« „Sá sem á yður hlýðir, hlýðir á mig, og sá sem yður hafnar, hafnar mér.“Hið konunglega prestafélag hins Nýja sáttmála í upphafi nýrra aldarskila »

06.10.06

  06:40:37, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 414 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 6. október 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 10. 13-16

Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gjörst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gjörðust í ykkur, hefðu þeir löngu iðrast og setið í sekk og ösku. En Týrus og Sídon mun bærilegra í dóminum en ykkur. Og þú Kapernaum! Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. Sá sem á yður hlýðir, hlýðir á mig, og sá sem yður hafnar, hafnar mér. En sá sem hafnar mér, hafnar þeim er sendi mig."

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Brunó (1030-1101), stuðningsmann páfadóms á tímum upplausnar. Hugleiðing dagsins: Jóhannes Páll páfi II. Hirðisbréfið Redemptoris missio § 39: „Sá sem á yður hlýðir, hlýðir á mig, og sá sem yður hafnar, hafnar mér.“

Kirkjan verður að vera trúföst Krists, en hún er líkami hans sem heldur boðunarstarfi hans áfram. Hún verður óhjákvæmilega að „ganga sama veginn og Kristur, það er að segja veg örbirgðar, hlýðni, þjónustu og sjálfsfórnar, jafnvel allt til dauða þess sem hann kom frá sem sigurvegari eftir upprisuna“ (Annað Vatíkanþingið, Ad Gentes 5). Kirkjan er þannig skuldbundin að halda boðunarstarfi sínu áfram í heiminum og ná til fólks. Og hér er hún í fullum rétti, rétti sem Guð fól henni á hendur til að fullkomna ráðsályktun hans. Trúarlegt frelsi sem enn er á stundum takmarkað og markaður þröngur bás verður tákn og trygging alls frelsis sem tryggir velferð einstaklinga og hópa. Þess ber að vænta að alls staðar muni fólki verða tryggt áþreifanlegt trúarfrelsi . . . Þetta er spurning sem snýst um sjálfsögð réttindi sérhverrar manneskju.

Fyrir sitt leyti ávarpar kirkjan fólk af fullri virðingu sökum frelsis þess. Boðun hennar hneppir frelsið ekki í fjötra, heldur glæðir það miklu fremur. Kirkjan leggur fram það sem hún hefur að segja en þvingar engan. Hún virðir einstaklinga og menningarheildir og heiðrar helgidóm samviskunnar. Við þá sem af ýmsum ástæðum standa gegn trúboðsstarfinu endurtekur kirkjan: Opnið dyrnar fyrir Kristi!

© Bræðralag kristinna trúarkenninga
VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet