« Ritningarlesturinn 10. júlí 2006Ritningarlesturinn 8. júlí 2006 »

09.07.06

  05:06:40, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 509 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 9. júlí 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists sunnudaginn 9. júlí er úr Markúsarguðspjalli 6. 1-6

1 Þaðan fór Jesús og kom í ættborg sína, og lærisveinar hans fylgdu honum. 2 Þegar hvíldardagur var kominn, tók hann að kenna í samkundunni, og þeir mörgu, sem á hlýddu, undruðust stórum. Þeir sögðu: „Hvaðan kemur honum þetta? Hver er sú speki, sem honum er gefin, og þau kraftaverk, sem gjörast fyrir hendur hans? 3 Er þetta ekki smiðurinn, sonur Maríu, bróðir þeirra Jakobs, Jóse, Júdasar og Símonar? Og eru ekki systur hans hér hjá oss?“ Og þeir hneyksluðust á honum. 4 Þá sagði Jesús: „Hvergi er spámaður minna metinn en í landi sínu, með frændum og heimamönnum.“ 5 Og hann gat ekki gjört þar neitt kraftaverk, nema hann lagði hendur yfir nokkra sjúka og læknaði þá. 6 Og hann undraðist vantrú þeirra.

Í dag minnist kirkjan: Hl. Augustien Zhao Rong (d. 1815), kínversks píslarvotts

Hugleiðing dagsins: Jóhannes Páll páfi II
Úr hirðisbréfinu Laborem excercens

„Er þetta ekki smiðurinn?“

Jesús Kristur lagði ríka áherslu á það að með starfi sínu taki maðurinn þátt í starfi sjálfs Guðs, Skapara síns. Margir sem hlýddu á Jesú í upphafi „undruðust stórum“ og sögðu: „Hvaðan kemur honum þetta? Hver er sú speki, sem honum er gefin, og þau kraftaverk, sem gjörast fyrir hendur hans? Er þetta ekki smiðurinn?“ Jesús boðaði ekki einungis, heldur uppfyllti fyrst og fremst „guðspjallið,“ orð hinnar eilífu Speki sem honum hafði verið falin á hendur. Þannig var þetta jafnframt „guðspjall vinnunnar“ vegna þess að sá sem boðaði það var maður starfsins, trésmiður líkt og Jósef frá Nasaret. Og ef við finnum ekki í orðum hans sérstakt boð sem lýtur að vinnunni, heldur áminningu á einum stað um að forðast áhyggjur út af starfinu og lífinu (Mt 6. 25-34), þá ber líf hans starfinu vitni með einstæðum hætti: Hann tilheyrir „hinum vinnandi stéttum“ og metur og ber virðingu fyrir starfi mannsins. Í raun og veru má segja að hann líti af elsku til starfs mannsins og þeirra mörgu afbrigða sem það birtist í og sjái í þessu ákveðinn þátt í samlíkingu mannsins við Guð, Skapara sinn og Föður. Er það ekki hann sem segir: „Faðir minn er vínyrkinn“ (Jh 15. 1)?

Í dæmisögum sínum um Guðsríkið skírskotar Jesús Kristur í sífellu til starfa mannsins: Til fjárhirðisins, bóndans, læknisins, sáningamannsins, húsbóndans, þjónsins, fiskimannsins, kaupmannsins og daglaunamannsins. Hann víkur einnig að störfum kvenna í ýmsum myndum. Og hann líkir boðunarstarfinu við störf bænda eða fiskimanna.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga.

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet