« Ritningarlesturinn 1. ágúst 2006Ritningarlesturinn 30. júlí 2006 »

31.07.06

  07:19:20, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 552 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 31. júlí 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mt 13. 31-35

Aðra dæmisögu sagði hann þeim: „Líkt er himnaríki mustarðskorni, sem maður tók og sáði í akur sinn. Smæst er það allra sáðkorna, en nær það vex, er það öllum jurtum meira, það verður tré, og fuglar himins koma og hreiðra sig í greinum þess.“ Aðra dæmisögu sagði hann þeim: „Líkt er himnaríki súrdeigi, er kona tók og fól í þrem mælum mjöls, uns það sýrðist allt.“ Þetta allt talaði Jesús í dæmisögum til fólksins, og án dæmisagna talaði hann ekki til þeirra. Það átti að rætast, sem sagt er fyrir munn spámannsins: Ég mun opna munn minn í dæmisögum, mæla fram það, sem hulið var frá grundvöllun heims.
Í dag minnist kirkjan: Heil. Ignatíusar frá Loyola. Hugleiðing dagsins:Heil. Jóhannes af Krossi (1542-1591), karmelskur djúphyggjumaður og kirkjufræðari. Logi lifandi elsku, 1, 13-14: „Smæst er það allra sáðkorna, en nær það vex, er það öllum jurtum meira.“

Þegar ljós skín á og hreinsar hreinan kristal sjáum við, að eftir því sem ljósmagnið verður meira upplýsist kristallinn meira og því meiri birtu leggur frá honum. Hann verður svo skínandi bjartur sökum gnægta ljóssins sem hann meðtekur, að hann virðist verða allur að ljósi. Og þá er ekki unnt að greina kristalinn frá ljósinu vegna þess að hann er upplýstur eftir fremsta megni, en það felst í því að verða eins og ljós. . . Þegar sálin segir að logi elskunnar særi hana í hennar dýpstu miðju, þá á hún við að þegar þessi logi nær til eðliskjarna hennar, getu og styrks, þá sé það Heilagur Andi sem geri áhlaup á sig og særi sig. Hún grípur ekki til þessara ummæla til að gefa í skyn, að þetta sár sé eins eðlislægt og óaðskiljanlegur hluti hennar eins og í ásæi fullsælunnar í næsta lífi. Þrátt fyrir að sálin nái til jafn háleits stigs fullkomleika eins og við erum að fjalla um hér í þessu dauðlega lífi, þá nær hún engu að síður ekki hinu fullkomna stigi dýrðarinnar, jafnvel þó að Guð kunni að veita henni hliðstæða náðargjöf sem líður síðan hjá. En sálin greinir frá þessu til að opinbera fyllingu og ríkidæmi þess ljúfleika og dýrðar sem hún sannreynir í þessu samfélagi sínu við Heilagan Anda. Þessi gleði er því áhrifaríkari og ljúfari eftir því sem sálin ummyndast með fyllri hætti og eðlislægari í einbeitingu sinni í Guði. Þar sem þessi miðja er sú hinsta sem unnt er að öðlast í núverandi lífi, þrátt fyrir að hún sé ekki eins fullkomin og í því næsta, þá skírskotar sálin til hennar sem sinnar dýpstu miðju.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet