« Um þrælahald og rangfærslur veraldarhyggjunnar (secularism)„Þið voruð foreldrar okkar allra, en jafnframt morðingjar.“ [1] »

09.09.06

  07:25:47, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 422 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 9. september 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 6. 1-5
En svo bar við á hvíldardegi, að hann fór um sáðlönd, og tíndu lærisveinar hans kornöx, neru milli handanna og átu. Þá sögðu farísear nokkrir: „Hví gjörið þér það, sem er ekki leyfilegt á hvíldardegi?“ Og Jesús svaraði þeim: „Hafið þér þá ekki lesið, hvað Davíð gjörði, er hann hungraði og menn hans? Hann fór inn í Guðs hús, tók skoðunarbrauðin og át og gaf mönnum sínum, en þau má enginn eta nema prestarnir einir.“ Og hann sagði við þá: „Mannssonurinn er herra hvíldardagsins.“

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Pétur Claver (1581-1654), postula ánauðugra þræla. Hugleiðing dagsins: Benedikt páfi XVI; Úr hugvekju haldinni á 20. Heimsdegi æskunnar, sunnudaginn 21. ágúst 2005: „Mannssonurinn er herra hvíldardagsins“ (Lk 6. 5)

Evkaristían er óaðskiljanlegur hluti sunnudagsins. . . Á páskadagsmorgunn öðluðust konurnar og síðan lærisveinarnir þá náð að sjá Drottin. Frá og með þessu andartaki vissu þau að fyrsti dagur vikunnar – sunnudagurinn – yrði hans dagur, dagur Krists Drottins. Sá dagur sem markaði upphaf sköpunarinnar varð þannig að degi endurnýjunar hennar. Sköpunin og endurnýjunin eru þannig tvíburasystur.

Af þessum sökum er sunnudagurinn svona mikilvægur. Því er það af hinu góða að meðal margra menningarheilda er sunnudagurinn frídagur og iðulega verður hann ásamt laugardeginum að „fríhelgi.“ En þessi tími er tóm stund ef Guð er hér ekki nærverandi.

Kæru vinir! Stundum finnst okkur það rekast á við ýmislegt annað að sækja messu á sunnudögum. En ef þið leggið þetta á ykkur verður ykkur ljóst að þessi stund verður að þungamiðju frítíma ykkar. Þetta er sökum þess að Evkaristían glæðir þá gleði sem við þörfnumst svo mjög og þetta verðum við að gera okkur ljóst með stöðugt djúpstæðari hætti og elska þessa stund. Við skulum heita sjálfum okkur því að gera þetta – það er erfiðisins virði! Við skulum leitast við að uppgötva ósegjanlega auðlegð helgisiða kirkjunnar og hátign. Það erum ekki við sjálf sem höldum þessa hátíð sjálfum okkur til handa, heldur lifandi Guð sem efnir þannig til veisluhaldanna fyrir okkur.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet