« Ritningarlesturinn 30. júlí 2006Ritningarlesturinn 28. júlí 2006 »

29.07.06

  07:35:33, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 463 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Ritningarlesturinn 29. júlí 2006

Heilagt guðspjall Jesú Krists í dag er úr Lúkas 10. 38-42

Á ferð þeirra kom Jesús í þorp nokkurt, og kona að nafni Marta bauð honum heim. Hún átti systur, er María hét, og settist hún við fætur Drottins og hlýddi á orð hans. En Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu. Og hún gekk til hans og mælti: „Herra, hirðir þú eigi um það, að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér.“ En Drottinn svaraði henni: „Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu, en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.“

Í dag minnist kirkjan: Heil. Mörtu. Hugleiðing: Heil. Ágústínus (354-430), biskup í Hippo (Norðurafríku) og kirkjufræðari. Predikun 103. 1, 2 ; PL 38, 613: „Og kona að nafni Marta bauð honum heim.“

Marta og María voru systur. Þær voru ekki einungis samrýmdar sökum blóðbanda, heldur einnig í guðrækni sinni. Báðar voru þær nákomnar Drottni og þjónuðu honum með einu hjarta meðan hann lifði hér á jörðinni. Marta tók á móti honum líkt og við tökum venjulega á móti ferðamanni. Hún var þjónn sem fagnaði Húsbónda sínum, eins og sá sem fagnar Frelsara sínum, sköpun sem fagnar Skapara sínum . . . Drottinn vildi taka á sig þjóns mynd svo að þjónar gætu satt hungur hans . . .

Hérna sjáum við Drottinn þegar honum er fagnað sem gesti. „Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum. En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn“ (Jh 1. 11-12). Þjónarnir sem höfðu öðlast erfðaréttinn með þessum hætti urðu að bræðrum hans, hinir ánauðugu sem leystir höfðu verið úr fjötrum urðu að samerfingjum hans. En enginn á meðal ykkar á að taka sér eftirfarandi orð í munn: Sælir eru þeir sem urðu þeirrar gæfu aðnjótandi að fagna Kristi á sínu eigin heimili. Harmið slíkt ekki og verið ekki hrygg í bragði yfir að hafa fæðst á tímum þegar þið getið ekki séð Drottin í holdi og blóði. Hann hefur ekki svipt ykkur náð sinni, hann, sem sagði: „Sannlega segi ég yður: Allt það, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér“ (Mt 25. 40).

© Bræðralag kristinna trúarkenninga

SJÁ VEFRIT KARMELS:
http://tabernacleoftheheart.com/Vefrit_Karmels/Greinar%20og%20skrif/Ritningarlestrar/Inngangur/Inngangur.html

No feedback yet