« Ritningarlesturinn 31. júlí 2006Ritningarlesturinn 29. júlí 2006 »

30.07.06

  05:17:02, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 743 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 30. júlí 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Jh 6. 1-15

Eftir þetta fór Jesús yfir um Galíleuvatn eða Tíberíasvatn. Mikill fjöldi manna fylgdi honum, því þeir sáu þau tákn, er hann gjörði á sjúku fólki. Þá fór Jesús upp á fjallið og settist þar niður með lærisveinum sínum. Þetta var laust fyrir páska, hátíð Gyðinga. Jesús leit upp og sá, að mikill mannfjöldi kom til hans. Hann segir þá við Filippus: „Hvar eigum vér að kaupa brauð, að þessir menn fái að eta?“ En þetta sagði hann til að reyna hann, því hann vissi sjálfur, hvað hann ætlaði að gjöra. Filippus svaraði honum: „Brauð fyrir tvö hundruð denara nægðu þeim ekki, svo að hver fengi lítið eitt.“ Annar lærisveinn hans, Andrés, bróðir Símonar Péturs, segir þá við hann: „Hér er piltur, sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska, en hvað er það handa svo mörgum?“ Jesús sagði: „Látið fólkið setjast niður.“ Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu. Nú tók Jesús brauðin, gjörði þakkir og skipti þeim út til þeirra, sem þar sátu, og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu. Þegar þeir voru mettir, segir hann við lærisveina sína: „Safnið saman leifunum, svo ekkert spillist.“ Þeir söfnuðu þeim saman og fylltu tólf körfur með leifum byggbrauðanna fimm, sem af gengu hjá þeim, er neytt höfðu. Þegar menn sáu táknið, sem hann gjörði, sögðu þeir: „Þessi maður er sannarlega spámaðurinn, sem koma skal í heiminn“ Jesús vissi nú, að þeir mundu koma og taka hann með valdi til að gjöra hann að konungi, og vék því aftur upp til fjallsins einn síns liðs.
Í dag minnist kirkjan: Heil. Péturs Chrysologusar. Hugleiðing dagsins:Jóhannes Páll páfi II. Hirðisbréfið „Mane Nobiscum Domine“ fyrir Ár Evkaristíunnar, § 15-16: „Nú tók Jesús brauðin, gjörði þakkir og skipti þeim út til þeirra“

Það er hafið upp yfir allan vafa að augljósasta hlutverk Evkaristíunnar er hlutverk hennar sem máltíðar. Evkaristían varð til að kveldi skírdags þegar páskamáltíðarinnar var neitt. Hlutverk hennar sem máltíðar liggur í eðli hennar: „Takið og etið . . . Og hann tók kaleik, gjörði þakkir, gaf þeim og sagði: Drekkið allir hér af“ (Mt 26. 26, 27). Sem slík tjáir hún samfélag það sem Guð þráir að eiga við okkur og við verðum að eiga hvert við annað.

En einnig ber að hafa í huga að Evkaristían felur fyrst og fremst í sér djúpstæða merkingu sem fórnarmáltíð. í Evkaristíunni leiðir Kristur okkur aftur fyrir sjónir þá fórn sem borin var fram á Golgata. Hann er til staðar í Evkaristíunni sem hinn upprisni Drottinn, en ber engu að síður merki písla sinna, en sérhver messa er „minning“ um þetta, eins og við erum minnt á í helgisiðunum með helgunarorðunum: „Við boðum dauða þinn, Drottinn, og upprisu þína . . .“ Jafnframt því sem Evkaristían leiðir okkur það fyrir sjónir sem gerðist í fortíðinni, er hún hvatning til að horfa til framtíðar þegar Kristur kemur aftur í lok tímanna. Í þessu ljósi endatímans dregur sakramenti Evkaristíunnar okkur til sín og gæðir kristna vegferð okkar von.

Allt þetta inntak Evkaristíunnar í heild gerir um fram allt annað kröfu til trúar: Á leyndardómi „raunnándarinnar.“ Við trúum því í ljósi kirkjulegrar arfleifðar að Jesú sé hér undir mynd efnanna . . . Það er einmitt þessi raunnánd hans sem leiðir annað hlutverk Evkaristíunnar í ljós – sem máltíð til minningar um páskaleyndardóminn, sem væntingu endatímans – atriði sem nær langt út yfir táknrænt merkingargildi. Evkaristían er leyndardómur nærverunnar, fullkomin staðfesting á fyrirheiti Jesú um að vera með okkur allt til enda veraldarinnar.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet