« Mikjálsmessa – Um kraft (dynamos) Heilags AndaRitningarlesturinn 28. september 2006 »

29.09.06

  07:28:37, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 603 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 29. september 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag eða á Mikjálsmessu er úr Jh 2. 47-51

Jesús sá Natanael koma til sín og sagði við hann: „Hér er sannur Ísraelíti, sem engin svik eru í." Natanael spyr: „Hvaðan þekkir þú mig?" Jesús svarar: „Ég sá þig undir fíkjutrénu, áður en Filippus kallaði á þig." Þá segir Natanael: „Rabbí, þú ert sonur Guðs, þú ert konungur Ísraels." Jesús spyr hann: „Trúir þú, af því að ég sagði við þig: ,Ég sá þig undir fíkjutrénu'? Þú munt sjá það, sem þessu er meira." Og hann segir við hann: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð sjá himininn opinn og engla Guðs stíga upp og stíga niður yfir Mannssoninn."
Í dag heiðrar kirkjan: Heil. Mikjál erkiengil, heil. Gabríel erkiengil og heil. Rafael erkiengil. Hugleiðing dagsins: Heil. Basil hinn mikli (um 330-379), munkur og biskup í Kappadókíu, kirkjufræðari. Ritgerð um Heilagan Anda, 16. kafli: Heilagleiki englanna

„Fyrir orð Drottins voru himnarnir gjörðir og allir himnavættirnir fyrir anda munns hans“ (Sl 22. 6, Septuagintan). Hérna berum við skyn á hina Þrjá, Drottinn sem skipar fyrir, Orðið sem skapar og Heilagan Anda sem ber vitni. Og hvað getur þessi vitnisburður falið í sér annað en fullkomnun í heilagleika? Þessi fullkomleiki tjáir stöðugleika og festu í gæskunni, en ekki er um neina helgun að ræða án Heilags Anda. Hinir himnesku tignarvættir. Heilagleikinn er ekki eðli himnavættanna. Þá væri enginn munur á þeim og Heilögum Anda. Þeir meðtaka heilagleika sinn frá Heilögum Anda með hliðsjón af tignarröð sinni . . .

Ef til vill er verund þeirra óefnislegur andi eða eldur, eins og ritað er: „Þú gjörir vindana að sendiboðum þínum, bálandi eld að þjónum þínum“ (Sl 104. 4). Þeir eru til í rúmi og geta orðið sýnilegir og birst í líkamlegri mynd fyrir þeim sem eru þess verðir. En heilagleika þeirra má rekja til samfélags þeirra við Heilagan Anda. Þeir halda tignarröðum sínum með því að vera stöðugir í gæskunni og sannleikanum, en halda þó frjálsum vilja sínum. Þeir snúa aldrei baki við honum sem eru hin sanna gæska sökum stöðuglyndis síns . . .

Hvernig væru englarnir þess umkomnir að hrópa „Dýrð sé Guði í upphæðum“ (Lk 2. 14) nema í krafti Heilags Anda? Þetta er sökum þess að enginn getur sagt „Jesús er Drottinn“ nema af Heilögum Anda og enginn getur sagt „Bölvaður sé Jesú“ (1Kor 12. 3) eins og andar illskunnar í fjandskap sínum og frjálsum vilja. Hvernig gætu „hin ósýnilegu hásæti og herradómar, tignir og völd“ (Kol 1. 16) lifað blessuðu lífi sínu ef þeir sjá ekki „jafnan auglit míns himneska Föður?“ (Mt 18. 10). En slíkt ásæi er óhugsandi nema í Heilögum Anda! . . . Hvernig gætu serafarnir hrópað „Heilagur, heilagur, heilagur“ (Jes 6. 3) ef þeir yrðu ekki aðnjótandi uppfræðslu Andans? Þegar allir englar hans og himneskir tignarvættir lofa Guð, þá er það sökum þess að þeir lúta stjórn Andans. Ef „þúsundir og þúsundir“ standa frammi fyrir honum ásamt „tíu þúsund sinnum tíu þúsund“ þjónustubundinna anda, þá inna þeir þessa flekklausu þjónustu af hendi í krafti Andans. Öll hin dýrlega og óumræðilega samhrynjan hins æðsta himins fær þannig einungis staðist sökum leiðsagnar Andans.

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet