« Ritningarlesturinn 1. nóvember 2006 | Hinir þrír myrku dagar (1) » |
Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lk 13. 18-21
Hann sagði nú: „Hverju er Guðs ríki líkt? Við hvað á ég að líkja því? Líkt er það mustarðskorni, sem maður tók og sáði í jurtagarð sinn. Það óx og varð tré og fuglar himins hreiðruðu sig í greinum þess.“ Og aftur sagði hann: „Við hvað á ég að líkja Guðs ríki? Líkt er það súrdeigi, er kona tók og fól í þrem mælum mjöls, uns það sýrðist allt.“
Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Wolfgang frá Regensburg (um 924-994), biskup. Hugleiðing dagsins: Heil. Jóhannes Chrysostomos (um 345-407), erkibiskup í Miklagarði og kirkjufræðari. Hugvekja 20 um Postulasöguna: Að vera súrdeig heimsins
Ekkert er eins átakanlegt eins og kristinn einstaklingur sem hirðir ekkert um hjálpræði annarra. Þú getur ekki borið við örbirgð vegna þess að þá verður fátæka ekkjan sem gaf smáaurana tvo að ákæranda þínum (Mk 12. 42). Og Pétur sagði við lama manninn: „Gull og silfur á ég ekki“ (P 3. 6). Páll var svo snauður að iðulega var hann hungraður. Þú getur ekki borið því við að þú eigir uppruna að rekja til snauðs fólks vegna þess að postularnir voru einnig einfaldir menn af lágum ættum. Þú getur ekki borið við menntunarskorti vegna þess að þeir voru einnig ólærðir menn. Jafnvel þó að þú værir strokuþræll gætir þú lagt þitt af mörkum vegna þess að þannig var Onesímus og hversu mjög heiðraði Páll hann ekki. Þú getur ekki borið við heilsubresti vegna þess að þannig var komið fyrir Tímoþeusi. Hver sem svo hver og einn er getur hann aðstoðað náunga sinn, ef einungis viljinn er fyrir hendi.
Íhugaðu tré skógarins, hversu sterkbyggð þau eru, fögur og hávaxinn. En ef við ættum skrúðgarð vildum við miklu fremur rækta þar eplatré eða olífutré sem gæfu góða uppskeru. Fögur tré sem bera engan ávöxt, þannig er fólk sem ber engan ávöxt . . .
Ef súrdeigið sem blandað er saman við hveitið breytti ekki deiginu í sitt eigið eðli, væri þá um súrdeig að ræða? Ef ilmolían gefur ekki frá sér ljúfa angan, er þá unnt að kalla hana ilmolíu? Segðu því ekki: „Það er óhugsandi með öllu að ég geti haft góð áhrif á aðra.“ Ef þú ert kristinn einstaklingur er slíkt með öllu útilokað vegna þess að slíkt liggur í eðli kristinna manna. Það er auðveldara fyrir sólina að gefa ekki frá sér yl og ljós, en að ljósið streymi ekki frá kristnum einstaklingi.
© Bræðralag kristinna trúarkenninga
VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html