« Ritningarlesturinn 30. júní 2006Daglegir ritningarlestrar »

29.06.06

  05:31:37, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 607 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 29. júní 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists fimmtudaginn 29. júní er úr Matteusarguðspjalli 16. 13-19

13 Þegar Jesús kom í byggðir Sesareu Filippí, spurði hann lærisveina sína: „Hvern segja menn Mannssoninn vera?“ 14 Þeir svöruðu: „Sumir Jóhannes skírara, aðrir Elía og enn aðrir Jeremía eða einn af spámönnunum.“ 15 Hann spyr: „En þér, hvern segið þér mig vera?“ 16 Símon Pétur svarar: „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.“ 17 Þá segir Jesús við hann: „Sæll ert þú, Símon Jónasson! Hold og blóð hefur ekki opinberað þér þetta, heldur faðir minn á himnum. 18 Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína, og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. 19 Ég mun fá þér lykla himnaríkis, og hvað sem þú bindur á jörðu, mun bundið á himnum, og hvað sem þú leysir á jörðu, mun leyst á himnum.“

Í dag minnist kirkjan: Hl. Páls og hl. Péturs

Hugleiðing dagsins: Hl. Leó hinn mikli (? um 461), páfi og kirkjufræðari
Predikun 82/69 í Minningu Péturs og Páls postula

„Þegar þú ert orðinn gamall mun annar leiða þig þangað sem þú vilt ekki“ (Jh 21. 18)

Þú óttaðist ekki að koma til þessarar borgar, Rómar, ó heilagur Pétur postuli. Þér stóð ekki stuggur af Róm, hórkonu heimsins, þú sem varðst gripinn skelfingu í höll Kaífasar þegar þú stóðst andspænis þjónustustúlku æðsta prestsins. Vóg vald Kládíusar og Nerós keisara þá ekki jafn þungt og dómur Pílatusar eða bræði leiðtoga Gyðinga? Nei, það var sökum þess að máttur elskunnar hafði unnið sigur í þér. Þú óttaðist ekki að fara til þeirra sem þú varst leiddur til svo að þú gætir elskað þá. Þú gekkst þegar undir merki kærleikans eftir að Drottinn styrkti þig með því að endurtaka spurningu sína þrisvar (Jh 21. 15). Til að trúnaðartraust þitt gæti vaxið enn meira gerðust mörg kraftaverk, náðargjöfum var úthellt og svo margt undursamlegt bar að höndum. Þannig efaðist þú ekki um að verk þitt bæri ávöxt og jafnframt því að gera þér þann tíma sem þér var ætlaður ljósann, barst þú sigurvinning kross Krists til Rómar þar sem hin guðdómlega ráðsályktun hafði bæði fyrirbúið þér heiður valdsins og dýrð píslarvættisins.

Heilagur Páll kom einnig til þessarar sömu borgar. Hann var postuli ásamt þér, útvalið verkfæri (P 9. 19) og kennari heiðingjanna (1 Tm 2. 7). Hann kom til að dvelja með þér á þeim tíma sem allt sakleysi, frelsi og siðgæði var horfið sjónum sökum kúgunar Nerós, en í geðvillu sinni varð hann fyrstur til að hefja ofsóknir á hendur kristnum mönnum, rétt eins og dauði hinna heilögu gæti stöðvað náð Guðs í verki. Dýr er í augum Drottins dauði dýrkenda hans (Sl 116. 15). Engin illvirki voru þess umkomin að uppræta þá trú sem grundvölluð er á leyndardómi kross Krists. Kirkjunni hnignar ekki, heldur eflist hún þvert á móti með ofsóknum. Akur Drottins er í sífellu skrýddur mikilli uppskeru þegar fræið eina fellur í jörð til að bera ávöxt (Jh 12. 24). Hvílíkur var ekki sá ávöxtur sem þessar tvær himnesku jurtir báru: Þúsundir heilagra píslarvotta sem tóku hina tvo sigursælu postula sér til fyrirmyndar og krýndu þessa borg kórónu greypta ótal eðalsteinum.

© Confraternity of Christian Doctrine.

No feedback yet