« Ritningarlesturinn 8. nóvember 2006Afstaða Marteins Lúters til Maríu Guðsmóður »

07.11.06

  08:31:03, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 539 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 7. nóvember 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 14. 15-24

Þegar einn þeirra, er að borði sátu, heyrði þetta, sagði hann við Jesú: „Sæll er sá, sem neytir brauðs í Guðs ríki.“ Jesús sagði við hann: „Maður nokkur gjörði mikla kvöldmáltíð og bauð mörgum. Er stundin kom, að veislan skyldi vera, sendi hann þjón sinn að segja þeim, er boðnir voru: ,Komið, nú er allt tilbúið.' En þeir tóku allir að afsaka sig einum munni. Hinn fyrsti sagði við hann: ,Ég hef keypt akur og verð að fara og líta á hann. Ég bið þig, haf mig afsakaðan.' Annar sagði: ,Ég hef keypt fimm tvenndir akneyta og er á förum að reyna þau. Ég bið þig, haf mig afsakaðan.' Og enn annar sagði: ,Konu hef ég eignast, ekki get ég komið.' Þjónninn kom og tjáði herra sínum þetta. Þá reiddist húsbóndinn og sagði við þjón sinn: ,Far þú fljótt út á stræti og götur borgarinnar, og leið inn hingað fátæka, örkumla, blinda og halta.' Og þjónninn sagði: ,Herra, það er gjört, sem þú bauðst, og enn er rúm.' Þá sagði húsbóndinn við þjóninn: ,Far þú út um brautir og gerði og þrýstu þeim að koma inn, svo að hús mitt fyllist. Því ég segi yður, að enginn þeirra manna, er boðnir voru, mun smakka kvöldmáltíð mína.”

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Didacus (1400-1463). Hugleiðing dagsins: Heil. Kýrillos frá Jerúsalem (316-386), biskup og kirkjufræðari. Trúfræðslan, Um skírnina 2, 2-3: Hlýðið nú á, ó börn réttlætisins

Hlýðið nú á, ó börn réttlætisins, hlýðið á hvatningarorð Jóhannesar þegar hann segir: Gerið beinar brautir Drottins. Fjarlægið allar hindranir og hrösunarhellur svo að þið getið gengið beina leið til hins eilífa lífs. Gerið ker sálarinnar reiðubúið, hreinsið það af vantrú til að meðtaka Heilagan Anda.

Hefjist nú þegar handa við að lauga klæði ykkar með iðruninni, að þau verði hrein þegar þið gangið inn í brúðarherbergið. Brúðguminn býður öllum án manngreinarálits vegna þess að náð hans er takmarkalaus. Og hvell raust þjónsins kvaddi þá alla saman. En að þessu loknu aðskildi þessi sami Brúðgumi þá sem komu til brúðkaupsins. Ó, megi enginn þeirra sem á nafn sitt innritað í bók lífsins heyra orðin: Vinur, hvernig komst þú hingað inn án brúðkaupsklæðanna? Megið þið öll fremur hlýða á orðin: Vel gjört góði og trúfasti þjónn. Þú varst trúfastur yfir hinu litla, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn til fagnaðar Herra þíns.

Núna standið fyrir utan dyrnar, en megi Guð gefa að þið getið öll sagt: Konungurinn hefur leitt mig inn í brúðarherbergið. Megi sál mín fagna í Drottni vegna þess að hann hefur íklætt mig klæðum hjálpræðisins og kyrtli gleðinnar.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet