« Ritningarlesturinn 5. júlí 2006Ritningarlesturinn 3. júlí 2006 »

04.07.06

  06:23:05, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 438 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 4. júlí 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists þriðjudaginn 4. júlí er úr Matteusarguðspjalli 8. 23-27

23 Nú fór hann í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. 24 Þá gjörði svo mikið veður á vatninu, að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. 25 Þeir fara til, vekja hann og segja: „Herra, bjarga þú, vér förumst.“ 26 Hann sagði við þá: „Hví eruð þér hræddir, þér trúlitlir?“ Síðan reis hann upp og hastaði á vindinn og vatnið, og varð stillilogn. 27 Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.“

Í dag minnist kirkjan: Hl. Elísabetar frá Portúgal

Hugleiðing dagsins: Hl. Ágústínus frá Hippo (Norðurafríku), biskup og kirkjufræðari,
Íhuganir, 37. kafli

„Herra, bjarga þú!“

Ó Guð minn! Hjarta mitt er ávallt eins og stormúfið úthaf. Megi það öðlast frið og hvíld í þér. Þú hastaðir á vindinn og vatnið og þegar raust þín ómaði varð stillilogn. Kom þú og hasta á öldurót hjarta míns þannig að allt sem þar er að finna kyrrist og hljóðni svo að ég geti höndlað þig. Þig sem ert mín einu gæði og íhugað þig sem ert yndi og ljós augna minna án ókyrrðar og huliðshjúps. Ó Guð minn. Megi sál mín öðlast frelsi frá ókyrrð hugsana þessa heims og leita skjóls í skugga vængja þinna (Sl 17. 8). Megi hún búa þér stað hvíldar, endurnæringar og friðar og hrífast í fögnuði, þannig að hún geti sungið: Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, Drottinn, lætur mig búa hultan í náðum (Sl 4. 9).

Megi sál mín leggjast til hvíldar er það sem ég bið þig um Guð minn. Megi hún leggjast til hvíldar frá öllu sem er undir himninum og einungis vera árvökul gagnvart þér einum, eins og skrifað er: Ég sef, en hjarta mitt vakir (Ll 5. 2). Guð minn! Sál mín öðlast einungis frið og öryggi í skjóli vængja þinna (Sl 91. 4). Megi hún hvíla að eilífu í þér og uppljómast í eldi þinum svo að hún rísi upp yfir sjálfa sig og geti íhugað þig og sungið þér lof í ljúfleika sínum. Í allri þeirri ókyrrð sem sækir að mér megi náð þín vera mér ljúf huggun uns ég kem til þín, ó, hinn sanni friður.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga.

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet