« „Þið voruð foreldrar okkar allra, en jafnframt morðingjar.“ [1]Ég elska Bolungarvík! – bæjarfélag lífsmenningar á Íslandi. »

08.09.06

  06:51:18, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 581 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 8. september 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Matteus 1. 18-25

Fæðing Jesú Krists varð með þessum atburðum: María, móðir hans, var föstnuð Jósef. En áður en þau komu saman, reyndist hún þunguð af heilögum anda. Jósef, festarmaður hennar, sem var grandvar, vildi ekki gjöra henni opinbera minnkun og hugðist skilja við hana í kyrrþey. Hann hafði ráðið þetta með sér, en þá vitraðist honum engill Drottins í draumi og sagði: "Jósef, sonur Davíðs, óttastu ekki að taka til þín Maríu, heitkonu þína. Barnið, sem hún gengur með, er af heilögum anda. Hún mun son ala, og hann skaltu láta heita Jesú, því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum þeirra." Allt varð þetta til þess, að rætast skyldu orð Drottins fyrir munn spámannsins: "Sjá, mærin mun þunguð verða og son ala. Nafn hans mun vera Immanúel," það þýðir: Guð með oss. Þegar Jósef vaknaði, gjörði hann eins og engill Drottins hafði boðið honum og tók konu sína til sín. Hann kenndi hennar ekki fyrr en hún hafði alið son. Og hann gaf honum nafnið JESÚS.
Í dag fagnar kirkjan: Fæðingu hinnar blessuðu Meyjar og Sonar hennar JESÚS. Hugleiðing dagsins: Heil. Bernard (1091-1153), sistersíani og kirkjufræðari.Fagnaðarsöngur um Maríu Mey: Hugvekja 2, 3: Fæðing hinnar nýju Evu

Fagna, Adam, faðir okkar, en þó einkum þú, Eva, móðir okkar. Þið voruð foreldrar okkar allra, en jafnframt morðingjar. Þið dæmduð okkar til dauða, jafnvel áður en við fæddumst, en látið nú huggast. Ein dætra ykkar – og þvílík dóttir! – mun hugga ykkur. Kom þú Eva, hlauptu til Maríu. Megi móðirin hlaupa til dótturinnar. Dóttirin svarar fyrir hönd móður sinnar og afmáir sekt hennar . . . Nú mun kona upphefja mannkynið.

Hvað sagði Adam á liðnum tímum? „Konan sem þú gafst mér til sambúðar, hún gaf mér af trénu, og ég át“ (1M 3. 12). Þetta voru illkvittnisleg orð sem juku fremur á sekt hans en að afmá hana. En hin guðdómlega Speki sigraðist á slíkri illsku. Eftir árangurslausa viðleitni til að fyrirgefa Adam með því að leggja fyrir hann spurningar öðlast Guð nú tækifæri til þess í ríkidæmi óþrjótandi gæsku sinnar. Hann lætur aðra konu verða að staðgengli fyrstu konunnar, komu fulla speki í stað þeirrar fávísu, konu sem er aumýktin holdi klædd í stað stærilætis þeirrar fyrri.

Í stað ávaxta trés dauðan réttir hún nú mannkyninu nú brauð lífsins. Hún lætur nú ljúfmeti eilífrar næringar koma í stað beisks eiturs. Adam, því skalt þú í stað ásökunarorðanna segja: „Drottinn, konan sem þú gafst mér bauð mér ávöxtinn af lífsins tré. Ég át af honum og bragð hans er „sætari en hunang, já hunangsseimur“ (Sl 19. 11). Það var með þessum ávexti sem þú færðir mér lífið að nýju“ Því var engillinn sendur til meyjarinnar. Þú bætir fyrir sekt okkar fyrstu foreldra, þú færir öllum afkomendum þeirra lífið að nýju.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet