« 1. Ímynd hins Alhelga Hjarta og boðskapurJesús og María Guðsmóðir (Panhagia Þeotokos: Alhelga Guðsmóðir) »

08.10.06

  09:41:01, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 798 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 8. október 2005

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mk 10. 2-16

Farísear komu og spurðu hann, hvort maður mætti skilja við konu sína. Þeir vildu freista hans. Hann svaraði þeim: „Hvað hefur Móse boðið yður?" 4 Þeir sögðu: „Móse leyfði að ,rita skilnaðarbréf og skilja við hana.'" 5 Jesús mælti þá til þeirra: „Vegna harðúðar hjartna yðar ritaði hann yður þetta boðorð, 6 en frá upphafi sköpunar ,gjörði Guð þau karl og konu. 7 Fyrir því skal maður yfirgefa föður sinn og móður og bindast konu sinni, 8 og þau tvö skulu verða einn maður.' Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður. 9 Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja." 10 Þegar lærisveinarnir voru komnir inn, spurðu þeir hann aftur um þetta. 11 En hann sagði við þá: „Sá sem skilur við konu sína og kvænist annarri, drýgir hór gegn henni. 12 Og ef kona skilur við mann sinn og giftist öðrum, drýgir hún hór."13 Menn færðu börn til hans, að hann snerti þau, en lærisveinarnir átöldu þá. 14 Þegar Jesús sá það, sárnaði honum, og hann mælti við þá: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki. 15 Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma." 16 Og hann tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.

Í dag heiðrar kirkjan : Heil. Jóhannes Leonardi (1541?-1609), stofnanda Bræðralags kristinna trúarkenninga. Hugleiðing dagsins: Benedikt páfi XVI. Hirðisbréfið Deus caritas est, § 9-11: „Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður.“

Í hugtakaheimi Biblíunnar er sambandi Guðs og Ísraels lýst með því að grípa til samlíkingar um heitorð og hjónaband. Skurðgoðadýrkun er þannig saurlifnaður og hórdómur . . . En ástarfuni [eros] Guðs á manninum er fullkomin elska [agape]. Þetta er ekki einungis sökum þess að að hún sé gefin af gjafmildi og án allrar áður áunninnar verðskuldunar, heldur einnig sökum þess að þetta er elska sem fyrirgefur . . . Í þessari sýn Biblíunnar sjáum við okkur annars vegar standa frammi fyrir strangri og háspekilegri ímynd af Guði: Guð er hin algilda og endanlega orsök allrar verundar. En þetta alheimslega lögmál sköpunarinnar – Logos, frumspekin – er samtímis elskandi með allri ástríðu sannrar elsku. Þannig er ástarfuninn upphafinn með háleitum hætti, en samtímis þessu gengur hann í gegnum hreinsun til að verða eitt með elskunni . . . Fyrsta eðliseigind trúar Biblíunnar felst í ímynd hennar af Guði. Sú næsta sem samofin er henni má finna í ímynd mannsins.

Frásögn Biblíunnar af sköpuninni greinir frá einsemd Adams, hins fyrsta manns og frá þeirri ákvörðun Guðs að gefa honum meðhjálp . . . Sú hugmynd er vissulega fyrir hendi að maðurinn sé með einhverjum hætti ófullkominn, knúinn áfram af eðlinu til að leita annars hluta síns sem gerir hann heilan mann, að það sé einungis í samfélagi við hið gagnstæða kyn sem hann verði „fullkominn.“ Frásögn Biblíunnar lýkur þannig með spásagnarorðum um Adam: „Þess vegna yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr við eiginkonu sína, svo að þau verði eitt hold“ (1M 2. 24).

Tvær hliðar þessa máls eru mikilvægar. Í fyrsta lagi er ástarfuninn með einhverjum hætti rótgróinn í eðli mannsins. Adam er sá sem leitar, sá sem „yfirgefur föður sinn og móður“ til að finna sér konu. Það er einungis þegar þau eru saman sem þau leiða í ljós hina fullkomnu mennsku og verða að „einu holdi.“ Hin hliðin er ekki síður mikilvæg. Út frá sjónarhorni sköpunarinnar beinir ástarfuninn manninum til móts við hjónabandið, til sambands sem er einstætt og endanlegt. Þannig og einungis þannig uppfyllir hann dýpsta tilgang sinn. Til samræmis við ímynd Guðs sem eineðlis er hjónabandið einkvæni. Það hjónaband sem grundvallast á útilokandi og áþreifanlegri elsku verður að ímynd samfélags Guðs og lýðs hans og gagnkvæmt. Aðferð Guðs við að elska verður að mælikvarða mennskrar elsku.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

    

No feedback yet