« Ritningarlesturinn 3. júlí 2006Kaþólska fréttasjáin: Vikan 25. júní til 30. júní 2006 »

02.07.06

  04:55:26, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 680 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 2. júlí 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists sunnudaginn 2. júlí er úr Markúsarguðspjalli 5. 21-24; 35-43

21 Þegar Jesús kom aftur yfir um á bátnum, safnaðist að honum mikill mannfjöldi, þar sem hann var við vatnið. 22 Þar kom og einn af samkundustjórunum, Jaírus að nafni, og er hann sá Jesú, féll hann til fóta honum, 23 bað hann ákaft og sagði: „Dóttir mín litla er að dauða komin. Kom og legg hendur yfir hana, að hún læknist og lifi.“ 24 Jesús fór með honum. Og mikill mannfjöldi fylgdi honum, og var þröng um hann. 35 Meðan hann var að segja þetta, koma menn heiman frá samkundustjóranum og segja: „Dóttir þín er látin, hví ómakar þú meistarann lengur?“ 36 Jesús heyrði, hvað þeir sögðu, en gaf ekki um, heldur sagði við samkundustjórann: „Óttast ekki, trú þú aðeins.“ 37 Og nú leyfði hann engum að fylgja sér nema Pétri og þeim bræðrum Jakobi og Jóhannesi. 38 Þeir koma að húsi samkundustjórans. Þar sér hann, að allt er í uppnámi, grátur mikill og kveinan. 39 Hann gengur inn og segir við þá: „Hví hafið þér svo hátt og grátið? Barnið er ekki dáið, það sefur.“ 40 En þeir hlógu að honum. Þá lét hann alla fara út og tók með sér föður barnsins og móður og þá sem með honum voru, og gekk þar inn, sem barnið var. 41 Og hann tók hönd barnsins og sagði: „Talíþa kúm!“ Það þýðir: „Stúlka litla, ég segi þér, rís upp!“ 42 Jafnskjótt reis stúlkan upp og fór að ganga um, en hún var tólf ára. Og menn urðu frá sér numdir af undrun. 43 En hann lagði ríkt á við þá að láta engan vita þetta og bauð að gefa henni að eta.

Í dag minnist kirkjan: Hl. Olivers Plunkett (1629-1681), írsks erkibiskups og píslarvotts
http://www.americancatholic.org/features/SaintofDay/

Hugleiðing dagsins: Joseph Ratzinger kardínáli [Benedikt páfi XVI]
Úr Der Gott Jesu Christi

„Stúlka litla, ég segi þér, rís upp!“

„Því að þú ofurselur Helju eigi líf mitt“ (Sl 16. 10). Þessi ritningarorð rætast í Jesú í þeirri staðreynd að hann reis upp á þriðja degi áður en líkaminn varð eyðingunni að bráð. Hinn nýi dauði Jesú lá til grafarinnar, en ekki eyðingar. Þetta er dauði dauðans . . . Þessi sigur yfir mætti dauðans einmitt þar sem dauðinn virðist allsráðandi er afar mikilvægur þáttur í vitnisburði Biblíunnar: Kraftur Guðs sem virðir sköpun sína er ekki bundinn lögmáli dauða sköpunarinnar.

Vissulega er dauðinn óaðskiljanlegur hluti núverandi heims. En í dag eins og ávallt leitast maðurinn við að vinna sigur á dauðanum, raunverulega en ekki með afneitun. Upprisa Jesú greinir okkur frá því að þessi sigur er raunverulegur möguleiki, að hann sé ekki óafturkallanlegur í uppruna sínum hvað áhrærir gerð hins skapaða, efnisins . . . Auk þess greinir hún okkur frá því að sigurinn yfir takmörkunum dauðans er óhugsandi með læknisfræðilegum aðferðum í öllum sínum fullkomleika. Þessi sigur er einungis staðreynd sökum sköpunarmáttar Orðs Guðs í elskunni. Einungis þetta tvennt er þess megnugt til að umbreyta eðli efnisins með svo róttækum hætti að takmörk dauðans eru lögð að velli.

Trú á upprisuna er játning þess að Guð er til í raun og veru og trú á sköpun Guðs, trú á því skilyrðislausa „jái“ sem setur mark sitt á samband Guðs við sköpun sína og efnið . . . Það er þetta sem gerir okkur kleift að syngja hallelúja Páskanna í þeim heimi sem ógnarvald skugga dauðans hvílir yfir.

© Confraternity of Christian Doctrine

SJÁ VEFRIT KARMELS
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

1 athugasemd

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Allir kristnir menn eru sköpunarsinnar, en uppruni lífsins á jörðinni er mikill leyndardómur. Þegar við segjum við Guð: „Guð, sýndu mér hvernig þú skapaðir heiminn?,“ þá gleymist allt annað en Guð í Guði, sköpunin fölnar frammi fyrir hátign hans.

Ég tel að við byrjum á öfugum enda þegar við leitumst við að svara spurningunni. Í stað upphafs sköpunarinnar eigum við að horfa á SIGUR KRISTS YFIR DAUÐANUM. Það leiðir okkur fyrir sjónir
„sköpunarmáttar Orðs Guðs í elskunni,“ eins og Benedikt páfi orðar svo réttilega hér að ofan. Líf Guðs sem sigrast á VALDI DAUÐANS, HIÐ EILÍFA LÍF. Vissulega færði Drottinn okkur þetta líf með píslum sínum á krossi í nýrri LÍFSSKÖPUN.

02.07.06 @ 05:04