« Ritningarlesturinn 9. júlí 2006Ritningarlesturinn 7. júlí 2006 »

08.07.06

  06:00:50, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 513 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 8. júlí 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists laugardaginn 8. júlí er úr Matteusarguðspjalli 9. 14-17

14 Þá koma til hans lærisveinar Jóhannesar og segja: „Hví föstum vér og farísear, en þínir lærisveinar fasta ekki?“ 15 Jesús svaraði þeim: „Hvort geta brúðkaupsgestir verið hryggir, meðan brúðguminn er hjá þeim? En koma munu þeir dagar, er brúðguminn verður frá þeim tekinn. Þá munu þeir fasta. 16 Enginn lætur bót af óþæfðum dúk á gamalt fat, því þá rífur bótin út frá sér og verður af verri rifa. 17 Ekki láta menn heldur nýtt vín á gamla belgi, því þá springa belgirnir, og vínið fer niður, en belgirnir ónýtast. Menn láta nýtt vín á nýja belgi, og varðveitist þá hvort tveggja.“

Í dag minnist kirkjan: Blessaðs Gregors Grassi (d. 1900) og félaga,
píslarvotta í kínversku Boxarauppreisninni

Hugleiðing dagsins: Kaþólska trúfræðsluritið
772 til 773 og 796.

„Brúðguminn er hjá þeim“

Það er í kirkjunni að Kristur uppfyllir og opinberar sinn eigin leyndardóm sem markmið fyrirætlunar Guðs: „að safna öllu…undir eitt höfuð í Kristi.“ (Ef 1. 10). Heilagur Páll segir hjúskapareiningu Krists og kirkjunnar „mikinn leyndardóm“. (Ef 5. 32) Með því að hún er í einingu við Krist eins og brúðguma sinn verður hún leyndardómur. (Ef 5. 32; 3. 9-11; 5. 25-27) Þegar heilagur Páll íhugar þennan leyndardóm í henni kallar hann upp yfir sig: „Kristur meðal yðar, von dýrðarinnar.“ (Kol 1. 27) . . . María fer á undan okkur öllum í þeim heilagleika sem er leyndardómur kirkjunnar, sem sé, að vera brúður er hefur ekki „blett eða hrukku“. (Ef 5. 27). Þess vegna fer þáttur Maríu á undan þætti Péturs í kirkjunni. (Jóhannes Páll páfi II).

Eining Krists og kirkjunnar, höfuðs og lima eins líkama, felur einnig í sér að í persónulegum samskiptum er munur þeirra á milli. Þessu sjónarmiði er oft lýst í mynd brúðgumans og brúðarinnar. Þemað um Krist sem brúðguma kirkjunnar var undirbúið af spámönnunum og boðað af Jóhannesi skírara (Jh 3. 29). Drottinn talar sjálfur um sig sem „brúðgumann“ (Mk 2. 19). Postularnir lýsa allri kirkjunni og hverjum hinna trúuðu, limunum á líkama hans, sem brúði „föstnuð“ Kristi Drottni þannig að hún verði einn andi með honum (Mt 22. 1-14; 25. 1-13; Kor 6. 15-17; 2 Kor 11. 2). Kirkjan er hin flekklausa brúður hins flekklausa lambs (Opb 22. 17; Ef 1. 4; 5. 27). „Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana til þess að helga hana“ (Ef 5. 25-26).Hann hefur bundist henni í ævarandi sáttmála og annast hana stöðugt líkt og líkama sinn (Ef 5. 29). Og Drottinn segir sjálfur í guðspjallinu: „Þannig eru þau ekki framar tvö heldur einn maður“ (Mt 19. 6). Þau eru í raun tvær aðskildar persónur en engu að síður eitt í sameiningu hjúskaparins (Hl. Ágústínus).

© Bræðralag kristinna trúarkenninga.

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet