugleiðingu valinna biblíutexta og því ættu allir sem játa kristna trú að geta lagt stund á bænina.  


Hér verður helgiathöfn rósakransins lýst og hvernig nota eigi talnabandið. Helgiathöfnin getur bæði verið persónuleg, beðin í einrúmi en einnig í hópi. Ef bænirnar eru beðnar í hópi tíðkast að sá sem leiðir bænina fari með fyrri helming bænanna en hópurinn síðari helminginn. Talnabandsfestin samanstendur af kúlum þræddum upp á band. Á enda festarinnar er krossmark. Fyrst er hér mynd af talnabandinu með númeruðum stöðum og á eftir koma skýringar á númerunum: 

 

Rósakransinn - talnabandið - leiðbeiningar um notkun þess
Talnaband

 
1. Þú signir þig og biður Postullega trúarjátningu.
2. Þú biður Faðir vor (á stakri perlu). 
3. Þú biður þrisvar Maríubæn (þrjár perlur í röð. Við þær er beðið um trú, von og kærleika, eitt atriði á hverri perlu). 
4. Þú biður Lofgerðarbæn.
5. Þú nefnir fyrsta leyndardóminn og biður Faðir vor (á stakri perlu). 
6. Þú biður tíu sinnum Maríubæn og hugleiðir fyrsta leyndardóminn* (tíu perlur). 
7. Þú biður Lofgerðarbæn og Fatíma bæn.
8. Þú nefnir annan leyndardóminn og biður bænirnar í sömu röð og áður. Því næst er haldið áfram og leyndardómarnir fimm kláraðir, einn leyndardómur á hverri talnadeild talnabandsins. Þegar leyndardómarnir eru kláraðir og búið er að íhuga alla fimm leyndardómana eru lokabænirnar Salve Regina og Bæn Leós páfa XIII beðnar. Ef um lengri helgiathöfn er að ræða og einnig í sumum löndum tíðkast að biðja Maríulitaníu á milli Salve Regina og Bæn Leós Páfa XIII

*Á meðan Maríubænirnar eru beðnar er venjan að íhuga atburði sem ritningartextar lýsa og eru þessi íhugunarefni nefnd „leyndardómar“ með tilvísan í það að persónuleg innsýn í boðskap trúarinnar opnast eða getur hlotnast fólki sem ígrundar þá. Vísað er í viðeigandi ritningartexta sem hugleiðingarefni.

Leyndardómar eða hugleiðingarefni rósakransins

A. Hinir fimm fagnaðarríku leyndardómar: Beðnir á mánudögum og laugardögum.

1. Engillinn flytur Maríu fagnaðarboðskapinn (Lúkasarguðspjall 1,26-38). Við biðjum um auðmýkt.
2. María heimsækir Elísabetu (Lúk. 1,39-56). Við biðjum um kærleika til náungans.
3. Jesús er fæddur í fjárhúsi í Betlehem (Lúk. 2,1-20). Við biðjum um að mega njóta gæða þessa heims með tilliti til hins komanda heims. 
4. Jesús er færður Drottni í musterinu (Lúk. 2,22-39). Við biðjum um hreinleika sálar og líkama. 
5. Jesús er fundinn aftur í musterinu (Lúk. 2,40-51). Við biðjum um hina sönnu visku. 

B. Hinir fimm kvalafullu leyndardómar: Beðnir á þriðjudögum og föstudögum.  

1. Jesús sveitist blóði í grasgarðinum (Matteusarguðspjall 26,36-44). Vér biðjum um iðrun syndanna.
2. Jesús er húðstrýktur (Jóhannesarguðspjall 19,1). Vér biðjum um krossfestingu skilningarvitanna. 
3. Jesús er þyrnikrýndur (Matt. 27, 27-30). Við biðjum um styrk til að snúa okkur frá heimshyggju.
4. Jesús ber hinn þunga kross (Jóh. 19,16-17). Við biðjum um þolinmæði undir krossi lífsins.
5. Jesús deyr á krossinum (Jóh. 19,25-30). Við biðjum um afturhvarf syndaranna, þolgæði réttlátra og svölun sálnanna í hreinsunareldinum. 

C. Hinir fimm dýrðlegu leyndardómar: Beðnir á sunnudögum og miðvikudögum.  

1. Jesús rís upp frá dauðum (Mark. 16,1-7). Við biðjum um kærleika til Guðs.
2. Jesús stígur upp til himna (Postulasagan 1,9-12). Við biðjum um þrá til hins eilífa föðurlands. 
3. Jesús sendir Heilagan Anda (Post. 2, 1-11). Við biðjum um að Heilagur Andi komi.
4. María er uppnumin til himna (Lúk 1,46-55). Við biðjum um að mega dýrka Maríu mey á réttan hátt. 
5. María er krýnd á himnum (Opinberunarbók Jóhannesar 12,1). Við biðjum um að mega alltaf njóta náðar og að lokum öðlast eilífa hamingju. 

D. Hinir fimm skíru leyndardómar: Beðnir á fimmtudögum. Þessum leyndardómum var bætt við af Jóhannesi Páli II páfa árið 2002. 

1. Skírn Drottins (Matt. 3, 13-17).
2. Brúðkaupið í Kana (Jóh. 2,1-9).
3. Jesús boðar fagnaðarerindið um Guðsríkið (Matt. 4,23-24).
4. Ummyndun Drottins á fjallinu (Markúsarguðspjall 9,2-7).
5. Jesús stofnar Altarissakramentið (Lúk. 22,14-20). 

------

Talnabandsbænirnar:

Postulleg trúarjátning

Ég trúi á Guð Föður almáttugan,
skapara himins og jarðar.
Og á Jesúm Krist, hans einkason, Drottin vorn;
sem getinn er af Heilögum Anda,
fæddur af Maríu mey;
leið undir valdi Pontíusar Pílatusar,
var krossfestur, dáinn og grafinn, sté niður til heljar,
reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum, sté upp til himna,
situr við hægri hönd Guðs Föður almáttugs
og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða.
Ég trúi á Heilagan Anda,
heilaga kaþólska kirkju, samfélag heilagra,
fyrirgefningu syndanna,
upprisu holdsins og eilíft líf.  Amen.


Faðir vor

Faðir vor, þú sem ert á himnum.
Helgist þitt nafn; komi þitt ríki;
verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð;
og fyrirgef oss vorar skuldir,
svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum;
og eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.  Amen.


Maríubæn

Heil sért þú María, full náðar.
Drottinn er með þér;
blessuð ert þú meðal kvenna;
og blessaður er ávöxtur lífs þíns, Jesús.
Heilaga María, Guðsmóðir,
bið þú fyrir oss syndugum mönnum,
nú og á dauðastundu vorri.  Amen.


Lofgerðarbæn

Dýrð sé Föðurnum
og Syninum
og hinum Heilaga Anda.
Svo sem var í öndverðu,
er enn og verður ávallt
og um aldir alda. Amen.


Fatíma bæn

Ástkæri Jesús fyrirgef þú oss syndir vorar.
Forða oss frá logum heljar.
Leið allar sálir til himna,
sérstaklega þær sem þurfa mest á miskunn þinni að halda. Amen.


Salve Regina

Heil sért þú, drottning,
móðir miskunnarinnar,
lífs yndi og von vor, heil sért þú.
Til þín hrópum vér, útlæg börn Evu.
Til þín andvörpum vér,
stynjandi og grátandi í þessum táradal.
Talsmaður vor,
lít þú miskunnarríkum augum þínum til vor
og sýn þú oss,
eftir þennan útlegðartíma, Jesú,
hinn blessaða ávöxt lífs þíns,
milda, ástríka og ljúfa María mey.
Bið þú fyrir oss, heilaga Guðsmóðir.
Svo að vér verðum makleg fyrirheita Krists. Amen.

Bæn Leós páfa XIII

Ó, Guð, sem gafst oss þinn eingetinn Son sem með lífi sínu, dauða og upprisu hefur aflað oss umbunar eilífs lífs, vér sárbænum þig að með íhugun þessara helgu leyndardóma hins alhelga rósakrans sællar Maríu megum vér bæði líkja eftir inntaki þeirra og öðlast það sem þeir gefa fyrirheit um. Fyrir hinn sama Krist, Drottin vorn. Amen.

Maríulitanía

Drottinn, miskunna þú oss.
Kristur, miskunna þú oss.
Drottinn, miskunna þú oss.
Kristur, heyr þú oss.
Kristur, bænheyr þú oss.
Guð Faðir í himnaríki, miskunna þú oss.
Guð Sonur, Frelsari heimsins, miskunna þú oss.
Guð Heilagi Andi, miskunna þú oss.
Heilaga Þrenning, einn Guð, miskunna þú oss.
Heilaga María - bið þú fyrir oss.
Heilaga Guðs móðir - bið þú fyrir oss.
Heilaga mey, allra meyja æðst - bið þú fyrir oss.
Móðir Krists - bið þú fyrir oss.
Móðir hinnar guðdómlegu náðar - bið þú fyrir oss.
Alhreina móðir - bið þú fyrir oss.
Alskírlífa móðir - bið þú fyrir oss.
Ósaurgaða móðir - bið þú fyrir oss.
Óflekkaða móðir - bið þú fyrir oss.
Elskulega móðir - bið þú fyrir oss.
Dásamlega móðir - bið þú fyrir oss.
Móðir hins góða ráðs - bið þú fyrir oss.
Móðir skaparans - bið þú fyrir oss.
Móðir Frelsarans - bið þú fyrir oss.
Alvísa mey - bið þú fyrir oss.
Alæruverðuga mey - bið þú fyrir oss.
Alllofsamlega mey - bið þú fyrir oss.
Máttuga mey - bið þú fyrir oss.
Gæskuríka mey - bið þú fyrir oss.
Trúa mey - bið þú fyrir oss.
Spegill réttlætisins - bið þú fyrir oss.
Sæti viskunnar - bið þú fyrir oss.
Gleðiefni vort - bið þú fyrir oss.
Andlega ker - bið þú fyrir oss.
Æruverðuga ker - bið þú fyrir oss.
Útvalda guðræknisker - bið þú fyrir oss.
Leyndardómsfulla rós - bið þú fyrir oss.
Davíðsturn - bið þú fyrir oss.
Fílabeinsturn - bið þú fyrir oss.
Gullhús - bið þú fyrir oss.
Sáttmálans örk - bið þú fyrir oss.
Dyr himnaríkis - bið þú fyrir oss.
Morgunstjarna - bið þú fyrir oss.
Heilnæmi hinna sjúku - bið þú fyrir oss.
Athvarf syndaranna - bið þú fyrir oss.
Huggari hinna sorgmæddu - bið þú fyrir oss.
Hjálp hinna kristnu - bið þú fyrir oss.
Drottning englanna - bið þú fyrir oss.
Drottning patríarkanna - bið þú fyrir oss.
Drottning spámannanna - bið þú fyrir oss.
Drottning postulanna - bið þú fyrir oss.
Drottning píslarvottanna - bið þú fyrir oss.
Drottning játendanna - bið þú fyrir oss.
Drottning meyjanna - bið þú fyrir oss.
Drottning allra heilagra - bið þú fyrir oss.
Drottning getin án saurgunar erfðasyndarinnar - bið þú fyrir oss.
Drottning hins heilaga Rósakrans - bið þú fyrir oss.
Drottning friðarins - bið þú fyrir oss.
Guðs lamb, sem burtber heimsins syndir, væg þú oss Drottinn.
Guðs lamb, sem burtber heimsyns syndir, bænheyr þú oss Drottinn.
Guðs lamb, sem burtber heimsyns syndir, miskunna þú oss Drottinn.
Bið fyrir oss, Heilög Guðs móðir. Til þess að vér getum orðið verðug fyrirheita Krists.
Látum oss biðja. Vér biðjum þig Drottinn, úthell þú náð þinni í hjörtu vor, svo að vér, sem fyrir fagnaðarboðskap engilsins höfum orðið þess vísari, að Sonur þinn er maður orðinn, verðum fyrir þjáningar hans og kross leidd til upprisu dýrðarinnar.
Fyrir hinn sama Drottin vorn Jesúm Krist, Son þinn, sem lifir og ríkir með þér í einingu Heilags anda, Guð frá eilífð til eilífðar. 
Amen.

Á þessari YouTube vefslóð má heyra bænirnar beðnar. 

Heimildir: 
Rósakransinn. Hjalti Þorkelsson tók saman. Kaþ. kirkjan á Íslandi 1978.
The New Rosary with the Mysteries of Light. Fr. Paolo O. Pirlo SHMI. Útg. Sons of Holy Mary Immaculate - Quality Catholic Publications. Manila, Philippines 2002.
Kaþólsk bænabók. Félagsprentsmiðjan Reykjavík 1922.
Vefur Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi: http://www.catholica.is/rosakransbaenirNo feedback yet