« Sekvensía | Að Guð sé einn í þrem persónum » |
Kafli úr bókinni VEGURINN, SANNLEIKURINN OG LÍFIÐ sem er trúfræðslurit um kaþólska trú (1981).
(11. k.)
"……… Að vísu er talað um margar kirkjur í Nýja testamentinu, í bréfum Páls og Postulasögunni, en þá er átt við staðarkirkjur, staðbundna söfnuði (t.d. í Korintu, Efesus, Róm og víðar). Hjá slíkum söfnuðum hafa orðið til í rás sögunnar viss einkenni, sem hafa tollað við þá og varðveist í þeim, t.d. ýmsar venjur, helgisiðir og tungumál. Þrátt fyrir það voru slíkir söfnuðir hver öðrum tengdir í einni og sömu trú og litu á sig sem deildir í heildarkirkjunni. Í þessum skilningi er að fullu réttlætanlegt að nota orðið "kirkjur". Þannig urðu t.d. til hin fornu svonefndu "patríarköt" Austurlanda (í Konstantínópel, Jerúsalem, Antíokkíu) sem voru í nánu sambandi hvert við annað og eftirmann Péturs, páfann. Öll nefndust þau "kirkjur" og það með fullum rétti.
Í þessum skilningi er rómversk-kaþólska kirkjan einnig "staðarkirkja" því að kaþólska kirkjan er ekki einfaldlega sama og rómverska kirkjan (eða latneska kirkjan, eins og hún er stundum nefnd). Rómversk-kaþólska kirkjan er aðeins staðarkirkja Vesturlanda, patríarkat Rómar. ………"