« Ritningarlesturinn 6. ágúst 2006Ritningarlesturinn 4. ágúst 2006 »

05.08.06

  06:27:16, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 594 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 5. ágúst 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mt 14. 1-12

Um þessar mundir spyr Heródes fjórðungsstjóri tíðindin af Jesú. Og hann segir við sveina sína: „Þetta er Jóhannes skírari, hann er risinn frá dauðum, þess vegna eru kraftarnir að verki í honum.“ En Heródes hafði látið taka Jóhannes höndum, fjötra hann og varpa í fangelsi vegna Heródíasar, konu Filippusar bróður síns, því Jóhannes hafði sagt við hann: „Þú mátt ekki eiga hana.“ Heródes vildi deyða hann, en óttaðist lýðinn, þar eð menn töldu hann vera spámann. En á afmælisdegi Heródesar dansaði dóttir Heródíasar dans frammi fyrir gestunum og hreif Heródes svo, að hann sór þess eið að veita henni hvað sem hún bæði um. Að undirlagi móður sinnar segir hún: „Gef mér hér á fati höfuð Jóhannesar skírara.“ Konungur varð hryggur við, en vegna eiðsins og gesta sinna bauð hann að veita henni þetta. 1 Hann sendi í fangelsið og lét hálshöggva Jóhannes þar. Höfuð hans var borið inn á fati og fengið stúlkunni, en hún færði móður sinni. Lærisveinar hans komu, tóku líkið og greftruðu, fóru síðan og sögðu Jesú.
Í dag minnst kirkjan: Vígslu Basilíku Heil. Maríu af snjónum – Hugleiðing dagsins: Jóhannes Páll páfi II, Hirðisbréfið Tertio Millenio adveniente, 37: Jóhannes skírari: Píslarvottur sannleikans

Kirkjan á fyrstu öld spratt upp úr blóði píslarvottanna: „Sanguis martyrum–semen christianorum“ [21]. Hin sögulega umgjörð hefði aldrei leitt til þróunar kirkjunnar eins og átti sér stað á fyrstu öld, ef sæði píslarvottanna og hin heilaga arfleifð helgunarinnar hefðu ekki sett mark sitt á fyrstu kynslóð kristinna manna. Í lok annarrar aldar varð kirkjan að nýju að píslarvottakirkju. Ofsóknir á hendur hinum trúuðu – prestum, reglufólki og leikmönnum – hefur leitt til píslarvættis víða um heim. Vitnisburðurinn um Krist með því að úthella blóði sínu hefur orðið að sameiginlegri arfleifð kaþólskra, orþodoxa, anglíkana og mótmælenda, eins og Páll páfi VI hefur bent á. . .

Vitnisburðurinn má ekki falla í gleymsku. . .

Í samtíð okkar hafa píslarvottarnir enn að nýju snúið til baka. Fjölmargir þeirra bera engin nöfn, bókstaflega hinir „nafnlausu hermenn“ Guðs. Varðveita ber minninguna um þá eftir fremsta megni í kirkjunni. . . Staðarkirkjurnar ættu að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að varðveita minningu þeirra sem liðið hafa píslarvætti og safna saman heimildum um þá. Þessi viðleitni hlýtur að verða samkirkjuleg í eðli sínu og tjá samkirkjustefnuna. Ef til vill felur samkirkjustefna hinna heilögu og píslarvottanna í sér mestan sannfæringarkraft. Communio sanctorum vegur þyngra en það sem aðgreinir okkur. . . Mesti vitnisburðurinn sem kirkjan getur borið Kristi á þröskuldi nýrrar aldar er að opinbera almætti raunnándar Endurlausnarans í ávöxtum þeirrar trúar, vonar og kærleika sem er fyrir hendi í konum og körlum ólíkra tungumála og þjóðernis sem gengið hafa í fótspor Krists með ýmsum hætti með hliðsjón af kristinni köllun sinni.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga
SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet