« Hinn takmarkalausi vöxtur – Dionysíus Areopagíti.Ritningarlesturinn 2. desember 2006 »

03.12.06

  08:54:00, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 593 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 3. desember 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 21. 25-28, 34-36

„Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný. Menn munu gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því, er koma mun yfir heimsbyggðina, því að kraftar himnanna munu bifast. Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð. En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd. Hafið gát á sjálfum yður, að hjörtu yðar þyngist ekki við svall og drykkju né áhyggjur þessa lífs og komi svo dagur sá skyndilega yfir yður eins og snara. En koma mun hann yfir alla menn, sem byggja gjörvalla jörð. Vakið því allar stundir og biðjið, svo að þér megið umflýja allt þetta, sem koma á, og standast frammi fyrir Mannssyninum.“

Í dag fagnar kirkjan: Fyrsta sunnudegi í aðventu. Hugleiðing dagsins: Heil. Jóhannes Chrysostomos (um 345-407), byskup í Antiokkíu og síðar Miklagarði, kirkjufræðari. Hugvekja um 39. Davíðssálminn: Hinar tvær komur Krists

Í fyrstu aðventu sinni kom Guð án dýrðar, ókunnur flestum og hélt leyndardómi hins hulda lífs síns leyndum árum saman. Þegar hann kom niður af Ummyndunarfjallinu bað Jesús lærisveina sína að greina engum frá því að hann væri Kristur. Þá kom hann eins og Hirðir til að leita týnda sauði sína uppi og til þess að hemja hið vegvillta fé varð hann að vera hulinn. Rétt eins og læknir sem gætir þess að hræða sjúkling sinn í upphafi, forðaðist Drottinn að gera sig kunnan í upphafi boðunarstarfs síns. Hann gerði það einungis í stigvaxandi mæli. Spámaðurinn boðaði þennan atburð ekki með hástemmdum orðum: „Hann mun falla sem regn á slægjuland, sem regnskúrir er vökva landið“ (Sl 72. 6). Hann svipti ekki sundur himnunum til að koma á skýi, heldur kom hann í þögn í skaut meyjar og hún bar hann í níu mánuði. Hann fæddist í jötu eins og sonur lítilláts handverksmanns. Hann gekk um líkt og hver annar maður og klæði hans voru fábrotin og borð hans enn fátæklegra.

En síðari koma hans verður ekki sem þessi. Hann mun koma í þvílíkri dýrð að ekki verður nauðsynlegt að kunngera komu hans: „Eins og elding sem leiftrar frá austri til vesturs, svo mun verða koma Mannssonarins“ (Mt 24. 27). Þetta verður tími dóms og dómsuppkvaðningar. Og Drottinn mun ekki birtast sem læknir, heldur sem dómari. Daníel spámaður sá hásæti hans og eldstraumur gekk út frá honum og hásæti hans voru eldslogar og hjólin undir því eldur brennandi (Dan 7. 9-10). Og Davíð konungur og spámaður greindi aðeins frá dýrð og hátign og eldi á alla vegu: „Eyðandi eldur fer fyrir honum og í kringum hann geisar stormurinn“ (Sl 50. 3). Allar þessar samlíkingar miðast að því að gera okkur hátign Guðs skiljanlega, þann dýrðarljóma sem umvefur hann og hið óaðgengilega eðli hans.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet