« Hinir þrír myrku dagar (7)Ritningarlesturinn 7. nóvember 2006 »

08.11.06

  08:47:47, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 503 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 8. nóvember 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 14. 25-33

Mikill fjöldi fólks var honum samferða. Hann sneri sér við og sagði við þá: „Ef einhver kemur til mín og hatar ekki föður sinn og móður, konu og börn, bræður og systur og enda sitt eigið líf, sá getur ekki verið lærisveinn minn. Hver sem ber ekki sinn kross og fylgir mér, getur ekki verið lærisveinn minn. Hver yðar sest ekki fyrst við, ef hann ætlar að reisa turn, og reiknar kostnaðinn, hvort hann eigi nóg til að ljúka verkinu? Ella má svo fara, að hann leggi undirstöðu, en fái ekki við lokið, og allir, sem það sjá, taki að spotta hann og segja: ,Þessi maður fór að byggja, en gat ekki lokið.' Eða hvaða konungur fer með hernaði gegn öðrum konungi og sest ekki fyrst við og ráðgast um, hvort honum sé fært að mæta með tíu þúsundum þeim er fer á móti honum með tuttugu þúsundir? Sé svo ekki, gerir hann menn á fund hans, meðan hann er enn langt undan, og spyr um friðarkosti. Þannig getur enginn yðar verið lærisveinn minn, nema hann segi skilið við allt sem hann á.“
Í dag heiðrar kirkjan: Blessaðan John Duns Scotus (1266-1308). Hugleiðing dagsins: Jóhannes af Krossi. Hin myrka nótt sálarinnar 1. 7, 3-4: Um nýliðana í bænalífinu sem forðast krossinn

Þeir sníða Guð að eigin þörfum fremur en að sníða sig að kröfum hans, en slíkt gengur þvert á boðskap Drottins í guðspjallinu þegar hann segir: „Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, mun finna það“ (Mt 16. 25).

Þessir hinir sömu verða einnig leiðir í skapi þegar þeim er skipað að gera eitthvað sem er þeim þvert um geð. Þar sem þeir sækjast ávallt eftir andlegri gleði og fullnægju, eru þeir allt of tregir í taumi og duglausir sökum þeirra þolrauna og erfiðleika sem vegur fullkomleikans leggur þeim á herðar. Þeir draga dám að þeim sem alist hafa upp við munaðarlíf og hopa af hólmi undan öllu því sem krefst baráttu og hneykslast á krossinum sem felur í sér allan andlegan ljúfleika. Eftir því sem eitthvað verður andlegra að inntaki verður óbeit þeirri meiri. Þar sem þeir krefjast þess að mega lifa eftir sínu eigin höfði á vegi hins andlega lífs og lúta sínum eigin vilja og hugarórum, verða þeir afar niðurdregnir og kenna til mikillar óbeitar að verða að ganga „hinn þrönga veg sem Kristur talar um að liggi til lífsins“ (Mt 7. 14).

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet