« Hið konunglega prestafélag hins Nýja sáttmála í upphafi nýrra aldarskilaAf hverju koma stríð? II »

05.10.06

  06:42:15, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 694 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 5. október 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk10. 1-2

Eftir þetta kvaddi Drottinn til aðra, sjötíu og tvo að tölu, og sendi þá á undan sér, tvo og tvo, í hverja þá borg og stað, sem hann ætlaði sjálfur að koma til. Og hann sagði við þá: „Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir. Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar. Farið! Ég sendi yður eins og lömb meðal úlfa. Hafið ekki pyngju, ekki mal né skó, og heilsið engum á leiðinni. Hvar sem þér komið í hús, þá segið fyrst: ,Friður sé með þessu húsi.' Og sé þar friðar sonur, mun friður yðar hvíla yfir honum, ella hverfa aftur til yðar. Verið um kyrrt í sama húsi, neytið þess, sem þar er fram boðið í mat og drykk. Verður er verkamaðurinn launa sinna. Eigi skuluð þér flytjast hús úr húsi. Og hvar sem þér komið í borg og tekið er við yður, þá neytið þess, sem fyrir yður er sett. Læknið þá, sem þar eru sjúkir, og segið þeim: ,Guðs ríki er komið í nánd við yður.' En hvar sem þér komið í borg og eigi er við yður tekið, þá farið út á strætin og segið: , Jafnvel það dust, sem loðir við fætur vora úr borg yðar, þurrkum vér af oss handa yður. Vitið samt þetta, að Guðs ríki er komið í nánd.' Ég segi yður: Bærilegra mun Sódómu á þeim degi en þeirri borg.“

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Maríu Faustinu (1905-1938), boðbera miskunnar hins Alhelga Hjarta Jesú. Hugleiðing dagsins: 2. Vatíkanþingið. Um boðunarstarf leikamanna (Apostolicam Actuositatem, § 2): „Hann sendi þá tólf (Lk 9. 2) og kvaddi til aðra, sjötíu og tvo að tölu“

Kirkjan var stofnuð í þeim tilgangi að breiða út konungsríki Krists um alla jörðina til dýrðar Guði Föður til að gera fólki kleift að öðlast hlutdeild í hjálpræðisverki hans, þannig að allur heimurinn mætti njóta samfélags við Krist. Allt starf hins leyndardómsfulla líkama sem beinist að þessu takmarki felur í sér boðunarstarf sem kirkjan innir af hendi með margvíslegum hætti með öllum limum sínum. Hin kristna köllun er í eðli sínu köllun til boðunarstarfs. Engin hluti lifandi líkama er óvirkur, heldur tekur þátt í starfsemi hans sem og lífi þessa sama líkama. Hið sama gildir einnig um líkama Krists sem er kirkjan, allur líkaminn „þar sem sérhver taug innir sína þjónustu af hendi, allt eftir þeim krafti sem hann [Kristur] úthlutar hverri þeirra. Þannig lætur hann líkamann vaxa“ (Ef 4. 16). Eining líffæranna í þessum líkama og gerð limanna er svo samvirk, að sá limanna sem leggur ekki sitt fram við að uppbyggja kirkjuna er hvorki nytsamur kirkjunni fremur en sjálfum sér.

Í kirkjunni er um margar þjónustur að ræða en boðunin ein og söm. Kristur lagði postulunum og eftirkomendum þeirra þá skyldu á herðar að uppfræða, helga og stjórna í sínu nafni og mætti. En leikmennirnir eiga jafnframt hlutdeild í konunglegu embætti Krists sem prests og spámanns og þar með hlutdeild í boðun alls lýðs Guðs í kirkjunni og heiminum. Þeir gegna postullegu embætti sínu með þátttöku sinni í að bera öllum mönnum fagnaðarerindið og vinna að helgun þeirra með því að láta anda fagnaðarerindisins streyma inn í og fullkomna hina tímanlegu tilhögun. Með þessum hætti ber tímanlegt starf þeirra Kristi vitni og stuðlar að endurlausn mannkynsins. Þar sem leikmennirnir lifa í heiminum og því sem hans er til samræmis við aðstæður sínar, þá hefur Guð kallað þá til að gegna postullegu starfi sínu í heiminum líkt og súrdeig sem angar af anda Krists.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet