« Hróp Krists í djúpi mannshjartansRitningarlesturinn 31. ágúst 2006 »

01.09.06

  06:22:06, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 631 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 1. september 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mt 25. 1-13

Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar, sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína. Fimm þeirra voru fávísar, en fimm hyggnar. Þær fávísu tóku lampa sína, en höfðu ekki olíu með sér, en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum. Nú dvaldist brúðgumanum, og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu. Um miðnætti kvað við hróp: ,Sjá, brúðguminn kemur, farið til móts við hann.' Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína. En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: ,Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum.' Þær hyggnu svöruðu: ,Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður.' Meðan þær voru að kaupa, kom brúðguminn, og þær sem viðbúnar voru, gengu með honum inn til brúðkaupsins, og dyrum var lokað. Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: ,Herra, herra, ljúk upp fyrir oss.' En hann svaraði: ,Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.' Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.

Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Giles frá Castaneda (d. 710).   Hugleiðing dagsins: Heil. Ágústínus (354-430), biskup frá Hippo og kirkjufræðari. Predikun 93: „Um miðnættið“

Meyjarnar tíu vildu allar fara út til móts við brúðgumann. Hvað felst í því að ganga út til móts við brúðgumann? Það er að ganga út af hjartans einlægni, að lifa í eftirvæntingu komu hans. En hann sló komu sinni á frest og „þær urðu allar syfjaðar og sofnuðu.“ Hvað býr að baki þessara orða: „þær sofnuðu allar“? Til er svefn sem engin getur umflúið. Minnist orða Páls postula: „Ekki viljum vér, bræður, láta yður vera ókunnugt um þá, sem sofnaðir eru“ (1Þ 4. 13), það er að segja þá sem eru dánir. Þannig hafa þeir allir sofnað. Haldið þið að hyggnu meyjarnar geti umflúið dauðann? Nei, hvort sem þær eru hyggnar eða fávísar verða þær allar að gangast í gegnum svefn dauðans.

„Um miðnætti kvað við hróp.“ Hvað táknar þetta? Þetta gerist á þeirri stundu þegar engin leiðir að því hugann né væntir þess. Hann kemur á þeirri stundu þegar við eigum þess síst von. Hvers vegna kemur hann með þessum hætti? Vegna þess að hann segir: „Ekki er það yðar að vita tíma eða tíðir, sem Faðirinn setti af sjálfs sín valdi“ (P 1. 7). Postulinn Páll segir: „Dagur Drottins kemur sem þjófur um nótt“ (1Þ 5. 2). Vakið því um næturskeiði svo að þjófurinn komi ykkur ekki í opna skjöldu. Hvort sem þið viljið það eða ekki mun svefn dauðans óhjákvæmilega koma.

Engu að síður mun þetta einungis gerast um miðnættið þegar hróp kveður við. Hvað er þetta hróp annað en það sem Páll postuli víkur að svofelldum orðum: „Í einni svipan, á einu augnabragði, við hinn síðasta lúður. Því lúðurinn mun gjalla og þá munu hinir dauðu upp rísa óforgengilegir, og vér munum umbreytast“ (1Þ 15. 52). Eftir að hrópið kveður við um miðnæturskeið kemur Brúðguminn. Hvað mun gerast? „Þá vöknuðu meyjarnar og risu á fætur.“

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet