« Bjargið alda – borgin mín Að taka þátt í hjálpræðisverki kirkjunnar fullir ákafa með hliðsjón af þörfum tímans. »

03.09.06

  08:41:29, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 524 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 3. september 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Markúsi 7. 1-8; 14-15 og 21-23

Nú safnast að honum farísear og nokkrir fræðimenn, komnir frá Jerúsalem. Þeir sáu, að sumir lærisveina hans neyttu matar með vanhelgum, það er óþvegnum höndum. farísear, og reyndar Gyðingar allir, eta ekki nema þeir taki áður handlaugar, og fylgja þeir svo erfðavenju forfeðra sinna. Og ekki neyta þeir matar, þegar þeir koma frá torgi, nema þeir hreinsi sig áður. Margt annað hafa þeir gengist undir að rækja, svo sem að hreinsa bikara, könnur og eirkatla. Farísearnir og fræðimennirnir spyrja hann: "Hvers vegna fylgja lærisveinar þínir ekki erfðavenju forfeðranna, heldur neyta matar með vanhelgum höndum?" Jesús svarar þeim: "Sannspár var Jesaja um yður hræsnara, þar sem ritað er: Þessi lýður heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér. Til einskis dýrka þeir mig, er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar. Þér hafnið boðum Guðs, en haldið erfikenning manna." Aftur kallaði hann til sín mannfjöldann og sagði: "Heyrið mig allir, og skiljið. Ekkert er það utan mannsins, er saurgi hann, þótt inn í hann fari. Hitt saurgar manninn, sem út frá honum fer." Því að innan frá, úr hjarta mannsins, koma hinar illu hugsanir, saurlifnaður, þjófnaður, manndráp, hórdómur, ágirnd, illmennska, sviksemi, taumleysi, öfund, lastmælgi, hroki, heimska. Allt þetta illa kemur innan að og saurgar manninn."

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Gregor páfa hinn mikla (540?-604).  Hugleiðing dagsins: Skjöl Annars Vatíkanþingsins, Gaudium et Spes, 82: Friðurinn kemur að innan úr hjörtum mannanna

Vandamál friðar og afvopnunar hefur þegar verið inntak umfangsmikillar, erfiðrar og sífelldrar umfjöllunar. Slík umfjöllun jafnhliða alþjóðlegum ráðstefnum sem taka þetta efni til umfjöllunar ætti að líta á sem fyrstu skrefin til að leysa úr þessum vandmeðförnu spurningum og leggja ætti enn frekari áherslu á slíkt til að komast að áþreifanlegum niðurstöðum. Engu að síður ættu menn að varast að gera einungis kröfur til annarra án þess að hyggja að eigin framgöngu. . .

Það er til lítils að stefna að friði meðan fjandskapur, fyrirlitning og vantraust rétt eins og kynþáttahatur og ósveigjanleg hugmyndakerfi sundra einingunni meðal manns og skipa þeim í andstæðar fylkingar. Um fram allt annað er þörf á endurmenntun hinnar huglægu afstöðu og endurvakningu hvað áhrærir almenningsálitið. Þeir sem helgað hafa sig uppfræðslu, einkum uppfræðslu æskunnar eða hafa mótandi áhrif á almenningsálitið ættu fyrst og fremst að telja það þungamiðju starfs síns að fræða alla um aukna tilfinningu fyrir friðnum. Öll þörfnumst við endurnýjaðs hugarfars hjartans þegar við horfum til allrar heimsbyggðarinnar og þess sem glætt getur eininguna þannig að mannkynið gangi á framfarabraut.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet