« Hinir þrír myrku dagar (3)Stef úr hljómkviðu þagnar næturvökunnar »

02.11.06

  08:54:11, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 900 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 2. nóvember 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mt 25. 31-46

„Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. Sauðunum skipar hann sér til hægri handar, en höfrunum til vinstri. Og þá mun konungurinn segja við þá til hægri: ,Komið þér, hinir blessuðu Föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims. Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín.' Þá munu þeir réttlátu segja: ,Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka? Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig? Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín?' Konungurinn mun þá svara þeim: ,Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.' Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: ,Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans. Því hungraður var ég, en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég, en þér gáfuð mér ekki að drekka, gestur var ég, en þér hýstuð mig ekki, nakinn, en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi, en ekki vitjuðuð þér mín.' Þá munu þeir svara: ,Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan eða þyrstan, gestkominn eða nakinn, sjúkan eða í fangelsi, og hjálpuðum þér ekki?' Hann mun þá svara þeim: ,Sannlega segi ég yður: Það allt sem þér gjörðuð ekki einum hinna minnstu bræðra minna, það hafið þér ekki heldur gjört mér.' Og þeir munu fara til eilífrar refsingar, en hinir réttlátu til eilífs lífs.“

Í dag heiðrar kirkjan: Minningu allra trúfastra sálna sem lifa í Sigrandi kirkju himnanna, Allra sálna messa. Hugleiðing dagsins: Heil. Aphrahate (?-um 345), einsetumaður og biskup í Níneve, nærri Mósúl í Írak nútímans. Hugljómanir, 22: „Ekki er hann Guð dauðra, heldur lifenda, því að honum lifa allir“ (Lk 20. 38)

Hinir réttlátu, gæskuríku og spöku óttast ekki né skjálfa á beinunum á dauðastundinni sökum þeirrar væntingar sem bíður þeirra. Þeir minnast dauðans í sífellu, útgöngu sinnar (exodus) og hins hinsta dags þegar börn Adams fæðast. Páll, postulinn, sagði: „Samt sem áður hefur dauðinn ríkt frá Adam til Móse einnig yfir þeim sem höfðu ekki syndgað því að syndin kom í heiminn fyrir Adam“ (sjá Rm 5. 14, 12). Þannig kom dauðinn til allra frá Móse allt til enda veraldarinnar. Samt sem áður predikaði Móse að að ríki hans væri lagt í auðn. Dauðinn vænti þess að hann gæti fjötrað alla menn og yrði eilífur konungur þeirra. En þegar hinn Heilagi kallaði á Móse úr runnanum, sagði hann við Móse: „Ég er Guð föður þíns. Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs“ (2M 3. 6). Þegar dauðinn heyrði þessi orð tók hann að skjálfa og riða á fótum og gerði sér ljóst að Guð er konungur dauðra og lifenda og það væri fyrirhugað börnum Adams að ganga út úr myrkraríki hans. Og veitið því eftirtekt að þetta eru sömu orðin sem Jesús, Endurlausnari okkar, endurtók í viðræðum sínum við Saddúkeana: „Ekki er hann Guð dauðra, heldur lifenda, því að honum lifa allir“ (Lk 20. 38).

Þegar Jesús sem lagði dauðann af velli kom og íklæddist líkama af sæði Adams og var hann krossfestur og smakkaði á dauðanum. Þegar dauðinn skynjaði að hann væri kominn og stæði andspænis sér, þá lauk hann hliði sínu aftur. En Kristur braut hlið hans og gekk inn til hans og gjöreyddi eignum hans. En þegar hinir dauðu sá ljós í myrkrinu lyftu þeir höfðum sínum undan oki dauðans og horfðu fram á við og sáu dýrð Messíasarkonungsins.

Og dauðinn sá að myrkur hans tók að hörfa og sumir hinna réttlátu sem sváfu risu upp og stigu upp með honum. Þá sagði Drottinn við hann að þegar hann kæmi í fyllingu tímans myndi hann leysa alla úr ánauð hans og þeir myndu ganga fram til að sjá ljósið.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

1 athugasemd

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

En þessi guðspjallstexti gefur tilefni til margra annarra hugleiðinga að auki. Karl Rahner, SJ, skrifaði t.d. í grein sinni ‘Þjónusta fangelsispresta’ um hina djúpu merkingu að baki þess, að okkur ber að sjá Krist sjálfan í meðbræðrum okkar, þ.m.t. þeim sem eru í fangelsum (ég þyrfti að birta hér þýðingu mína á þeirri löngu, en gefandi grein hans, sjá Kirkjuritið, 4. hefti 1975, s. 306–318). Þar fá menn vissa útleggingu á hluta þessa texta í Mattheusarguðspjalli.

En mér er einnig tamt að minna menn á Krist sem dómarann, sem hér kemur fram, eins og ljóst er af 31. versinu. Í tízku hefur verið á 20. öld sú rómantíska guðfræði, sem einnig gekk undir nafninu ‘nýguðfræðin’, ‘frjálslynda guðfræðin’ og ‘aldamótaguðfræðin’. Þessi guðfræði var í raun niðurrifsstefna – hafnaði mörgum mikilvægum atriðum í kristinni trú, þar á meðal, að Kristur væri dómari, sem dæma myndi suma til eilífrar refsingar. En hér hafa menn svart á hvítu staðfestinguna á þeirri kristnu kenningu: Mt. 25.31–46. Hver sem augu hefur að sjá, lesi og trúi!

04.11.06 @ 00:24