« Undirskriftasöfnun um frið!Ritningarlesturinn 5. ágúst 2006 »

06.08.06

  08:24:32, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 506 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 6. ágúst 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mk 9. 2-10

Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes og fer með þá upp á hátt fjall, að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, og klæði hans urðu fannhvít og skínandi, og fær enginn bleikir á jörðu svo hvítt gjört. Og þeim birtist Elía ásamt Móse, og voru þeir á tali við Jesú. Þá tekur Pétur til máls og segir við Jesú: "Rabbí, gott er, að vér erum hér. Gjörum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina." Hann vissi ekki, hvað hann átti að segja, enda urðu þeir mjög skelfdir. Þá kom ský og skyggði yfir þá, og rödd kom úr skýinu: "Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!" Og snögglega, þegar þeir litu í kring, sáu þeir engan framar hjá sér nema Jesú einan. Á leiðinni ofan fjallið bannaði hann þeim að segja nokkrum frá því, er þeir höfðu séð, fyrr en Mannssonurinn væri risinn upp frá dauðum. Þeir festu orðin í minni og ræddu um, hvað væri að rísa upp frá dauðum.
Í dag minnist kirkjan: Ummyndunarinnar á fjallinu. Hugleiðing: Jóhannes Páll páfi II, Vita consecrata, 75 : Að íhuga ásjónu Drottins og draga lærdóm af ummyndun Krists

Hann kallar sífellt á nýja lærisveina til sín, bæði karla og konur, til þess að úthella hinni guðdómlegu agape yfir þau í Andanum (sjá Rm 5. 5), með hvaða hætti hann elskar og hvetur okkur til að þjóna öðrum í auðmýkt náðargjafa sinna, án allrar sérdrægni. Pétur sem varð gagntekinn af ljósi ummyndunarinnar hrópaði: „Herra, gott er, að vér erum hér“ (Mt 17. 4). En honum er boðið að hverfa til hliðarstíga þessa heimsins til að þjóna konungsríki Guðs.

„Komdu niður, Pétur! Þú vildir öðlast hvíld á fjallinu. Komdu niður! Predikaðu Orð Guðs. Vertu ákveðinn bæði þegar það er tímabært og þegar það er ekki svo. Áminntu, mæltu hvatningarorð og huggun með því að grípa til allra þinna hæfileika til að kenna. Vertu ötull, legðu þig allan fram, jafnvel þó að það feli í sér þjáningar og harmkvæli. Þannig getur þú öðlast það í kærleika í ljóma og fegurð góðverka sem táknað er með ljósklæðum Drottins.“

Sú staðreynd að einhver mæni á ásjónu Drottins dregur ekki úr skuldbindingum hans gagnvart mannkyninu. Þvert á móti styrkir slíkt þessa skuldbindingu þannig að hún geti haft áhrif á mannkynssöguna til að forða henni undan öllu því sem afskræmir hana.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet