« Ritningarlesturinn 3. ágúst 2006Ritningarlesturinn 1. ágúst 2006 »

02.08.06

  05:52:42, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 422 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 2. ágúst 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mt 13. 44-46


Líkt er himnaríki fjársjóði, sem fólginn var í jörðu og maður fann og leyndi. Í fögnuði sínum fór hann, seldi allar eigur sínar og keypti akur þann. Enn er himnaríki líkt kaupmanni, sem leitaði að fögrum perlum. Og er hann fann eina dýrmæta perlu, fór hann, seldi allt, sem hann átti, og keypti hana.


Í dag minnist kirkjan: Heil. Eusebius frá Vercelli (283?-371).  Hugleiðing dagsins: Heil. Jóhannesar Chrysostomos (um 345-407), biskups í Antiokkíu og síðar Miklagarði, kirkjufræðara. 18. hugvekjan um Hebreabréfið: „Hann fór og seldi allar eigur sínar“

„Fátæktin er uppspretta auðmýktar,“ segja Ritningarnar (sjá Ok 10. 4). Og Kristur hóf sæluboð sín með því að segja: „Sælir eru fátækir í anda“ (Mt 5. 2). . . Viljið þið heyra borið lof á fátæktina? Sjálfur umvafði Jesú Kristur hana, hann sem var svo snauður að hann átti „hvergi höfði sínu að að halla“ (Mt 8. 20). Páll postuli hans sagði: „Vér erum öreigar, en eigum þó allt“ (2Kor 6. 10). Og Pétur tók svo til orða: „Silfur og gull á ég ekki“ (P 3. 6). Við skulum því ekki líta á fátæktina sem vansæmd sem dyggð sökum þess að öll auðæfi heimsins eru sem strá og aur. Því skulum við elska örbirgðina ef við þráum að eignast Konungsríki himnanna. „Far og sel eigur þínar fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himnum“ (Mt 19. 21). . .


Engir eru eins auðugir og þeir sem umvefja fátæktina fúslega og upplifa í fögnuði. Þeir eru auðugri en keisari. Konungar óttast að þeir muni líða skort, en þá snauðu sem við erum að tala um skortir ekkert og óttast ekkert. Því spyr ég ykkur, hver þessara tveggja er auðugri: Sá sem lifir stöðugt í ótta eða sá sem nýtur hins smáa sem gnægta?


Peningarnir gera okkur að þrælum, eins og Ritningarnar segja: „blinda augu hins spaka“ (Sír 20. 29). . . Því skalt þú deila eigum þínum með hinum snauðu og þá munt þú heyra orðin blessunarríku einhvern daginn: „Komið þér, hinir blessuðu, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heimsins“ (Mt 25. 34).


© Bræðralag kristinna trúarkenninga


SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet