« Ritningarlesturinn 9. ágúst 2006Undirskriftasöfnun um frið! »

08.08.06

  07:09:51, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 680 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 8. ágúst 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mt 14. 22-36

Tafarlaust knúði hann lærisveina sína að fara í bátinn og halda á undan sér yfir um, meðan hann sendi fólkið brott. Og er hann hafði látið fólkið fara, gekk hann til fjalls að biðjast fyrir í einrúmi. Þegar kvöld var komið, var hann þar einn. En báturinn var þegar kominn langt frá landi og lá undir áföllum, því að vindur var á móti. En er langt var liðið nætur kom hann til þeirra, gangandi á vatninu. Þegar lærisveinarnir sáu hann ganga á vatninu, varð þeim bilt við. Þeir sögðu: „Þetta er vofa,“ og æptu af hræðslu. En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: „Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir.“ Pétur svaraði honum: „Ef það ert þú, herra, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu." Jesús svaraði: „Kom þú!“ Og Pétur sté úr bátnum og gekk á vatninu til hans. En sem hann sá rokið, varð hann hræddur og tók að sökkva. Þá kallaði hann: „Herra, bjarga þú mér!“ Jesús rétti þegar út höndina, tók í hann og sagði: „Þú trúlitli, hví efaðist þú?“ Þeir stigu í bátinn, og þá lægði vindinn. En þeir sem í bátnum voru, tilbáðu hann og sögðu: „Sannarlega ert þú sonur Guðs.“ Þegar þeir höfðu náð yfir um, komu þeir að landi við Genesaret. Fólkið á þeim stað þekkti hann og sendi boð um allt nágrennið, og menn færðu til hans alla þá, er sjúkir voru. Þeir báðu hann að mega rétt snerta fald klæða hans, og allir, sem snertu hann, urðu alheilir.

Í dag minnist kirkjan: Heil. Dóminiks. Hugleiðing dagsins: Heil. Bruno (?-1101), stofnandi Karþúsareglunnar. Bréf til Raoul le Verd, 4. 15-16: „Jesús gekk til fjalls að biðjast fyrir í einrúmi.“

Kæri bróðir. Ég dvel á í eyðimörk í Kalabríu fjærri öllum mannabústöðum. Ég er hér með bræðrum mínum í trúnni og sumir þeirra eru fræðimenn. Þeir dvelja í heilagri og sífelldri árvekni og bíða endurkomu Meistarans til að ljúka upp fyrir honum þegar hann knýr á dyrnar (Lk 12. 36). . .

Einungis þeir sem öðlast hafa reynslu af einveru og þögn eyðimerkurinnar vita hversu hollt þetta er og hversu slíkt glæðir guðdómlegan ljúfleika í þeim sem elska hann. Hér geta hinir þolgóðu öðlast eins mikla einbeitingu og þeir óska sér. Þeir geta dvalið hið innra með sér og lagt rækt við dyggðirnar af eljusemi og nært sig á hamingju ávaxta paradísar. Hér keppa menn eftir því að öðlast það auga sem særir Brúðgumann með tæru ásæi sínu og elsku sinni og í hreinleika þess geta þeir séð Guð. Hér gefast menn hvíldinni á vald sem er þrungin mætti og öðlast frið í kyrrlátu starfi. Hér endurgeldur Guð íþróttamönnum sínum þau laun sem þeir þrá sökum andlegrar baráttu sinnar: Frið sem heimurinn ber ekki skyn á og ljúfleika í Heilögum Anda. . .

Hvað stangast meira á við skynsemina, réttlætið, já sjálft eðlið, en að þrá hið skapaða meira en Skaparann, að keppa fremur eftir hinu fallvalta en hinum eilífu gæðum, því jarðneska fremur en því himneska?. . . Sannleikurinn gefur öllum þetta heilræði: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld“ (Mt 11. 28). Lýsir það ekki vanþakklæti og er það ekki tilgangslaus viðleitni að þrá eigur, áhyggjur, angist og ótta?. . . Snúðu baki við slíkum áhugamálum, bróðir minn, og hverf úr stormviðri þessa heims til kyrrðar og öryggis hafnarinnar.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet