« Ritningarlesturinn 4. ágúst 2006Ritningarlesturinn 2. ágúst 2006 »

03.08.06

  07:27:11, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 527 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 3. ágúst 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mt 13. 47-53

„Enn er himnaríki líkt neti, sem lagt er í sjó og safnar alls kyns fiski. Þegar það er fullt, draga menn það á land, setjast við og safna þeim góðu í ker, en kasta þeim óætu burt. Svo mun verða, þegar veröld endar: Englarnir munu fara til, skilja vonda menn frá réttlátum og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. Hafið þér skilið allt þetta?“ „Já,“ svöruðu þeir. Hann sagði við þá: „Þannig er sérhver fræðimaður, sem orðinn er lærisveinn himnaríkis, líkur húsföður, sem ber fram nýtt og gamalt úr forðabúri sínu.“ Þegar Jesús hafði lokið þessum dæmisögum, hélt hann þaðan.
Í dag minnist kirkjan: Heil. Péturs Julian Eymards (1811-1868), stofnanda Samfélags hins blessaða sakramentis. Hugleiðing dagsins: Heil. Ágústínus (354-430), biskup frá Hippo (Norðurafríku) og kirkjufræðari. Umfjöllun um sálm 95 (96). 14-15: „Þeir drógu það [netið] að landi og safna þeim góðu í ker.“

„Hann mun dæma heiminn með réttlæti og þjóðirnar eftir trúfesti þeirra“ (Sl 96. 13). Með hvaða réttlæti og trúfesti? Hann mun safna sínum útvöldu saman (Mk 13. 27), hina mun hann aðskilja frá þeim vegna þess að hann þá fyrri mun hann setja sér til hægri handa, hina til þeirrar vinstri (Mt 25. 33). Hvað er réttlátara og trúfastara en þetta? Þeir sem vilduð ekki auðsýna miskunn fyrir komu dómarans geta ekki vænst miskunnar af hans hálfu. Þeir sem voru miskunnsamir verða dæmdir af miskunnsemi (Lk 6. 37). Og hann mun segja við þá sem hann skipaði sér til hægri handar: „Komið þér, hinir blessuðu Föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var fyrirbúið frá grundvöllun heimsins.“ Og hann mun auðsýna þeim miskunn: „Því að hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka“ og allt annað sem kemur á eftir (sjá Mt 25. 31 o. áfr.). . .

Þrátt fyrir að þið séuð óréttlát, mun þá dómarinn ekki verða réttlátur? Þar sem þið segið stundum ósatt, mun þá sannleikurinn ekki vera trúfastur? Ef þið viljið ganga á fund miskunnsams dómara, þá skuluð þið auðsýna miskunnsemi áður en hann kemur. Fyrirgefið ef einhver hefur gert á hlut ykkar, gefið af gnægtum ykkar. . . Gefið eitthvað af því sem hann hefur gefið ykkur: „Og hvað hefur þú sem þú hefur ekki þegið?“ (1Kor 4. 7). Þetta eru þær fórnir sem eru Guði velþóknanlegar: Miskunnsemi, auðmýkt, þakklæti, friður og kærleiki. Ef við berum þetta fram að fórn getum við beðið dómarans áhyggjulaus, hans sem „mun dæma heiminn með réttlæti og þjóðirnar eftir trúfesti þeirra.“

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet