« Jesús og María Guðsmóðir (Panhagia Þeotokos: Alhelga Guðsmóðir)„Sá sem á yður hlýðir, hlýðir á mig, og sá sem yður hafnar, hafnar mér.“ »

07.10.06

  06:59:01, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 678 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 7. október 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 10. 17-24

Nú komu þeir sjötíu og tveir aftur með fögnuði og sögðu: „Herra, jafnvel illir andar eru oss undirgefnir í þínu nafni." En hann mælti við þá: „Ég sá Satan hrapa af himni sem eldingu. Ég hef gefið yður vald að stíga á höggorma og sporðdreka og yfir öllu óvinarins veldi. Alls ekkert mun yður mein gjöra. Gleðjist samt ekki af því, að andarnir eru yður undirgefnir, gleðjist öllu heldur af hinu, að nöfn yðar eru skráð í himnunum." Á sömu stundu varð hann glaður í Heilögum Anda og sagði: „Ég vegsama þig, Faðir, herra himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum, en opinberað það smælingjum. Já, Faðir, svo var þér þóknanlegt. Allt er mér falið af Föður mínum, og enginn veit, hver Sonurinn er, nema Faðirinn, né hver Faðirinn er, nema Sonurinn og sá sem Sonurinn vill opinbera hann." Og hann sneri sér að lærisveinum sínum og sagði við þá einslega: „Sæl eru þau augu, sem sjá það sem þér sjáið. Því að ég segi yður: Margir spámenn og konungar vildu sjá það sem þér sjáið, en sáu það ekki, og heyra það sem þér heyrið, en heyrðu það ekki."

Í dag heiðrar kirkjan: Vora Frú af rósakransinum. Hugleiðing dagsins: Jóhannes Páll páfi II. Hirðisbréfið Dominum et vivificantem, § 20-21: „Ég vegsama þig, Faðir, . . . að þú hefur opinberað það smælingjum.“

„Ég vegsama þig, Faðir, herra himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum, en opinberað það smælingjum. Já, Faðir, svo var þér þóknanlegt.“ Jesús fagnar sökum faðernis Guðs: Hann gleðst vegna þess að honum hefur verið falið að opinbera þetta faðerni. Að lokum gleðst hann vegna þess honum hefur verið falið að gefa „smælingjunum“ hlutdeild í þessu guðdómlega faðerni. Og guðspjallamaðurinn lýsir þessu öllu saman sem „gleði í Heilögum Anda“ . . .

Það sem gerðist í hinni guðdómlegu opinberun í Jórdan (Lk 3. 22) kom svo að segja „að utan,“ úr hæðum, en núna kemur það „að innan,“ það er að segja úr verundardjúpi Jesú. Hér er um enn aðra opinberun Föðurins og Sonarins í einingu Heilags Anda. Jesús talar einungis um Guð sem Föður og um hlutverk sitt sem Sonarins, en víkur ekki beinum orðum að Andanum sem er ELSKA og sameinar þannig Föðurinn og Soninn. En það sem hann segir um Föðurinn og sig sjálfan sem Soninn streymir fram úr þessari fyllingu Andans sem lifir í honum, sem gagntekur hjarta hans og skyggir á hans eigið „Ég,“ er innblástur hans og lífskraftur athafna hans í djúpinu. Þaðan kemur þessi gleði í Heilögum Anda. Sameining Krists og Heilags Anda, sameining sem hann er fullkomlega meðvitaður um, er tjáð með þessari gleði sem með vissum hætti opinberar hina huldu uppsprettu. Þannig er um sérstaka opinberun og gleði að ræða sem setur mark sitt á Mannssoninn, Krist-Messías, en mennskt eðli hans tilheyrir persónu Guðsonarins sem er með eðlislægum hætti eitt með Heilögum Anda í Guðdóminum.

Í hinni háleitu játningu á Guði sem Föður opinberar Jesús frá Nasaret sjálfan sig, hið guðdómlega „ÉG“ sitt vegna þess að hann er Sonurinn sem er „sameðlis“ Föðurnum og því veit „enginn, hver Sonurinn er, nema Faðirinn“ eða hver Faðirinn er nema Sonurinn, Sonurinn sem varð „maður sökum okkar og endurlausnar okkar“ (Túarjátningin) í krafti Heilags Anda og var fæddur að Mey, en nafn hennar er María.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

1 athugasemd

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Nú á degi Frúar rósakransins er við hæfi að biðja:

Heil sért þú María, full náðar,
Drottinn er með þér,
blessuð sért þú á meðal kvenna
og blessaður sé ávöxtur lífs þíns, Jesús.
Heilaga María Guðsmóðir,
bið þú fyrir oss syndugum mönnum
og úthell náð loga elsku þinnar
yfir allt mannkynið,
nú og á dauðastundu vorri.

Samkvæmt fyrirheiti Guðsmóðurinnar leysa þrjár slíkar Heil sért þú María eina sál úr þjáningum hreinsunareldsins. Heill rósakrans þýðir þá 16 þjáningarsálir. Alls ekki svo lítið endurgjald fyrir hálfrar stundar bæn. Á einu árið eru þetta þá 5840 sálir!

Á meðal mannsævi eru þetta því 46.700 sálir. Góð verður heimkoma slíkrar sálar til síns himneska föðurlands (Fl 3. 20).

07.10.06 @ 16:38