« Ritningarlesturinn 1. september 2006Ég sárbæni ykkur um að hafa í ykkar hópi þá sem þarfnast gæsku ykkar. Bregðist ekki í þessu! »

31.08.06

  06:19:48, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 642 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 31. ágúst 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mt 24. 42-51

Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur. Það skiljið þér, að húsráðandi vekti og léti ekki brjótast inn í hús sitt, ef hann vissi á hvaða stundu nætur þjófurinn kæmi. Verið þér og viðbúnir, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi. Hver er sá trúi og hyggni þjónn, sem húsbóndinn hefur sett yfir hjú sín að gefa þeim mat á réttum tíma? Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur. Sannlega segi ég yður: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar. En ef illur þjónn segir í hjarta sínu: ,Húsbónda mínum dvelst,' og hann tekur að berja samþjóna sína og eta og drekka með svöllurum, þá mun húsbóndi þess þjóns koma á þeim degi, sem hann væntir ekki, á þeirri stundu, sem hann veit ekki, höggva hann og láta hann fá hlut með hræsnurum. Þar verður grátur og gnístran tanna.
Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Raymond Nonnatus (d. 1240), verndardýrling mæðra og ljósmæðra.  Hugleiðing: Jóhannes Páll páfi II, Vitnisburðir: „Þið verðið að undirbúa ykkur með sama hætti.“

„Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur.“ Þessu vil ég gefa gætur og bregðast við til samræmis við það. Ég vil gera allt til þess að líf mitt á jörðinni sé undirbúningur fyrir þessa stund. Ég veit ekki hvenær hún rennur upp, en eins og allt annað fel ég hana á hendur Móður Meistarans: Totus Tuus (Allur þinn). Ég fel allt og alla sem orðið hafa á vegi mínum í postullegu starfi mínu þessum sömu móðurhöndum á vald. En um fram allt annað fel ég henni kirkjuna á hendur og þjóð mína og allt mannkynið. Ég þakka sérhverjum og einum og bið alla um fyrirgefningu. Ég bið einnig fólk að biðja þannig að miskunn Guðs verði vanmætti mínum og smæð meiri (6. mars 1979). . .

Sérhver einstaklingur verður að gera ráð fyrir dauðanum. Sá hinn sami verður að undirbúa sig svo að hann sé reiðubúinn til að ganga fram fyrir Drottin og dóm hans, hans sem jafnframt er Endurlausnari og Faðir. Þetta hef ég sjálfur leitast við að gera í sífellu og falið Móður Krists og kirkjunnar þessa örlagastund á hendur – Móður allra minna væntinga. . .

Enn og aftur vil ég fela sjálfan mig að öllu leyti vilja Drottins á hendur. Hann mun ákveða hvenær og hvernig mínu jarðneska lífi og postullegri þjónustu ljúki. Í lífi mínu og dauða er ég Totus Tuus fyrir hina Flekklausu. Ég samþykki þennan dauða þegar í dag og ég vænti þess að Kristur muni gefa mér náð hinstu skrefin, það er að segja þegar brottfararstundin rennur upp. Ég geri mér jafnframt þær vonir að hún þjóni þeim háleita málstað sem ég leitast við að þjóna: Endurlausn mannkynsins og að standa vörð um fjölskylduna og með þessu allar þjóðir og þjóðarbrot (meðal þeirra ber ég mitt jarðneska heimaland sérstaklega fyrir brjósti), að hún megi verða því fólki til sérstakrar hjálpar sem hann hefur falið mér á hendir, öllu lífi kirkjunnar Guði sjálfum til dýrðar (1. mars 1980).

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet