« Útkallið – ekkaleo (koina Nýja testamentisins)Ritningarlesturinn 5. september 2006 »

06.09.06

  06:23:14, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 608 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 6. september 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 4. 38-44

Úr samkundunni fór hann í hús Símonar. En tengdamóðir Símonar var altekin sótthita, og báðu þeir hann að hjálpa henni. Hann gekk að, laut yfir hana og hastaði á sótthitann, og fór hann úr henni. En hún reis jafnskjótt á fætur og gekk þeim fyrir beina. Um sólsetur komu allir þeir, er höfðu á sínum vegum sjúklinga haldna ýmsum sjúkdómum, og færðu þá til hans. En hann lagði hendur yfir hvern þeirra og læknaði þá. Þá fóru og illir andar út af mörgum og æptu: „Þú ert sonur Guðs.“ En hann hastaði á þá og bannaði þeim að tala, því að þeir vissu, að hann var Kristur. Þegar dagur rann, gekk hann burt á óbyggðan stað, en mannfjöldinn leitaði hans. Þeir fundu hann og vildu aftra því, að hann færi frá þeim. En hann sagði við þá: „Mér ber og að flytja hinum borgunum fagnaðarerindið um Guðs ríki, því að til þess var ég sendur.“ Og hann prédikaði í samkundunum í Júdeu.

Í dag heiðrar kirkjan: Bl. Claudio Granzotto (1900-1947), myndhöggvara. Hugleiðing dagsins: Heil. Bernard (1091-1153), sístersíanamunkur og kirkjufræðari. Predikun 84 um Ljóðaljóðin, 3: Mannfjöldinn leitaði hans: En hann sagði við þá: „Mér ber og að flytja hinum borgunum fagnaðarerindið um Guðs ríki“

Megi sérhver sál sem leitar Guðs gera sér ljóst að hann hefur farið á undan henni, að það var hann sem var fyrri til að leita hana uppi . . . „Í hvílu minni um nótt leitaði ég hans sem sál mín elskar, ég leitaði hans, en fann hann ekki“ (Ll 3. 1). Sálin leitar Orðsins, en Orðið leitaði hana fyrr uppi . . . Ef sálir okkar yrðu skyldar einar eftir væru þær líkt og andvarp sem bærist á brott og myndi aldrei snúa til baka. Hlustið á harmagrát og andvörp þeirrar sálar sem reikar í myrkrinu og hefur misst sjónar af veginum: „Ég villtist sem týndur sauður, leita þú þjóns þíns“ (Sl 119. 176). Ó þú maður, þú þráir að snúa til baka. En ef þetta grundvallast allt á viljaásetningi þínum, hvers vegna biður þú þá um hjálp? . . . Augljóst er að sál okkar þráir að snúa til baka, en er slíkt um megn. Hún er ekkert annað en eitt andvarp sem berst á brott með vindinum og í eigin mætti mun hún aldrei snúa til baka . . . En hvaðan kemur þá þessi viljaásetningur hennar? Hann má rekja til þeirrar staðreyndar, að Orðið hefur þegar vitjað hennar og leitað uppi. Leitin var þannig ekki ómarkviss vegna þess að hún glæddi viljaásetninginn, en án hans er endurkoman með öllu útilokuð.

En það hrekkur ekki til að leita hana einungis einu sinni uppi. Sálin er of vanmegna og leiðin til baka henni því of torsótt . . . Heilagur Páll sagði: „Að vilja veitist mér auðvelt, en ekki að framkvæma“ (Rm 7. 18). Um hvað biður sálin þá í sálminum sem ég vitnaði til? Ekkert annað en að hún verið leituð uppi vegna þess að sjálf myndi hún ekki leita og hún myndi ekki hefja leitina, nema sökum þess að hún var fyrst leituð uppi.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html
 

No feedback yet