« Um stríð og friðRitningarlesturinn 8. ágúst 2006 »

09.08.06

  07:05:49, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 612 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 9. ágúst 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mt 15. 21-28

Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar. Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: „Miskunna þú mér, herra, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.“ En hann svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: „Láttu hana fara, hún eltir oss með hrópum.“ Hann mælti: „Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt.“ Konan kom, laut honum og sagði: „Herra, hjálpa þú mér!“ Hann svaraði: „Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.“ Hún sagði: „Satt er það, herra, þó eta hundarnir mola þá, sem falla af borðum húsbænda þeirra.“ Þá mælti Jesús við hana: „Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“ Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu.

Í dag minnist kirkjan: Heil. Teresu Benediktu af Krossi (Edith Stein). Hugleiðing dagsins: Jóhannes Tauler (um 1300-1361), dóminíkani og djúphyggjumaður 9. hugvekjan: „Kona, mikil er trú þín!“

„Miskunna þú mér, herra, sonur Davíðs!“ Mikill styrkur býr þessu ákalli að baki. Þetta er andvarp sem kemur frá ósegjanlegri dýpt. Það er eðlinu æðra og það er sjálfur Heilagur Andi sem ber þetta ákall fram (Rm 8. 26). En Jesús sagði við konuna: „Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt“ og „ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.“ Hvernig gat hann látið reyna meira á hana til að vísa henni frá?

Hvernig brást konan við þegar henni var vísað frá með þessum hætti? Hún vísaði sjálfri sér enn frekar frá niður í djúpið, enn dýpra en fólst í frávísun hans. Hún vísaði sjálfri sér frá að fullu og öllu. Hún gekk með enn fyllri hætti niður í djúpið. Jafnframt því sem hún lítillækkaði sig og auðmýkti glataði hún ekki trúnaðartrausti sínu og sagði: „Satt er það, herra, þó eta hundarnir mola þá, sem falla af borðum húsbænda þeirra.“

Æ! Að ykkur auðnaðist sjálfum að hverfa niður til þessa dýpsta sannleika – ekki með gáfulegum athugasemdum, háleitum orðum eða með skynrænum hætti, heldur til hins sanna djúps í ykkur sjálfum! Hvorki Guð eða neitt af hinu skapaða væri þess umkomið að troða ykkur undir fótum sínum eða tortíma ykkur ef þið eruð rótfastir í sannleikanum í auðmjúku trúnaðartrausti. Fólk gæti lastmælt ykkur, álasað og hallmælt, en þið mynduð standast slíkt af þolgæði. Og þá mynduð þið hverfa enn dýpra niður á við í knúðir áfram af fullkomnu trúnaðartrausti og ákafið ykkar færi sívaxandi. Allt byggist á þessu og þeim sem auðnast að nálgast þetta stig hafa náð árangri. Það er einungis þessi vegur sem beinist til Guðs hið innra og sá eini, án nokkurra hliðarstíga. En þeir eru sárafáir sem auðnast þetta af slíkri auðmýkt, þolgæði og af fullkomnu trúnaðartrausti, líkt og þessari konu auðnaðist að gera.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet