« Ritningarlesturinn 30. október 2006Ritningarlesturinn 28. október 2006 »

29.10.06

  08:06:53, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 435 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 29. október 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Mk 10. 46-52

Þeir komu til Jeríkó. Og þegar hann fór út úr borginni ásamt lærisveinum sínum og miklum mannfjölda, sat þar við veginn Bartímeus, sonur Tímeusar, blindur beiningamaður. Þegar hann heyrði, að þar færi Jesús frá Nasaret, tók hann að hrópa: „Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!“ Margir höstuðu á hann, að hann þegði, en hann hrópaði því meir: „Sonur Davíðs, miskunna þú mér!“ Jesús nam staðar og sagði: „Kallið á hann.“ Þeir kalla á blinda manninn og segja við hann: „Vertu hughraustur, statt upp, hann kallar á þig.“ Hann kastaði frá sér yfirhöfn sinni, spratt á fætur og kom til Jesú. Jesús spurði hann: „Hvað vilt þú, að ég gjöri fyrir þig?“ Blindi maðurinn svaraði honum: „Rabbúní, að ég fái aftur sjón.“ Jesús sagði við hann: „Far þú, trú þín hefur bjargað þér.“ Jafnskjótt fékk hann sjónina og fylgdi honum á ferðinni.

Hugleiðing dagsins: Heil. Narcissus frá Jerúsalem (d. 215), biskup og einsetumaður. Hugleiðing dagsins: Heil. Gregor páfi hinn mikli (um 540-604), kirkjufræðari. Hugvekja um guðspjöllin, 2: „Jesús, Sonur Davíðs, miskunna þú mér!“

Ritningarnar draga með réttu upp fyrir okkur mynd af þessum blinda manni sem situr við vegbrúnina og biður um ölmusu því að sjálfur Sannleikurinn sagði: „Ég er vegurinn“ (Jh 14. 6). Þannig er sá sem ber ekki skyn á tærleika hins eilífa ljóss blindur.

Jafnvel þó að hann trúi þegar á Endurlausnarann, þá situr hann við vegbrúnina. Ef hann trúir nú þegar en vanrækir að biðja um að sér sé gefið þetta eilífa ljós og ef hann vanrækir að biðja, þá getur þessi blindi maður setið við vegbrúnina, en hann beiðist ekki ölmusu. En ef hann trúir, ef hann gerir sér blindu hjarta síns ljósa og biður til að öðlast ljós sannleikans, þá er hann sannarlega þessi blindi maður sem situr við vegbrúnina og biður einnig um ölmusu.

Megi því sá sem gerir sér ljóst myrkur blindu sinnar og skynjar að hann er sviptur hinu eilífa ljósi hrópa úr djúpi hjarta síns af öllum sálarkröftum: „Jesús, Sonur Daviðs, miskunna þú mér!“
© Bræðralag kristinna trúarkenninga

VEFRIT KAMELS
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet