« Hinir þrír myrku dagar (6)Hinir þrír myrku dagar (5) »

05.11.06

  08:50:26, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 584 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 5. nóvember 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists sunnudaginn 5. nóvember er úr Markús 12. 28-34

Þá kom til hans fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann, að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: „Hvert er æðst allra boðorða?“ Jesús svaraði: „Æðst er þetta: ,Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.' Annað er þetta: ,Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.' Ekkert boðorð annað er þessum meira.“ Fræðimaðurinn sagði þá við hann: „Rétt er það, meistari, satt sagðir þú, að einn er hann og enginn er annar en hann. Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira.“ Jesús sá, að hann svaraði viturlega, og sagði við hann: „Þú ert ekki fjarri Guðs ríki.“ Og enginn þorði framar að spyrja hann.

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Sylvia (d. 594), móðir Gregors páfa hins mikla.  Hugleiðing dagsins: Heil. Frans frá Sales (1567-1622), biskup frá Genf og kirkjufræðari. Ritgerð um elskuna, 10, 11: Elska guðs glæðir elsku á náunganum

Þar sem Guð skapaði manninn eftir sinni mynd og líkan sér (1M 1. 26), þá áskapaði hann honum einnig elsku sem er í mynd og líkingu þeirrar elsku sem er hluti Guðdóms hans. Hann sagi: „Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu. Ekkert boðorð annað er þessum meira.“ Hið síðara er þetta: „Þú skalt elska náungann eins og sjálfan sig,“ Hvers vegna elskum við Guð? „Ástæðan sem býr því að baki að við elskum Guð,“ segir heil. Berndard, „er Guð sjálfur,“ rétt eins og hann hefði sagt: Við elskum Guð vegna þess að hann er hin háleita og æðsta gæska. Og hvers vegna elskum við okkur sjálf í kærleika? Vissulega sökum þess að við erum í mynd og líkan Guðs og þar sem allir menn eru gæddir þessari sömu göfgi, þá elskum við þá jafnframt eins og okkur sjálf, það er að segja sem heilaga og lifandi ímynd Guðdómsins.

Það er af þessum sökum sem honum reynist ekki erfitt að nefna sjálfan sig Föður okkur og nefna okkur börn sín. Það er af þessum sökum sem við erum þess umkomin að sameinast Guðdómsverund hans þegar háleit gæska hans og sæla glæðist í okkur. Það er af þessum sökum sem við meðtökum náð hans, að andar okkar lifa í samfélagi við Heilagan Anda hans og öðlast með vissum hætti hluteild í guðlegu eðli hans (2Pt 1. 4) . . . Og því er það sá sami kærleiki sem stendur elsku Guðs að baki sem glæðir elsku okkar á náunga okkar. Og rétt eins og Jakob sá stiga standa á jörðu og efri enda hans ná til himins og englar Guðs fóru upp og ofan stigann (1M 28. 12), þá vitum við að einn og sami kærleikurinn felur bæði í sér elsku Guðs og elsku á náunga okkar.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

1 athugasemd

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég birti hér allan textann úr tilvitnuninni úr Öðru Pétursbréfinu:

Með því hefur hann veitt oss hin dýrmætu og háleitu fyrirheit, til þess að þér fyrir þau skylduð verða hluttakendur í guðlegu eðli, er þér hafið komist undan spillingunni í heiminum, sem girndin veldur.

05.11.06 @ 08:52