« Ritningarlesturinn 6. júlí 2006Ritningarlesturinn 4. júlí 2006 »

05.07.06

  06:16:30, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 644 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 5. júlí 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists miðvikudaginn 5. júní er úr Matteusarguðspjalli 8. 28-34

28 Þegar hann kom yfir um, í byggð Gadarena, komu á móti honum frá gröfunum tveir menn haldnir illum öndum, svo skæðir, að enginn mátti þann veg fara. 29 Þeir æpa: „Hvað vilt þú okkur, sonur Guðs? Komstu hingað að kvelja okkur fyrir tímann?“ 30 En langt frá þeim var mikil svínahjörð á beit. 31 Illu andarnir báðu hann og sögðu: „Ef þú rekur okkur út, sendu okkur þá í svínahjörðina.“ 32 Hann sagði: „Farið!" Út fóru þeir og í svínin, og öll hjörðin ruddist fram af hamrinum í vatnið og týndist þar. 33 En hirðarnir flýðu, komu til borgarinnar og sögðu öll tíðindin, líka frá mönnunum, sem haldnir voru illum öndum. 34 Og allir borgarmenn fóru út til móts við Jesú, og þegar þeir sáu hann, báðu þeir hann að fara burt úr héruðum þeirra.

Í dag minnist kirkjan: Hl. Antony Zaccaria (1502-1539), reglustofnanda (Barnabíta).

Hugleiðing dagsins: Annað Vatíkanþingið
Reglugerð um kirkjuna í heimi nútímans (Gaudium et Spes), 9-10

Þeir báðu hann að fara burt úr héruðum þeirra

Heimur nútímans birtist bæði í veikleika sínum og styrk, hæfan til að hrinda göfugustu verkum í framkvæmd eða að drýgja illvirki. Hann getur valið að ganga veg frelsis eða ánauðar, til framfara eða hnignunar, til bræðralags eða haturs. Auk þess er maðurinn byrjaður að gera sér ábyrgð sína ljósa til að stjórna þeim öflum sem hann hefur leyst úr læðingi og geta annað hvort hneppt hann í fjötra eða þjónað honum.

Sannleikurinn er sá að það ójafnvægi sem þjakar heim nútímans er samofið því ójafnvægi sem hefur skotið rótum í mannshjartanu. Í sjálfum manninum togast margvísleg öfl á við hvert annað. Annars vegar skynjar hann takmörk sín sem sköpuð vera með margvíslegum hætti. Hins vegar finnst honum sér allar leiðir standa opnar í þrám sínum og köllun til æðra lífs. Dreginn áfram af fjölþættum áhugamálum er hann sífellt knúinn til að kjósa sumt og hafna öðru. Sem syndug og vanmegna vera gerir hann einmitt það sem hann vill ekki og það sem hann hatar (sjá Rm 7. 14). Þannig er hann þjakaður af upplausnarástandi hið innra og til þessa má rekja svo margt sem misferst í samfélaginu.

Með hliðsjón af framförum heims nútímans vex fjöldi þeirra sem varpa fram spurningum um grundvallaratriði eða skilgreina slíkt af meiri skarpskyggni: Hvað er maðurinn? Hvaða þýðing felst í sorg, illsku og dauða sem heldur áfram að vera til þrátt fyrir allar þessar framfarir? Hvaða þýðingu hafa þessir sigrar sem áunnist hafa með svo dýrkeyptum hætti? Hvað tekur við að loknu þessu jarðneska lífi?

Kirkjan trúir því staðfastlega að Kristur sem er dáinn og upprisinn fyrir alla (sjá 2 Kor 5. 15) megni í krafti Anda síns að miðla manninum ljósi og styrk til að uppfylla háleita köllun sína þar sem ekkert annað nafn er mönnum gefið til að frelsast (sjá P 4. 12). Hún telur jafnframt að í gæskuríkum Drottni hennar og Meistara megi finna lykil, kjarna og takmark mannsins, rétt eins og mannkynssögunnar. Kirkjan fullyrðir jafnframt að í Kristi sem er hinn sami í gær og í dag og að eilífu (sjá Heb 13. 8) sé þann óumbreitanlega veruleika að finna sem búi öllum fallvaltleika að baki.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga.

SJÁ VEFRIT KARMELS
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

1 athugasemd

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Það er þörf á slíkum pistlum – allt of margir gera sér litla grein fyrir þýðingu Krists í veröldinni og fyrir þeirra eigin tilveru. Sæmundur G. Jóhannesson hét reyndar maður sem hafði einstakt lag á að skrifa um þau efni nógu skýrt mál og ágengt til þess að enginn gæti velkzt í vafa um að hann hafði mikið erindi að flytja: einstök tíðindi af einstökum manni – Guði og manni í senn. Ég mun síðar segja nánar frá ritum Sæmundar þessa, sem tilheyrði, vel að merkja, Sjónarhæðarsöfnuði á Akureyri. Sá söfnuður er lítill, en sterkur í trúnni.

05.07.06 @ 22:51