« Ritningarlesturinn 7. júlí 2006Ritningarlesturinn 5. júlí 2006 »

06.07.06

  06:45:53, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 549 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 6. júlí 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists fimmtudaginn 6. júlí er úr Matteusarguðspjalli 9. 1-8

1 Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. 2 Þar færa menn honum lama mann, sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra, sagði hann við lama manninn: "Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar." 3 Nokkrir fræðimenn sögðu þá með sjálfum sér: "Hann guðlastar!" 4 En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: "Hví hugsið þér illt í hjörtum yðar? 5 Hvort er auðveldara að segja: ,Syndir þínar eru fyrirgefnar' eða: ,Statt upp og gakk'? 6 En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér" - og nú talar hann við lama manninn: "Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín!" Og hann stóð upp og fór heim til sín. 8 En fólkið, sem horfði á þetta, varð ótta slegið og lofaði Guð, sem gefið hafði mönnum slíkt vald.

I dag minnist kirkjan: Hl. Mariu Goretti (1890-1902), píslarvotts

Hugleiðing dagsins: Hl. Jóhannes Chrysostomos (um 345-407), biskup í Antíokkíu og síðar Miklagarði, kirkjufræðari.
Hugleiðing um Matteusarguðspjall, 29, 2

„Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“

Gyðingar boða að það sé einungis Guð sem fyrirgefi syndir. En jafnvel áður en Jesús fyrirgaf syndir opinberaði hann leyndardóma mannshjartans. Þannig sýndi hann fram á að hann byggi yfir því valdi sem tilheyrir Guði einum, því að skrifað stendur: Því að þú einn þekkir hjörtu mannanna (2 Krón 6. 30). Þannig opinberaði Jesús Guðdómstign sína og að hann stæði jafnfætis Föðurnum með því að opinbera fræðimönnunum hvað leyndist í hjörtum þeirra með því að fletta ofan af hugsunum sem þeir þorðu ekki að tjá opinskátt sökum ótta við mannfjöldann. Og þetta gerði hann af mikilli blíðu.

Lamaði maðurinn hefði getað greint Kristi frá vonbrigðum sínum með því að segja: „Látum svo vera! Þú ert kominn til að græða annars konar sjúkdóm, aðra illsku, syndina. En hvaða sönnum fæ ég fyrir því að syndir mínar hafa verið fyrirgefnar?“ En hann lætur allt slíkt kyrrt liggja. Í stað þess felur hann sig þeim á vald sem býr yfir mætti til að lækna hann.

Kristur sagði við fræðimennina: „Hvort er auðveldara að segja: ,Syndir þínar eru fyrirgefnar' eða: ,Statt upp og gakk“? Að opinbera vald sitt yfir bækluðum líkama eða að fyrirgefa sálinni syndir hennar? Það er augljóslega auðveldara að lækna líkamleg mein vegna þess að syndafyrirgefningin er eins æðri slíkri lækningu og sálin líkamanum. En þar sem ein af þessum athöfnum er sýnileg, en hin ekki, þá ætla ég nú að gera það sem er sýnilegt og óæðra sem sönnun þess sem er æðra og ósýnilegra. Á þessu andartaki opinberar Jesús að hann er sá sem „ber synd heimsins“ (Jh 1. 29).

© Bræðralag kristinna trúarkenninga.

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet