« Ritningarlesturinn 4. júlí 2006Ritningarlesturinn 2. júlí 2006 »

03.07.06

  05:19:49, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 623 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 3. júlí 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists mánudaginn 3. júlí er úr Jóhannesarguðspjalli 20. 24-29

24 En einn af þeim tólf, Tómas, nefndur tvíburi, var ekki með þeim, þegar Jesús kom. 25 Hinir lærisveinarnir sögðu honum: „Vér höfum séð Drottin.“ En hann svaraði: „Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa.“ 26 Að viku liðinni voru lærisveinar hans aftur saman inni og Tómas með þeim. Dyrnar voru læstar. Þá kemur Jesús, stendur mitt á meðal þeirra og segir: „Friður sé með yður!“ 27 Síðan segir hann við Tómas: „Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar, og kom með hönd þína og legg í síðu mína, og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður.“ 28 Tómas svaraði: „Drottinn minn og Guð minn!“ 29 Jesús segir við hann: „Þú trúir, af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir, sem hafa ekki séð og trúa þó.“

Í dag minnist kirkjan: Hl. Tómasar postula

Hugleiðing dagsins: Basíl frá Selesíu (? - 468), biskup
Predikun um upprisuna, 1-4.

Trú þú og verð postuli minn

„Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar.“ Þú leitaðir mín meðan ég var fjarri, en gríptu nú tækifærið. Þrátt fyrir þögn þína veit ég hvað þér býr í brjósti. Áður en þú opnar varirnar veit ég hvað þú hugsar. Ég heyrði þegar þú talaðir og þrátt fyrir að ég væri ósýnilegur stóð ég þér við hlið í efasemdum þínum. Án þess að gera mig sýnilegan lét ég þig bíða til að gefa óþolinmæði þinni nánari gætur. „Kom hingað með fingur þina og sjá hendur mínar, og kom með hönd þína og legg í síðu mína, og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður!“

Þá snart Tómas hann og öll vantrú hans gufaði upp og gagntekinn einlægri trú og elsku þeirri sem hann skuldaði Guði, hrópaði hann: „Drottinn minn og Guð minn!“ Og Drottinn sagði við hann: „Þú trúir, af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir, sem hafa ekki séð og trúa þó.“ Tómas, færðu þeim tíðindin af upprisu minni sem ekki hafa séð mig. Fáðu alla jarðarbúa til að trúa ekki því sem þeir sjá, heldur orðum þínum. Farðu til fjarlægs fólks og borga. Kenndu fólki að bera krossinn fremur en vopn. Gerðu ekkert annað en að kunngera mig. Fólk mun trúa þér og tilbiðja mig. Það mun ekki krefjast frekari sannanna. Segðu því að það sé kallað í náð og íhuga þú trú þess: „Sælir eru þeir, sem hafa ekki séð og trúa þó.“

Þannig er sá her sem Drottinn kemur á fót. Þannig eru börn skírnarlaugarinnar, verk náðarinnar og uppskera Andans. Þau fylgdu Kristi án þess að hafa séð hann. Þau leituðu hans og trúðu. Þau báru skyn á hann með augum trúarinnar, en ekki þeim líkamlegu. Þau settu fingur sína ekki í naglaförin heldur umvöfðu kross hans og píslir. Þau sáu ekki síðusár Drottins en sameinuðust honum í náðinni og urðu limir líkama hans og gerðu orð Drottins að sínum: „Sælir eru þeir, sem hafa ekki séð og trúa þó.“

© Bræðralag kristinna trúarkenninga.

SJÁ VEFRIT KARMELS
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet