« Hinir þrír myrku dagar (5)Hinir þrír myrku dagar (4) »

04.11.06

  09:15:51, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 580 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 4. nóvember 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 14. 1, 7-11

Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar, og höfðu þeir gætur á honum. Jesús gaf því gætur, hvernig þeir, sem boðnir voru, völdu sér hefðarsætin, tók dæmi og sagði við þá: „Þegar einhver býður þér til brúðkaups, þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið, að manni þér fremri að virðingu sé boðið, 9og sá komi, er ykkur bauð, og segi við þig: ,Þoka fyrir manni þessum.' Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti. Far þú heldur, er þér er boðið, og set þig í ysta sæti, svo að sá sem bauð þér segi við þig, þegar hann kemur: ,Vinur, flyt þig hærra upp!' Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum, er sitja til borðs með þér. Því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.“

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Karl Borromeo (1538-1584), siðbótarmann og hvatamann að baki kirkjuþingsins í Trent. Hugleiðing dagsins: Heil. Bernard frá Clairvaux (1091-1153), sístersíani og kirkjufræðari. Predikun 37 um Ljóðaljóðin: Set þig í ysta sæti

Ef við gætum séð ljóslega sannleikann um okkar eigið ástand með augum Guðs, þá bæri okkur skylda að leita hvorki upp á við eða niður frá stöðu okkar, heldur að breyta til samræmis við sannleikann í öllum hlutum. Þar sem dómur Guðs er engu að síður í myrkri og orð hans hulið okkur er okkur vissulega hollara og hin öruggi vegur að fylgja tilmælum þess sem er sannleikurinn og setja okkur í ysta sætið. Ef til vill verðum við hafnir síðar til sæmdar. Ef þið gangið í gegnum lágar dyr skaðið þið ykkur ekki með því að lúta lágt, en ef þið gangið inn um þær hnakkakertir þó að það sé ekki meira en sem nemur einni fingurbreidd munuð þið reka ykkur í dyrastafinn sjálfum ykkur til tjóns. Þannig þarf engum að standa stuggur af of mikilli auðmýkingu, heldur ber honum að vera á varðbergi gagnvart minnstu ummerkjum sjálfsupphafningar.

Þess vegna skuluð þið varast að bera ykkur saman við ykkur betri menn eða þá sem standa ykkur neðar, hvort þeir eru svo nokkrir eða aðeins einn. Hvernig getið þið vitað nema það sé einmitt sá sem þið teljið verstan og aumkunarverðastan allra sem verður ykkur til hvað mestrar uppfræðslu? . . . Hvernig getið þið vitað, segi ég, að hann muni ekki standa ykkur sjálfum og öðrum framar í fyllingu tímans með hjálp hægri handar hins Hæsta, ef hann gerir það nú þegar í augum Guðs? Það er af þessum sökum sem Guð æskir þess að við kjósum okkur hvorki sæti í miðjunni eða næst ysta sætið, heldur það sem er yst vegna þess að hann sagði: „Set þig í ysta sæti,“ þannig að þið sitjið þar einir og lítilsigldastir allra til þess að þið berið ykkur ekki saman við aðra, hvað þá heldur að hefja ykkur upp í annarra augum.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet